17.12.1980
Neðri deild: 34. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1600 í B-deild Alþingistíðinda. (1696)

172. mál, lántaka 1980 og 1981 og ábyrgðarheimildir

Frsm. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Fjh. og viðskn. hefur tekið til meðferðar frv. til 1. um heimildir til lántöku á árunum 1980 og 1981 og ábyrgðarheimildir. Þetta frv. er tvíþætt. Í fyrsta lagi er um að ræða heimild til lántöku að upphæð 4750 millj. sem þegar hefur verið ráðstafað af ríkisstj. og ekki verður breytt. Um það hafa hv. þm. Sighvatur Björgvinsson, Albert Guðmundsson, Matthías Á. Mathiesen og Matthías Bjarnason fyrirvara.

Þessi lántaka 4750 millj., er vegna framkvæmda og atburða sem hafa gerst á árinu 1980. Ég er þeirrar skoðunar, að erlend lántaka verði ekki fest niður í eitt skipti fyrir öll með ákveðnum hætti, en ég vil þó lesa hér upp úr nál., sem ég og hv. þm. Ingólfur Guðnason og Guðmundur J. Guðmundsson rituðu við afgreiðslu lánsfjárlaga fyrri árið 1980, í þessu sambandi, með leyfi hæstv. forseta. Þar sögðum við:

„Í lánsfjáráætluninni er gert ráð fyrir aukinni verðbréfasölu til lífeyrissjóða og söltu á verðtryggðum skuldabréfum til innlánsstofnana. Auk þess er gert ráð fyrir verulegri sölu á ríkisskuldabréfum. Undirritaðir nm. telja að halda verði erlendum lántökum innan þeirra marka, er fram kemur í frv., og ekki megi stofna til frekari erlendra lána.“

Á þessum forsendum var þetta frv. samþykkt, og ég vil nú leyfa mér að minna hæstv. ríkisstj. á að henni ber að sjálfsögðu að fara eftir þeim forsendum sem frumvörp í Alþingi eru samþykkt eftir. Við teljum hins vegar að ekki verði til baka snúið með þá erlendu lántöku sem hún hefur hér stofnað til. En ég vil leyfa mér að halda því fram, að það sé með öllu óeðlilegt að taka ný verk inn á lánsfjárlög þegar Alþingi hefur samþykkt löggjöf með þessum hætti og þessari röksemdafærslu. Ég get nefnt nokkur dæmi þessu til stuðnings, sem fram kemur í þessu frv., og vil ég vænta þess, að ríkisstjórnir virði betur þær forsendur sem liggi fyrir samþykkt lánsfjárlaga. Þetta á ekki við um þetta eina skipti, heldur hefur þetta verið með þessum hætti alla tíð.

Ég geri mér ljóst að það er erfitt að halda sig innan þessara marka, en það er afskaplega nauðsynlegt efnahagslega að það sé gert, og hæstv. ríkisstj. getur þá bent á Alþingi og haldið því fram, að Alþingi veiti henni ekki heimildir til að ráðast í frekari erlend lán. Hér má nefna hluti eins og t.d. þyrlukaup og ýmislegt annað sem kemur fram í þessu frv.

Ég skal ekki hafa fleiri orð um þetta að sinni, en vil minna á það, að fjh.- og viðskn. Nd. lítur alvarlegum augum á mál sem þetta.

Í öðru lagi fjallar frv. um heimild fyrir fjmrh. til að taka lán sem jafngildir 25 milljörðum gamalla króna á árinu 1981. Um þetta er samstaða í nefndinni, vil ég leyfa mér að segja, en þar kom fram að fjmrh. fái þessa heimild gegn því að greinin sé orðuð með öðrum hætti, eins og fram kemur í brtt. á þskj. 269, en þar segir:

„Fjmrh. fyrir hönd ríkissjóðs er heimilt að taka lán allt að jafnvirði 25 milljarða kr. í erlendum gjaldeyri á árinu 1981. Fjmrh. er heimilt að verja andvirði þess til framkvæmda á vegum ríkissjóðs og ríkisfyrirtækja eða endurláns til sveitarfélaga eða samtaka á þeirra vegum í samræmi við lánsfjáráætlun 1981“ og við bætist: „Þegar lánsfjárlög fyrir árið 1981 hafa verið samþykkt.“

Ég sé ekki ástæðu til að orðlengja frekar um þetta mál, en endurtek að nefndin leggur til að frv, verði samþykkt, en nokkrir hv. þm. hafa fyrirvara við undirskrift nál., eins og ég hef áður gert grein fyrir.