17.12.1980
Neðri deild: 34. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1622 í B-deild Alþingistíðinda. (1709)

172. mál, lántaka 1980 og 1981 og ábyrgðarheimildir

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Eins og ég veit að hæstv. fjmrh. veit, þá er verðbólgan sú sama þó að eitthvað sé greitt niður af lambakjöti, þó að það takist kannske að lækka framfærsluvísitöluna pínulítið. Og það, sem gerðist, var náttúrlega að það voru auknar niðurgreiðslur.

Ég ætla ekki að gera spádóma Vinnuveitendasambandsins að umræðuefni, en ég vil hins vegar vekja athygli á því, að í nýútkomnum Fjármálatíðindum, sem ég er með í höndunum, er línurit yfir árlega meðalhækkun verðbólgu á Ístandi, Norðurlöndum og í helstu iðnríkjum. Þetta línurit nær ekki nema rétt fram á árið 1981, og ég sé ekki betur en súlan þar stefni óðfluga í 70% og er mjög upp á við, þannig að það virðist svo sem þeir í Seðlabankanum hafi gert einhverja nýja verbólguspá eftir að fjárlagafrv, var samið. En við vitum náttúrlega að hlutirnir gerast hratt og ört, og við erum ekki nú að tala um það, hvernig ríkisstj. óskaði sér að verðbólguþróunin yrði, þegar hún gekk frá fjárlagafrv. í septembermánuði, heldur er ég að spyrja um það, hvernig hæstv. ríkisstj. og hæstv. fjmrh. búist við á þessari stundu að verðbólgan verði á næsta ári. Og hvernig rökstyður hæstv. fjmrh. og ríkisstj. það, að þeir geti enn á þessari stundu haldið dauðahaldi í 42% verðbólgu og miðað allar sínar fjárhagslegu áætlanir við það.