17.12.1980
Neðri deild: 34. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1607 í B-deild Alþingistíðinda. (1699)

172. mál, lántaka 1980 og 1981 og ábyrgðarheimildir

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Það vekur athygli, að meiri hl. nm. fjh.- og viðskn. skrifar undir nál. um þetta frv. með fyrirvara. Og formaður nefndarinnar hefur gert sínar athugasemdir við framkvæmdir ríkisstj. sem ég þarf ekki að endurtaka, því að um það var ekki ágreiningur í nefndinni.

Í sambandi við 4. gr. frv. flytur fjh.- og viðskn. sameiginlega till. um það, að fjmrh. sé heimilt að verja andvirði þess láns til framkvæmda á vegum ríkissjóðs og ríkisfyrirtækja eða endurlána til sveitarfélaga og samtaka á þeirra vegum í samræmi við lánsfjáráætlun 1981 þegar lánsfjárlög fyrir árið 1981 hafa verið samþykkt. En með því orðalagi, sem var í 4. gr., að hafa þetta opið — þó að hæstv. ráðh. segi í aths. við 4. gr.: „Því er í þessu frv. leitað heimildar til lántöku allt að 25 milljarða kr. eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt. Hér er sami háttur hafður á og árið 1980, en lánsfé þessu verður ráðstafað í náinni samvinnu við fjvn.“ — Þetta þótti okkur ekki nógu fast að orði kveðið og ekki nógu ábyggilegt, hvað fælist í því, og því var sú breyting gerð á 4. gr. sem allir nm. standa að.

Við fulltrúar Sjálfstfl. í fjh.- og viðskn. ritum allir undir nál. með fyrirvara. Fyrirvari okkar felst í því, að við viljum ekki og tökum ekki ábyrgð á því að afgreiða 1. og 2. gr. frv. Ég átel það í fyrsta lagi, að frv. til lánsfjárlaga skuli ekki liggja fyrir og vera til afgreiðslu nú með fjárlagafrv. Hæstv. fjmrh. leiðrétti fyrri ræðu sína og hefur nú komist að þeirri niðurstöðu, að lánsfjáráætlun hafi á síðustu 10 árum verið afgreidd þrisvar sinnum fyrir áramót. En ég vil bæta hér nokkru við og minna hæstv. ráðh. á að það var ekki lagaskylda fyrr en á árinu 1979 að leggja hana fram með fjárlagafrv., og skýtur skökku við ef þá er fyrst hætt að leggja frv. til lánsfjárlaga fram þegar það er orðin lagaleg skylda.

Hin margumræddu Ólafslög svokölluð eða lög um stjórn efnahagsmála o.fl. gera ráð fyrir því, að með fjárlagafrv. hvert ár skuli leggja fram áætlun er lýsi í aðalatriðum meginstefnu í ríkisbúskapnum næstu þrjú árin eftir lok þess fjárhagsárs, sem fjárlagafrv. tekur til. Með þessari áætlun á að sýna í fyrsta lagi meginstefnu í ríkisfjármálum og þróun ríkisbúskaparins, í öðru lagi samræmi milli stefnunnar í ríkisfjármálum og í efnahagsog atvinnumálum, í þriðja lagi stefnumótun um öflun tekna og skiptingu gjalda ríkisins og í fjórða lagi stefnumótun um framlög á fjárlögum til fjárfestingar ríkis, fjárfestingarsjóða sveitarfélaga og einkaaðila. Þetta allt er brotið, og ég ætla ekki að álasa hæstv. fjmrh. fyrir það, þó að hann brjóti þetta allt saman. Til þess liggur ein ástæða. Það er engin meginstefna til í ríkisfjármálum hjá núv. ríkisstj. og það er þess vegna ekkert samræmi á milli stefnunnar í ríkisfjármálum og efnahags- og atvinnumálum. Þetta vantar allt saman, það vantar allt sem við á að éta. Þess vegna er ekki von að veslings fjmrh. geti lagt þetta fram. Hann hangir í lausu lofti, blessaður.

En þrátt fyrir þetta eru þetta lögbrot. Og það kemur úr hörðustu átt þegar einstakir ráðherrar ásaka ýmsa aðra í þjóðfélaginu fyrir að brjóta þessi lög, þegar þeir ganga á undan með sínu fordæmi sjálfir. Ég hef hvað eftir annað haldið því fram, að þessi lög ætti að afnema í heild. Alþfl. stóð að því að fá þessi lög í gegn hér á Alþingi og fulltrúar hans og þó alveg sérstaklega sá sem mest hefur rætt um efnahagsmál og siðferði í fjármálum. Hv. 9. þm. Reykv. hefur lýst því margoft yfir, eftir að Alþfl. fór úr ríkisstj., að þetta væru eiginlega orðin alveg marklaus lög.

Þrír ráðherrar, sem mega teljast til Sjálfstfl., voru á móti þessum Ólafslögum á sínum tíma. Þeir hafa ekki gefið neinar yfirlýsingar, enda heyrist afar lítið í þeim. Ég held að það sé orðið tímabært, þó að það verði nú að bíða úr þessu næsta árs, að láta reyna á hvort þessi svokölluðu Ólafslög eiga meirihlutafylgi hér á Alþingi. Sumir, sem stóðu að setningu þessara laga, eru vonsviknir yfir þeim, eins og ég nefndi áðan, en það má líka og er nauðsynlegt að láta reyna á það, hvort sjálfstæðismennirnir í ríkisstj. hafa skipt um skoðun og vilja halda þessum lögum í gildi eða hvort þeir eru á sömu skoðun og þeir voru þegar þeir börðust gegn setningu þeirra.

En það er annað líka sem er athyglisvert við þetta frv. um heimildir til lántöku, að hér er verið að fara fram á heimild til þess að taka lán í lok þessa árs, þessa síðustu daga ársins, að upphæð 4 milljarða 750 millj. kr. eða jafnvirði þeirrar upphæðar í erlendri mynt miðað við gengi 1. ágúst 1980. Hér er verið að fara fram á þessa heimild til þess að leiðrétta eða til samræmis við framkvæmdir á þessu ári. Finnst mönnum ekki athyglisvert, þar sem lánsfjárlög voru samþykkt 29. maí á þessu ári, að í desember skuli vera farið fram á heimild til lántöku að upphæð 4 milljarðar 750 millj. kr. umfram lánsfjárlög sem voru samþykkt þegar fimm mánuðir voru liðnir af árinu? Ef þau hefðu verið samþykkt um síðustu áramót væri sennilega heimildin, sem farið væri fram á, um 7 milljarðar, miðað við það, að hér er aðeins sjö mánaða tímabil að ræða. Ef þeir hefðu verið 12, þá væri þetta nálægt eða rúmlega 7 milljarðar. Finnst mönnum ekki fara töluvert úrskeiðis í þessum efnum? Vissi ríkisstj. ekki á hvaða stigi þessar framkvæmdir stóðu um mánaðamótin maí–júní? Og mér þykja það furðulegar athugasemdir sem fylgja þessu frv. Hér segir:

„Í endurskoðaðri áætlun um framkvæmdir við byggðalínur hafa komið fram nokkrir óvæntir þættir, eins og t.d. við gerð tveggja undirstaða fyrir háspennumöstur í Gilsfirði vegna Vesturlínu.“ Ætlar hæstv. fjmrh. að sannfæra Alþingi um það, þegar framkvæmdir eru þar í fullum gangi þegar lánsfjárlögin eru samþykkt, að það hafi ekki verið reiknað með því, að það þyrfti undirstöður undir þessi möstur? Þessari framkvæmd er lokið fyrir alllöngu. Og annað er enn eftirtektarverðara: „Á lánsfjáráætlun 1980 voru 650 millj. kr. ætlaðar til framkvæmda við dráttarbrautir og við það miðað, að fyrirtæki tækju upphæð þessa að láni. Verkefni þau, sem sinna átti, voru í höndum sveitarfélaga og reyndust styrkhæf úr ríkissjóði.“ Voru þeir núna í desember að vita það, að þessi verkefni voru styrkhæf úr ríkissjóði? Vissu þeir ekki um hafnalögin? Gerðu þeir sér enga grein fyrir því, þegar lánsfjárlögin og lánsfjáráætlunin voru samþykkt á s.l. vori, að ríkissjóður þyrfti að standa fyrir sínu mótframlagi sem er 520 millj. kr.?

Einnig er sagt hér: „Nauðsynlegt reyndist að afla aukins lánsfjár til þess að ljúka áfanga í virkjanarannsóknum á Austurlandi.“ Var ekkert vitað hvað þessar rannsóknir mundu kosta um mánaðamótin maí–júní á þessu ári? Svo eru þessir menn alltaf að tala um að það þurfi að gera langtímaáætlanir. Þeir eru ekki færir um að gera þriggja mánaða áætlanir, ekki einu sinni áætlun til jóla úr þessu. Maður er gersamlega hættur að skil ja hvað hún er að fara, þessi ríkisstj. Hún veit það ekki sjálf. Það er aðeins eitt sem hún veit. Hún segist ekki vilja fara — eða þeir sem eru ráðherrar segjast ekki vilja fara úr stólunum. Það er eina ferðalagið sem þeir vita að þeir ætla ekki í, það er að fara ekki úr stólunum.

Mér finnst fyrir mitt leyti að það gangi meira á á ýmsum öðrum sviðum en að byggja upp og hafa taumhald á því sem á að gera og er verið að gera. Það ber meira á ýmsum upphlaupum. Það er hamast á atvinnulífinu í landinu og stórfyrirtækjunum. Það er nú orðin grátleg saga, árásin á Flugleiðir. Og það er kraftaverk, að sendimönnum og upphlaupsmönnum úr Alþb. tókst ekki að koma því fyrirtæki fyrir kattarnef í haust, því að annar eins rógur hefur ekki verið fluttur um nokkurt atvinnufyrirtæki nú um langan tíma, ekki hér innanlands, ekki heldur utanlands. Það átti ekki fyrir skuldum, það átti ekki fyrir ábyrgðarbeiðninni. Þetta var fullyrt hvað eftir annað. Og ekki létu þeir á sér standa, sumir fréttamenn í þessu landi og það við opinbera fréttamiðla. En hvað er svo komið á daginn? Nú liggur það loksins fyrir. Ætli það sé ekki oft betra að láta minna í þessum efnum? Það var tekin upp nýbreytni í því að stjórna Flugleiðum í gegnum fréttamiðla, í gegnum nefnd í Ed. Alþingis. En neðri deild Alþingis tók málið öðrum tökum. Þar var það rætt málefnalega og í kyrrð og ró og friði og reynt að afla gagna og nauðsynlegra upplýsinga. Ég held að þetta sé atriði, sem hæstv. ríkisstj. ætti að stuðla að, að breyta vinnubrögðunum.

Það fer ósköp lítið fyrir iðnaðarstefnunni. Það er aðallega verið að reiða til höggs. Fyrst átti að klippa á rafmagnið til álversins í Straumsvík. Nú er látið að því liggja, að um stórkostlegt misferli sé að ræða. Á sama tíma og við erum strekktir í nefndum þingsins, þá boðar iðnrh., til blaðamannafundar til þess að reyna að koma því á framfæri, að nú sé eitthvað ljótt í aðsigi. En það er ekki verið að boða slíka frétt hér á Alþingi. Þinginu kemur þetta ekkert við. Það er aðeins tilgangurinn að koma því í fjölmiðla: Getum við sáð einhverju illu, sundrungu? Stóriðjan hefur lengi verið fleinn í holdi þessara manna, en undarleg eru nú viðbrögð ýmissa annarra, sem tekið hafa þátt í að móta stefnuna um stóriðnað í landinu, en steinþegja nú eins og þeir heyri ekki nokkurn skapaðan hlut og geti alls ekki opnað sinn munn.

Þrátt fyrir það, hvernig að öllum málum er unnið hjá þessari ríkisstj. og svikist er um að standa við landslög,— lög sem þeir hafa sjálfir sett, þá viljum við sjálfstæðismenn í fjh.- og viðskn. á engan hátt tefja fyrir framgangi þessa máls, af þeirri einu ástæðu að það er möguleiki á að taka erlent lán, eftir því sem sagt er, með góðum kjörum og til langs tíma. Þess vegna viljum við á þennan hátt greiða fyrir afgreiðslu málsins með því að standa að þessu leyti með stjórnarsinnum í fjh.- og viðskn., þó að við áteljum harðlega að frv. til lánsfjárlaga fyrir árið 1981 skuli ekki hafa verið lagt fram.