17.12.1980
Neðri deild: 34. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1626 í B-deild Alþingistíðinda. (1715)

156. mál, tímabundið vörugjald

Birgir Ísl. Gunnarsson:

Herra forseti. Ég vil þakka minni hl. fjh.- og viðskn. fyrir undirtektir undir þá brtt. sem ég flyt á þskj. 256. Hv. 1. þm. Vestf. gat þess, að þeir, sem rituðu undir minnihlutaálitið, legðu til að till. yrði samþykkt þó að þess væri ekki sérstaklega getið í álitinu. Og ég fagna því, að liðsmaður hefur bæst í hópinn, þannig að líta má svo á, að meiri hl. nefndarinnar styðji þessa tillögu. Ég vil hins vegar láta í ljós vonbrigði mín yfir því, að meiri hl. nefndarinnar, að undanteknum hv. þm. Sighvati Björgvinssyni, skuli ekki hafa gert svo lítið sem að líta á þessa till. Ég gat þess í framsöguræðu með henni við 1. umr., að ég hefði flutt sams konar till. þegar samsvarandi frv. var til meðferðar hér á s.l. vori. Þá var þeirri till. fundið það helst til foráttu, að hún væri svo seint fram komin að ekki hefði unnist tími til að athuga hana í nefnd, en ég flutti hana við 2. umr. þess frv. sem þá var til meðferðar. Ég vildi því ekki brenna mig á því sama nú og lagði till. inn áður en þetta frv. var komið hingað til hv. deildar úr Ed. Till. var því dreift um leið og 1. umr. hófst hér í hv. deild og ég mælti fyrir henni við 1. umr. og beindi því sérstaklega til hv. nefndar, að hún skoðaði þetta mál, af því að ég tel þetta ekki mikið að vöxtum. Þetta er ekki flókið mál og mjög auðvelt að fá upplýsingar um hvað hér er um miklar fjárhæðir að ræða, og ég hafði líka getið þess í minni framsögu. Þess vegna vil ég láta í ljós vonbrigði mín yfir því, að sá hluti nefndarinnar, sem hér um ræðir, skuli ekki hafa gert svo lítið sem að skoða þessa till., sem ég tel að komi mjög við margt fólk og sé til mikilla bóta og stuðli að auknu menningarlífi á heimilum þessa lands.