17.12.1980
Neðri deild: 34. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1623 í B-deild Alþingistíðinda. (1712)

156. mál, tímabundið vörugjald

Frsm. minni hl. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Þetta frv. er að verulegu leyti til þess að framlengja hækkun á tímabundnu vörugjaldi um 6 prósentustig sem lögð voru á haustið 1979 af ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar. Hér er um að ræða 10–11 milljarða skattaálögur á atmenning á næsta ári. Sjálfstfl. hefur lýst sig andvígan þeim sköttum sem lagðir voru á þjóðina haustið 1979 af vinstri stjórninni og núverandi stjórn heldur áfram að leggja á, en við teljum ekki ástæðu til. Okkar skoðun hefur ekki breyst í þessum efnum.

Svohljóðandi brtt. er flutt af Birgi Ísl. Gunnarssyni: „Aftan við 1. gr. frv. komi orðin: Eftirtalið tollskrárnúmer falli brott úr B-lið i. gr. laganna: 92. 12. 29 (hljómplötur almennt.)“ Þessi till. var rædd í nefndinni. Meiri hl. nefndarinnar við þrír, sem skrifum undir nál. minni hl., og hv. 3. þm. Vestf., Sighvatur Björgvinsson, sem skrifar undir nál. meiri hl. með fyrirvara, erum samþykkir þessari till. frá Birgi Ísl. Gunnarssyni og leggjum til að hún verði samþykkt.

Hin till., sem fram er komin, er frá hv. 4. þm. Reykv., Benedikt Gröndal, þess efnis, að á eftir 1. gr. frv. komi ný gr., að tekjur af sjónvarpstækjum renni til Ríkisútvarpsins. Þessi till. er svo nýlega fram komin, að hún var ekki rædd í nefndinni, og ég held að það væri ástæða til, ef eitthvert hlé gerðist á milli umræðna, að nefndin fjallaði um þá till., ef formaður nefndarinnar fellst á það og nm. vilja, eða hluti nm. mæta með þeirri till. Ég tel fyrir mitt leyti koma til greina að þetta sé athugað á milli umræðna ef flm. vill taka till. aftur til 3. umr.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri, en endurtek það, að við fulltrúar Sjálfstfl., auk mín Albert Guðmundsson og Matthías Á. Mathiesen, erum andvígir þessu frv. og leggjum til að það verði fellt.