27.10.1980
Neðri deild: 6. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 242 í B-deild Alþingistíðinda. (168)

20. mál, skipan opinberra framkvæmda

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að taka undir og lýsa yfir stuðningi mínum við það frv. sem liggur hér til umr., frv. til l. um breyt. á l. nr. 63/1970, um skipan opinberra framkvæmda. En ég vil ganga lengra. Ég flutti fyrir nokkrum árum — ég man nú ekki upp á dag hvenær það var — brtt. varðandi tvær ríkisstofnanir. Annað var Grænmetisverslun ríkisins eða Framleiðsluráð og hitt var Innkaupastofnun ríkisins. Ég gerði að tillögu minni í báðum tilfellum að þessar tvær stofnanir fengju yfir sig þingkjörna stjórn, en báðar till. voru felldar. Ég tel að það sé í sama anda og þessi till. hér.

Auðvitað á að bjóða út verk á vegum opinberra aðila. Við höfum fundið það í Reykjavíkurborg, að verktakar utan af landi hafa boðið í verk hjá okkur og fengið verk á vegum borgarinnar. Af hverju á stofnun eins og Innkaupastofnun að vera stjórnlaus, má segja, ef menn skilja hvað ég á við, — ekki stjórnlaus í þeim skilningi, að starfsfólkið vinni ekki vel sín störf, heldur er þar engin yfirstjórn sem tekur ákvarðanir, starfsfólkið gerir það sjálft. Ég tel að það sé alls ekki rétt að staðið. Það er hægt að bjóða út verk á vegum Innkaupastofnunar ríkisins og er gert, en það er líka hægt að bjóða út vörur og innkaup á vegum ríkisins og á að gera það. Og það er stjórnskipuð nefnd sem á að fjalla um það, en ekki starfsfólkið.

Ég vil benda á þá brtt. sem ég flutti á sínum tíma í sambandi við lögin um Framleiðsluráð, Grænmetisverslun ríkisins er einokunaraðili við innkaup á grænmeti, t.d. kartöflum, einokunaraðili að kaupum á þeim vörutegundum til landsins.

Ég gerði það að gamni mínu, þegar ég heyrði um hina miklu síldveiði nú fyrir nokkrum dögum og sá stóra stafla af síldartunnum, að spyrja hvernig þær væru keyptar inn. Jú, ég náði í einn aðila sem hafði gert tilboð. Það var ekki hlustað á það tilboð, ekki litið á það. Síldarútvegsnefnd sjálf semur um það, starfsmenn hennar. Þetta er óeðlilegt. Af hverju fer ekki fram opinbert útboð?

Þó ég styðji þetta frv. og allt það sem frsm. sagði því til stuðnings, vil ég benda á að mér finnst að það hefði mátt ganga lengra og láta það líka taka til innkaupa á vegum opinberra aðila.