17.12.1980
Neðri deild: 34. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1623 í B-deild Alþingistíðinda. (1711)

156. mál, tímabundið vörugjald

Frsm. meiri hl. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Fjh.- og viðskn. hefur fjallað um þetta frv. og undir nál. meiri hl. rita ásamt mér hv. þm. Ingólfur Guðnason, hv. þm. Guðrún Hallgrímsson og hv. þm. Sighvatur Björgvinsson, sem undirritar nál, með fyrirvara.

Ég sé ekki ástæðu til að rekja þetta mál. Hér er um að ræða framlengingu á sérstöku tímabundnu vörugjaldi sem hefur verið framlengt alloft hér á hv. Alþingi, og komið hefur fyrir að það hefur verið hækkað, þannig að mál þetta ætti að vera þm. kunnugt. Ég vil taka það fram, að nefndin fjallaði eingöngu um þetta mál á þeim grundvelli, að hér væri um framtengingu á gjaldinu að ræða. Hún tók ekki einstaka vöruflokka eða álagningu á einstökum vörum til umfjöllunar.

Fram hafa komið brtt., í fyrsta lagi frá hv. 6. þm. Reykv. um hljómplötur. Ég vil taka það fram í sambandi við það mál, að að sjálfsögðu ber að athuga um tollmeðferð á þeim vöruflokki eins og ýmsum öðrum. Þessi brtt. var einnig flutt hér á síðasta þingi. Ég hef ekki getað aflað mér upplýsinga um, hve miklar tekjur er um að ræða af þessu tollskrárnúmeri, og vil aðeins ítreka það, að nefndin hefur ekki fjallað um málið, enda hafði brtt. ekki borist henni þegar nál. var skilað. Af þeim orsökum verð ég að leggja til að þessi brtt. verði ekki samþykkt.

Sama gildir um till. frá hv. þm. Benedikt Gröndal á þskj. 277. Nefndin hefur ekki fjallað um þá brtt., og á sama hátt vil ég leggja til að þessi till. nái ekki fram að ganga, af þeim ástæðum að nefndin hefur ekki fjallað um málið með þeim hætti að taka til meðferðar einstakar vörur sem vörugjald eða tollur er lagður á.