17.12.1980
Neðri deild: 34. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1605 í B-deild Alþingistíðinda. (1698)

172. mál, lántaka 1980 og 1981 og ábyrgðarheimildir

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég vil þakka fjh.- og viðskn. deildarinnar fyrir að hafa afgreitt þetta frv., bæði stjórnarliðum og stjórnarandstæðingum. Hins vegar verð ég að segja alveg eins og er, að þessi seinasta ræða, sem hér var flutt af hv. 3. þm. Vestf., Sighvati Björgvinssyni, var ein af dæmigerðum ræðum stjórnarandstæðings sem hefur ekki mikið til málanna að leggja, en þarf að reyna að velta sér upp úr einhverju til þess að láta líta svo út að hann sé að halda uppi hæfilegri stjórnarandstöðu. Þetta voru meira eða minna innantómar ásakanir sem hann veit sjálfur að eiga litla stoð í veruleikanum, en að vísu má alltaf búast við slíku þegar málefnafátækt er annars vegar.

Hann var með ásakanir í hneykslunartón um það, að réttum leikreglum hefði ekki verið fylgt, þó að hann viti sjálfur af langri reynslu sinni af þingstörfum að í þessum efnum hefur verið fylgt þeim lögum og venjum sem í gildi hafa verið. Auðvitað er það staðreynd, að Alþingi afgreiðir fjárlög á hverju ári sem veita ríkisstj. heimildir til ráðstöfunar á fjármunum ríkisins eftir ákveðinni áætlun sem þar er sett. En hv. þm. veit ósköp vel að þessi heimild stenst aldrei nákvæmlega. Ýmist er þar of eða van og stundum getur munað þar verulegum fjárhæðum, þannig að ríkisreikningurinn lítur aldrei nákvæmlega eins út og fjárlög gerðu í upphafi. Það getur bæði stafað af verðlagsbreytingum eða breyttum aðstæðum og vegna aukafjárveitinga. Nákvæmlega það sama gildir um lántöku ríkissjóðs eða ríkisstofnana. Það er aldrei hægt að segja nákvæmlega til um það fyrir fram í lánsfjárlögum, hve mikil þörf sé á lántökum á vegum ríkissjóðs og ríkisstofnana. Aftur á móti setur Alþingi ákveðna áætlun og veitir heimildir í samræmi við hana, en það er árlegur viðburður og hefur verið um langt skeið, að þar verði einhverjar breytingar á.

Alþingi samþykkir gjarnan aukafjárlög, sem eru raunverulega eftirástaðfesting Alþingis á þeim gjöldum sem farið hafa fram úr fjárveitingu. Og nákvæmlega það sama hefur gerst í sambandi við lántökurnar, að það hefur verið nær árlegur viðburður hér á Alþingi að flutt væri frv. til staðfestingar á þeim lántökum sem fram úr hafa farið. Ég minnist þess t.d., að þegar hv. 3. þm. Vestf. var fjmrh. var hér nákvæmlega sams konar frv. á ferðinni fyrir árið 1979. Ég man það nú satt að segja ekki, enda skiptir það í sjálfu sér engu máli, hvort það var hv. þm. Sighvatur Björgvinsson, sem flutti þá þetta frv. sem fjmrh., eða hvort fyrirrennari hans var búinn að flytja þetta frv. af hálfu stjórnar sem hv. þm. átti aðild að og studdi með ráðum og dáð þar til allt í einu hann og hans flokkur brugðu á annað ráð. En það skiptir ekki máli. Söm var gerðin á því haustinu. Og nákvæmlega sama gerðist haustið 1978. Þá var flutt frv. um eftirástaðfestingu Alþingis á lántöku sem hafði orðið meiri en ráð var fyrir gert. Þetta dreg ég hér fram ef ske kynni að einhverjir þm. væru svo illa að sér í þingvenjum og starfsháttum Alþingis að þeir vissu þetta ekki og héldu kannske að hv. þm. hefði verið að segja eitthvað merkilegt áðan. (HBI: Er ráðh. að segja að þm. sé ekki samkvæmur sjálfum sér?) Já, það skyldi nú ekki vera að eitthvað slíkt fælist í mínum orðum, því að ég held að það vilji allir, að svona hefur það gengið fyrir sig. En það er kannske hægt að telja einhverjum auðtrúa sálum trú um þetta, t.d. blaðamönnum frá fjölmiðlum, sem eru nýkomnir til starfa og þekkja lítið til þingstarfanna, eða þm. sem lítið hafa hér verið. En þetta nefni ég hér vegna þess að þetta er auðvitað ákaflega blekkjandi málflutningur.

Hv. þm. orðaði það þannig, að það væri tilgangslaust eða tilgangslítið fyrir Alþingi að samþykkja lánsfjáráætlun ef ríkisstj. gerði þar síðan breytingar á með því að bæta einhverju við. Við gætum með nákvæmlega sama rétti orðað þetta þannig: Það er alveg tilgangslaust fyrir Alþingi að setja fjárlög úr því að það koma til allar þessar aukafjárveitingar og allt sem bætist við vegna breyttra aðstæðna. En auðvitað vitum við öll að málflutningur af þessu tagi er tómt mál. Það þarf að setja ákveðinn ramma, bæði fyrir fjárlög og fyrir greiðslur úr ríkissjóði og fyrir lántökur. Síðan geta þar alltaf orðið einhverjar breytingar á.

Ég vildi líka mega benda þm. á það, af því að ég er ekki viss um að allir átti sig á því, að þær lántökur, sem hér eru tilgreinar til Rafmagnsveitna ríkisins, Jarðvarmaveitna ríkisins, Orkusjóðs og Landhelgissjóðs, eru ekki lántökur í heimildarleysi. Í lögum eru skýr ákvæði um það, að B-hluta fyrirtækjum er heimilt að taka lán með samþykki fjmrn. Það eru því skýrar lagaheimildir fyrir þessum lántökum. Hins vegar eru ekki ábyrgðarheimildir fyrir hendi í sambandi við allar þessar lántökur.

Sérstaklega á það við Orkubú Vestfjarða og hitaveiturnar og undirbúningsfélag um saltvinnslu á Reykjanesi og svo auðvitað þær leiðréttingar sem eru hér neðstar. Það var talið eðlilegt að taka þetta allt saman og bera fram í heildarfrv., þannig að þm. hefðu fullt yfirlit yfir þær lántökur, sem átt hefðu sér stað og það væri sem sagt veitt formleg heimild fyrir þessum lántökum sérstaklega, þó að segja megi að þegar sé í lögum heimild fyrir flestum þeirra.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta. Ég vil bara bæta því við, að ég er sannfærður um að það verður aldrei til ríkisstj. í landinu sem neyðist ekki til þess á þeim langa tíma, sem Alþingi er í sumarleyfi, að gera einhverjar breytingar á lántökum frá því sem er í lánsfjáráætlun, sérstaklega meðan verðbólga er í jafnstórum stíl í landinu og nú er og þeir erfiðleikar sem fylgja því að áætla nákvæmlega til einstakra verka.

Ég vil taka fram að ég hef að sjálfsögðu ekkert við það að athuga, að sú breyting verði gerð á 4. gr. sem nefndin gerir till. um. Auðvitað vildi hv. þm. reyna að færa þetta smáatriði í þann búning, að nú kæmi nefndin og bannaði ríkisstj. að ráðstafa þessum fjármunum og nú væri sem sagt sett undir þann leka, sem greinilega hefði þarna verið fyrir hendi, að þessum fjármunum yrði ráðstafað án heimildar. Auðvitað hvarflaði það ekki að nokkrum manni, hvorki ríkisstj. né öðrum sem til þekktu, að ráðstafað yrði grænum eyri, sem þarna var um að ræða, án þess að lánsfjáráætlun hefði verið samþykkt formlega hér í þinginu og afgreidd í tengslum við lánsfjárlög. Og raunar tók ég þetta sjálfur skýrt fram í framsöguræðu, — tók það mjög skýrt fram og lagði meira að segja til að athugað yrði hvort æskilegt væri að gera breytingu á þessari grein, ef mönnum fyndist orðalagið ekki alveg nægilega pottþétt.

Það hefur komið í ljós og ég er sammála því, að orðalagið þyrfti kannske að vera eilítið strangara til þess að hæfa efni málsins. Þá er sjálfsagt að gera á því breytingu og það stendur sannarlega ekki á mér að samþykkja hana því að auðvitað datt mér aldrei neitt annað í hug. Tilgangurinn með þessu er sá einn að tryggja í janúar þessa lántöku sem er óvenjulega hagstæð og með óvenjulegum kjörum.

Ég vil svo að lokum segja það, að ég er alltaf jafnhissa þegar menn eru að býsnast yfir því, að lánsfjáráætlun sé ekki afgreidd fyrir jól, vegna þess að staðreynd er að það hefur mjög sjaldan gerst. Ég mun að vísu hafa nefnt það hér um daginn, að þetta muni hafa aðeins einu sinni gerst. En við nána athugun málsins hefur niðurstaðan orðið sú, að á s.l. áratug gerðist þetta þrisvar, — það gerðist þrisvar sinnum að lánsfjáráætlun væri afgreidd fyrir áramót. Mér þykir gott að fá tækifæri hér til að leiðrétta þessa missögn mína í umr. um daginn. En eftir stendur hitt, að það hefur sem sagt miklu oftar gerst, margfalt oftar gerst, að lánsfjáráætlun væri ekki afgreidd fyrir nýár, og breytir að sjálfsögðu ekki neinu þó að svo fari nú. Lánsfjáráætlun liggur fyrir. Það er ljóst hver áform eru í þeim efnum, og það er því einungis formsatriði að ganga endanlega frá lánsfjáráætluninni eftir áramót.