17.12.1980
Neðri deild: 34. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1620 í B-deild Alþingistíðinda. (1707)

172. mál, lántaka 1980 og 1981 og ábyrgðarheimildir

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég fór fram á það áðan í minni ræðu, að hæstv. fjmrh. gæfi nánari skýringar á því, hvernig hann hugsaði sér að verðlagsþróunin yrði á næsta ári. Það liggur fyrir, hæstv. viðskrh. hefur talað um það í blaðaviðtali, að verðbólgan á næsta ári verði 70%. Ég óskaði eftir því við hæstv. fjmrh., að hann gerði grein fyrir því, hvernig hann fengi það út úr dæminu að verðbólgan á næsta ári yrði ekki nema 42%. Það hefur orðið samkomulag um það milli stjórnarandstöðu og ríkisstj. að reyna að greiða fyrir málum. Hæstv. fjmrh, hefur verið með alls konar glósur og meiningar til stjórnarandstöðunnar út af því, að við skulum tortryggja þá verðbólguáætlun sem hann er að hampa. Þessi fsp. mín, sem ég beindi til hæstv. fjmrh., var einföld í sniðum. Ég mundi taka það sem gilt svar, ef hæstv. fjmrh. lofaði mér því, að áður en 3. umr. fjárlaga færi fram mundi hann senda mér áætlun um það, hvernig þetta sé reiknað, hvaða forsendur hann leggi til grundvallar þegar hann talar um að verðbólguþróunin á næsta ári verði aðeins 42%. Ég held að hæstv. fjmrh. hljóti að vita það, að eins og sakir standa núna muni verðbólguvöxturinn vera eitthvað í kringum 60% a.m.k. Og ég held að það sé öllum ljóst, að hjólið heldur áfram að snúast með vaxandi hraða.

Ég vil enn fremur minna á það, að hæstv. fjmrh. hefur hvað eftir annað nú á þessu þingi talað um það, að í mikilli verðbólgu umfram það, sem gert væri ráð fyrir í fjárlagafrv., væri fjárhagsstöðu ríkissjóðs stefnt í hættu vegna þess að útgjöldin ykjust miklu meira en tekjurnar. Þess vegna hlýtur hann sem ábyrgur fjmrh. — jafnmikla áherslu og hann hefur lagt á það í sínum málflutningi, að ríkissjóður skili tekjuafgangi, og jafnmikla áherslu og ríkisstj. raunar öll hefur á það lagt, að ríkissjóður skili tekjuafgangi, — þá hlýtur hann, þegar hann stendur fastur á því eins og hundur á roði að í fjárlagagerðinni allri skuli ekki reiknað með meiri verðbólgu en 42%, að hafa töluvert til síns máls.

Ég hef að vísu haldið því fram, þvert ofan í það sem hann segir, að ríkissjóður græði á því, að verðbólgan verði meiri frekar en minni. Ég held að það sé viðurkennt af öllum þeim mönnum, sem við fjárlagagerð fást, að það sé borð fyrir báru að þessu leyti, að fjárlögin séu þannig saman sett að meiri verðbólguhraði en þar er gert ráð fyrir þýði um leið auknar tekjur í ríkissjóð borið saman við útgjöldin. En sleppum þessu, látum það liggja á milli hluta. Ég vil enn beina því til hæstv. ráðh., að hann komi hér upp í pontuna og gefi okkur einhver svör um þetta, annaðhvort fyrirheit um að við fáum þá áætlun, sem hann hefur í höndum um verðbólguþróunina á næsta ári, eða eitthvað sem bitastætt er í, að við fáum einhverjar hugmyndir um á hverju sú áætlun er reist, að verðbólgan á næsta ári verði ekki nema 42%. Hæstv. ráðh. var einmitt að kvarta undan því í ræðu sinni, að lánsfjáráætlunin fyrir þetta ár hefði ekki staðist vegna þess að verðbólgan hefði farið fram úr því sem hann hafði gert ráð fyrir þegar þessi mál voru afgreidd nú í vor. Ég held að hann ætti þess vegna að læra af reynslunni og reyna að haga sér svo í þetta skipti, að þessi áætlun sé byggð á raunhæfum grunni.

Herra forseti. Ég ítreka það, að ef ekki kemur fram nein yfirlýsing frá hæstv. ráðh., sem talist getur fullnægjandi, um það að upplýsingar berist um þetta atriði, þá held ég að ég verði að fara fram á það, að a.m.k. 3. umr. málsins verði frestað svo að rúm gefist til að athuga þennan þátt málsins betur.