17.12.1980
Efri deild: 37. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1596 í B-deild Alþingistíðinda. (1690)

176. mál, vörugjald

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Þar sem ég átti þess ekki kost að vera við 2. umr. þessa máls vegna starfa minna í fjvn. vil ég nota tækifærið og segja nokkur orð um þetta mál.

Hér er á ferðinni enn nýtt frv. um nýjan skatt, og kom fram í fjvn. rétt áðan að þessi nýi skattur mun gefa ríkissjóði tekjur, leggja á nýjar skattbyrðar sem munu verða allmiklu hærri en aðlögunargjald sem á að fella niður. Við höfum gjarnan kallað þetta mál í hv. fjh.- og viðskn. „negrakossamálið“, því að það eru kirfilega fram taldar í grg. fjmrn. allar þær tegundir af sælgæti, sem þetta gjald leggst á, og þar er alveg sérstaklega tilfært hvernig það leggst m.a. á negrakossa.

Ég vildi alveg sérstaklega vekja athygli á því, að þessi nýi skattur á að koma í staðinn fyrir aðlögunargjald, en samkv. lögunum um aðlögunargjald átti það að renna svo til óskipt til sérstakra iðnþróunaraðgerða. Það var upplýst í hv. fjh.- og viðskn., að aðlögunargjald hefði fengist samþykkt af Efnahagsbandalaginu og Fríverslunarbandalaginu, EFTA, vegna þess rökstuðnings, að iðnaðurinn þyrfti á slíkum iðnþróunaraðgerðum að halda í lok aðlögunartímabilsins.

Þessi skattur verður almennur skattur til ríkissjóðs og ekkert af honum gengur sem sagt til iðnþróunaraðgerða. Þess vegna er hann í eðli sínu ekkert annað en einn viðbótarskatturinn enn í ríkissjóð. Þá telst mér til að frá því á þessu ári stefni hæstv. ríkisstj. að því að hækka skatta, eins og fjárlagafrv. ber með sér og þetta frv., a.m.k. um 15 milljarða kr. að raungildi frá því sem skattar voru í ár. Þetta er sem sagt þriðja árið í röð sem skattar eru þá stórlega þyngdir.

Í bréfi íslenskra iðnrekenda til alþm. segir um þetta mál, með leyfi forseta:

„Í gær var lagt fram á Alþingi frv. til l. um vörugjald á sælgæti, öl og gosdrykki, sem koma á í stað eldri laga um þessi efni. Það er gert ráð fyrir sjöföldun gjaldsins svo að tekjur ríkissjóðs árið 1981 verði 3.4 milljarðar kr. af þessu gjaldi í stað 480 millj. kr.“

Ég skal geta þess, að þessi áætlun er of lág miðað við það sem kom fram hjá sérfræðingum Þjóðhagsstofnunar í fjvn. áðan. Þar voru þeir með töluna 3.8 milljarða, ef ég man rétt. Ég held áfram að vitna í þetta bréf, með leyfi forseta:

„Gjaldi þessu er ætlað að bæta ríkissjóði upp það tap sem hann verður fyrir vegna þess að aðlögunargjald á erlendar iðnaðarvörur fellur niður um áramótin. Félag íslenskra iðnrekenda vilt minna á að í lögunum um aðlögunargjald er skýrt tekið fram, að tekjum af aðlögunargjaldi skuli varið til eflingar iðnþróunar, og þannig beinlínis tekið fram að það sé ekki sérstakur tekjustofn fyrir ríkissjóð. Hér er því um nýja skattheimtu að ræða sem er alls óskyld niðurfellingu aðlögunargjalds.

Í dag hélt stjórn Félags ísl. iðnrekenda — „þetta bréf er dagsett 12. des.“ — fund með framleiðendum í sælgætis-, öl- og gosdrykkjaiðnaði. Þar var ákveðið að mótmæla harðlega þessu frv. og á það bent, að nú þegar innheimti þessar iðngreinar meira en 3.5 milljarða kr. á ári til ríkissjóðs í formi sérstaks tímabundins vörugjalds og vörugjalds. Á fundinum kom fram, að verð á framleiðsluvörum þessara greina muni hækka stórlega verði frv. að lögum, og mun það valda verulegum samdrætti í starfsemi fyrirtækjanna. Vegna þess hafa þau tilkynnt vinnumálaskrifstofu félmrn. og Iðju að fjöldauppsagnir starfsmanna séu óumflýjanlegar komi til lagasetningar þessarar.“ — Að lokum er svo áskorun á þm. um að samþykkja ekki þetta frv.

Ég held að það sé mikið atriði fyrir hv. deild og fyrir allan almenning að gera sér glögga grein fyrir því, að þessi hækkun á vörugjaldi, þessi nýi skattur, sem ákveðin iðngrein á að innheimta fyrir ríkissjóð og getur valdið stórfelldum samdrætti hjá þessari iðngrein, er í engum tengslum við aðlögunargjaldið, en kemur sem viðbótarskattur í ríkissjóð. Þá er, a.m.k. eins og sakir standa nú, um að ræða 15 milljarða kr. skatt í þyngingu frá árinu í ár. Að vísu er mjög óljóst um ýmsa tekjuliði samkv. fjárlagafrv. Þannig er t.d. orðið ljóst núna að verði skattvísitala í fjárlagafrv. ekki leiðrétt munu tekju- og eignarskattar á almenning í ríkissjóð þyngjast á næsta ári um 7-8 milljarða kr. samkv. upplýsingum sem við fengum áðan í fjvn. Ég geri ráð fyrir að á það mál verði sérstaklega lítið, en inni í þessari tölu, sem ég tala hér um, um 15 milljarða kr. skattíþyngingu er ekki nema örlítið af hækkun á tekju- og eignarskatti.

Þessi tala er þannig fundin, að orkujöfnunargjald er lagt á núna allt árið, en var ekki lagt á nema hluta úr ári í fyrra, og gefur ríkissjóði 8 milljarða kr. meira í tekjur á þessu ári en í fyrra. Nýr skattur, innflutningsgjald á sælgæti, mun leggja 1200 millj. kr. a.m.k. á almenning. Þarna er um að ræða rúma 9 milljarða. Auk þess bætist þetta gjald við, og eflaust verður reynt að ganga þannig frá að nokkur hækkun verði á tekjuskatti og eignarskatti. Mér sýnist því að hægt sé, eins og sakir standa, að áætla að um verði að ræða 15 milljarða íþyngingu skatta á næsta ári að raungildi, eftir því sem best verður séð nú við þessa umræðu.