17.12.1980
Neðri deild: 34. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1619 í B-deild Alþingistíðinda. (1705)

172. mál, lántaka 1980 og 1981 og ábyrgðarheimildir

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég stend nú upp aðallega út af síðustu ummælum hæstv. fjmrh. Andstaða okkar við þessa ríkisstj. grundvallast á því, að við viljum koma verðbólgunni niður. Hins vegar vitum við að í ríkisstj. stranda efnahagsaðgerðirnar á því, að þessi hæstv. ráðh. og hans flokkur hafa staðið mjög fast á móti því, að nokkuð sé gert sem gæti eða mætti koma verðbólgunni niður. Þetta er sá einfaldi og kaldi sannleikur sem við blasir. Við vitum líka að í samtölum þm. hér frammi á göngum kemur það fram, að þm. Framsfl. eru mjög skiptir. Helmingurinn af þeim — eða hluti af þeim, skulum við segja, svo að ekki sé verið að gefa í skyn hversu stór hvor hópurinn sé, — hluti af þeim er þegar búinn að gefa upp alla von um að nokkurt ákveðið svar fáist frá Alþb. um það, hvort það verði reiðubúið til þess að taka á efnahagsvandanum. Hinn helmingurinn vill reyna pínulitið lengur.

Hæstv. fjmrh. gaf það í skyn áðan, að hann ætlaði að standa við það að verðbólgan yrði 42% á næsta ári, þvert ofan í spár m.a. Þjóðhagsstofnunar, sem gera ráð fyrir að verðbólgan verði ekki minni en 70–80%. Hæstv. viðskrh. hefur talað um svipaðan vöxt verðbólgunnar á næsta ári. Við vitum líka að inn í verðbólgukerfið er á þessari stundu komið verðhækkunartilefni sem mun valda kannske um 12% hækkun kaupgjaldsvísitölu 1. mars n.k. Síðan fer í hönd fyrsta verðbótatímabilið á árinu, sem venjulegast er þyngst í skauti. Það liggur því fyrir, að verðbólgan mun á fyrsta helmingi næsta árs verða mjög mikil og miklu meiri en ríkisstj. vilt gefa í skyn og viðurkenna. Og þegar vöxturinn verður svona þungur og mikill á fyrstu mánuðum ársins, þá kemur það náttúrlega með tvöföldum þunga inn í ársmeðaltalið. Þó svo að eitthvað kynni að draga úr verðbólgunni á síðari hluta ársins, þá verður árshækkun verðbólgunnar hlutfallslega miklu, miklu meiri en hæstv. fjmrh. vill vera láta.

En nú verð ég að biðja um að þessari umr. sé slegið á frest, svo að ég hafi tækifæri til að varpa spurningu minni fram við hæstv. fjmrh. Hann var að spyrja hvort við tryðum því ekki, að verðbólgan yrði 42% á næsta ári. — [Fundarhlé.]

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. var í ræðu sinni fyrir fundarhlé að tala í þeim dúr eins og það væri út í hött af stjórnarandstöðunni að vera tortryggin þegar rætt væri um það, að verðbólgan á næsta ári færi upp fyrir 42%. Nú vil ég óska eftir því, að hæstv. fjmrh. gefi á því skýringu, annaðhvort við þessa umr. eða þá við 3. umr. málsins, hvernig hann hugsi sér að verðlagsþróunin verði á næsta ári, hvernig hann búist við að þessi mál þróist frá einum til annars. Ég held að það sé of „billega“ sloppið af hæstv. ríkisstj. — sérstaklega vegna þeirrar verðþróunar sem orðið hefur á þessu ári þvert ofan í áætlanir ríkisstj. og fyrirheit, þá held ég að það sé nú fullfrekt að ætlast til þess, að í eins viðurhlutamiklum málum og þeim, sem hér eru til umr., og svo fjárl. eftir 2–3 daga, fáist ekki nein nánari útlistun á því, hvernig hæstv. ríkisstj. býst við að verðlagsþróunin verði. Ég vil t.d. spyrja hæstv. fjmrh. hvort það sé rétt, að þegar hafi verið látnar ganga í gegn verðhækkanir, sem kalli á a.m.k., skulum við segja, 10% kauphækkun 1. mars, jafnvel 11–12%. Ég veit að hæstv. fjmrh., sem er viðræðugóður maður, gefur nú þessar upplýsingar til þess að þetta mál geti fengið afgreiðslu í deildinni og til þess að 3. umr. geti farið fram á eðlilegum tíma.