17.12.1980
Neðri deild: 34. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1624 í B-deild Alþingistíðinda. (1713)

156. mál, tímabundið vörugjald

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja brtt. á þskj. 277 við þetta frv. um sérstakt tímabundið vörugjald. Efni þessarar till. er mjög einfalt þótt þýðingarmikið sé. Það er á þá lund, að það, sem innheimtist af þessu vörugjaldi fyrir innflutt sjónvarpstæki í tveimur tollflokkum, verði látið ganga til Ríkisútvarpsins.

Hugmyndin að þessu er engan veginn ný og á sér veigamikil fordæmi hér á Alþingi. Þegar íslenskt sjónvarp var sett á laggirnar byggðist fjárhagur þess á því, að Alþingi samþykkti sérstakt ákvæði inn í tollalög á þá lund, að aðflutningsgjöld skyldu renna til þess. Ef þingið hefði ekki gert þessa samþykkt hefði það dregist í mörg ár að íslenskt sjónvarp kæmist á laggirnar, ef það væri þá komið í dag.

Nú vill svo til að Ríkisútvarpið, sem verður fimmtugt um næstu helgi, býr við erfiðari fjárhag en nokkru sinni, svo uggvænlegan að á næstu mánuðum verður annaðhvort að finna stofnuninni nýja tekjustofna, verulega, eða þá að skera starfsemi hennar niður. Ef Alþingi vildi fara þessa gömlu leið, sem það sjálft hefur troðið, og samþykkja það til eins árs, eins og þessi lög eiga að verða, að tekjur samkv. tveim umræddum tollanúmerum, sem eru litasjónvarpstæki og svart-hvít sjónvarpstæki, gengju þetta ár til Ríkisútvarpsins mundi það verða stofnuninni til verulegrar aðstoðar jafnframt því sem tóm gæfist fyrir ríkisstj. til að leita að varanlegri úrræðum á vandamálum Ríkisútvarpsins. Hitt er augljóst mál, að sú stofnun gegnir svo veigamiklu menningar- og afþreyingarhlutverki með þjóðinni, að það er óhugsandi með öllu að hún verði rekin til langframa með stórfelldu tapi, upp undir milljarð á ári eins og talað er nú um.

Ég þakka hv. 1. þm. Vestf. fyrir vinsamlegar undirtektir og ég get verið honum sammála um það, að verði eitthvert hlé milli 2. og 3. umr., þá er ég reiðubúinn til að óska eftir því, að till. verði dregin til baka til 3. umr., en ef 3. umr. verður í beinu framhaldi, þá sé ég ekki ástæðu til þess. Þá mun ekki gefast tækifæri til að athuga till. í nefnd.