13.10.1980
Efri deild: 2. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 10 í B-deild Alþingistíðinda. (17)

Kosning í fastanefndir skv. 15. gr. þingskapa

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Háttvirta deild. Ég sé það þegar af þeim kosningum, sem hér hafa farið fram, að það hefur gerst að ráðherra, meira að segja forsrh. hæstv., hefur verið kosinn þegar í fimm fastanefndir þessarar deildar. Reglan hefur verið sú, að ráðh. hafa ekki verið kjörnir í starfsnefndir eða fastanefndir deilda eða þings. Það má reyndar segja að sú regla, að ráðh. séu ekki í fastanefndum, sé í samræmi við þá grundvallarreglu sem stjórnarskráin gerir ráð fyrir um aðskilnað löggjafarvalds og framkvæmdavalds. Það má líka lita svo á, að löggjafanum sé ætlað að líta eftir framkvæmdavaldinu og að fastanefndir þingsins hafi einmitt hlutverki að gegna í þeim efnum og hafi gengt slíku eftirlitshlutverki. Um eftirlit af þessu tagi gildir að sjálfsögðu almennt að óháðir aðilar séu settir til eftirlitsins, en að menn séu ekki að lita eftir sjálfum sér, eins og gerist ef ráðherrar eru kjörnir í fastanefndir þingsins.

Þótt það muni ekki vera bannað að kjósa ráðherra í þessar starfsnefndir þingsins og það séu fyrir hendi dæmi um að það hafi gerst, þá er það engu að síður svo, að aðalreglan hefur verið að það gerðist ekki. Sú aðalregla er sannarlega í samræmi við hugmyndina um aðskilnað framkvæmdavalds og löggjafarvalds. Og þessi regla á sannarlega rétt á sér.

Það hefur sem sagt gerst hér í þessari hv. deild, að þessi regla er þverbrotin, ekki einu sinni, ekki tvisvar, ekki þrisvar, heldur þegar fimm sinnum. Og það hefur gerst með þeim hætti að það er sami maðurinn sem kosinn er í öll skiptin. Og það er meira að segja verkstjóri ríkisstj., sjálfur hæstv. forsrh. Um það, að þetta gerist, að hæstv. forsrh. sé kosinn í fimm fastanefndir, eru áreiðanlega engin fordæmi. (Gripið fram i.) Ég get ekki látið hjá líða að mótmæla þessu. Þetta er andstætt þeirri hefð sem hefur verið að myndast hér í þinginu. Þetta er spor aftur á bak lýðræðislega séð. Og þetta er ekki í góðu samræmi við hugmyndirnar um aðskilnað löggjafarvalds og framkvæmdavalds. — Þetta vildi ég að kæmi skýrt fram, herra forseti.