17.12.1980
Neðri deild: 34. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1614 í B-deild Alþingistíðinda. (1701)

172. mál, lántaka 1980 og 1981 og ábyrgðarheimildir

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Ég tel bæði rétt og eðlilegt að bera fram eina spurningu til hæstv. fjmrh. vegna 4. gr. þess frv. sem hér er til umræðu. Spurningin er á þá leið, hvort ekki sé eðlilegra að breyta tölunni í greininni úr 25 milljörðum í 26. Það lán, sem hér um ræðir og stendur til boða Íslendingum, Seðlabankanum eða ríkisstj., er 20 millj. sterlingspunda, sem samkv. mínum útreikningi eru 26 milljarðar kr., en ekki 25.

Ég held að ef hugmyndin er sú að taka þetta tiltekna lán sem hér um ræðir, þá sé það nokkuð bundið við þessa upphæð, 20 millj. sterlingspunda. Það er til 20–25 ára með 14–15% vöxtum, afborgunarlaust í þessi 20–25 ár. Ég vil taka það skýrt fram, að ég er hlynntur því, að þetta lán verði tekið. Þetta er eitt hagstæðasta lán sem nú er völ á. Það er með föstum vöxtum, en vextir á flestum lánum á erlendum lánamarkaði hafa verið með breytilegum vöxtum, og þess má geta, að þessir vextir hafa frá byrjun þessa árs breyst úr 14% í 9% á miðju ári og eru þessa dagana 18–19%. Þess vegna er mjög mikilvægt, þegar lán af þessu tagi er tekið, að binda það við fasta vexti.

Ég vildi bara skjóta þessu að ráðh. og þeim þm. sem á mál mitt hlýða, vegna þess að ég lít svo á að þarna sé um fast lánstilboð að ræða að fjárhæð 20 millj. sterlingspunda, sem er ekki 25 milljarðar kr., heldur 26 milljarðar rösklega. Ég teldi því frv. betur úr garði gert ef þessi tala væri færð upp.

Að öðru leyti langaði mig að skjóta því inn í þessa umræðu, að það hljómar merkilega að Íslendingar fá nú svo mikið af lánstilboðum erlendis frá að vart hefst undan að hafna þeim. Miklir fjármunir eru núna á lánsfjármörkuðum í Vestur-Evrópu, einkum olíupeningar, og samkv. skýrslu í Institutional investor, sem gefur upp lánstraust þjóða, raðar því niður, þá eru Íslendingar nú í 10. sæti og þykir nokkuð gott, því að þar standa þeir með hinum Norðurlandaþjóðunum. En tilgangur farar minnar hingað upp að þessu sinni var þessi spurning til hæstv. fjmrh., hvort þessi tala sé í rauninni rétt, þessir 25 milljarðar sem um getur í 4. gr. Ef um er að ræða það lán sem ég hef upplýsingar um, þá eru það 20 millj. sterlingspunda, sem eru 26 milljarðar kr., en ekki 25.