17.12.1980
Neðri deild: 34. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1626 í B-deild Alþingistíðinda. (1716)

156. mál, tímabundið vörugjald

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég biðst afsökunar á því að biðja seint um orðið, en ummæti hv. 3. þm. Vestf. gerðu það að verkum, að ég ætla að taka hér til máls. Hann taldi óábyrga afstöðu okkar sjálfstæðismanna sem myndum minnihl. í fjh. og viðskn. um nál. á þskj. 279, vegna þessa að við flytjum ekki till. um niðurfellingu á útgjöldum á fjárlagafrv. á móti. Þetta getur verið rétt hjá hv. talsmanni Alþfl. hér á Alþingi ef ekki er haft í huga hvernig þessi skattur er upphaflega tilkominn. En eins og skatturinn segir sjálfur til um, þá er hann tímabundinn og heitir vörugjald. Þetta er tímabundið vörugjald sem átti að standa í ákveðinn tíma til þess að safna hraðar tekjum til að leysa uppsafnaðan vanda fyrri ára sem þá var við að glíma. Það stóð því aldrei til, að þessi tekjulind yrði föst né heldur að sá uppsafnaði vandi, sem þetta tímabundna vörugjald átti að leysa, yrði áfram fastur í kerfinu.

Það vill oft verða svo, að ef menn — og í þessu tilfelli opinberir aðilar — fá aðgang að einhverjum skattheimtumöguleikum til að leysa tímabundinn vanda, þá festist bæði skatturinn og vandinn, sem átti að leysa, í kerfinu. Það er þetta sem við verðum einhvern veginn að komast út úr. Við verðum að nota þá peninga, sem við erum að taka af fólkinu, á þann hátt sem til er ætlast þegar gjöldin eru lögð á og leggja svo skattana niður. En það er ekki gert. Við ætlumst til þess að vandinn, sem þessi skattur átti að leysa, sé nú leystur.

Ég vil rétt aðeins víkja hér að till. hv. 4. þm. Reykv. á þskj. 277, um að tolltekjur af tollnúmerum, sem þar eru tilgreind, renni til Ríkisútvarpsins. Ég ætla ekki að taka afstöðu til þessarar till. nú úr ræðustól, en ég held að tekjur Ríkisútvarpsins og tekjur ríkissjóðs mundu stóraukast ef um sjónvarp giltu sams konar ákvæði og um útvarpstæki, að hver aðili, sem greiðir afnotagjald af sjónvarpi, megi óáreittur hafa eins mörg sjónvarpstæki á sínu heimili og hann sjálfur vill án þess að greiða tvenn eða fleiri afnotagjöld. Það er til þæginda fyrir fjölskyldu að geta haft sjónvarp í fleiri en einu herbergi. Sjónvarp er ekki neitt lúxustæki lengur frekar en útvarp. Fjölskyldur greiða eitt afnotagjald af útvarpi fyrir ótiltekinn fjölda útvarpstækja sem kunna að vera á hverju heimili um sig.

Ég hef ekki meira um þetta frv. að segja. Ég tel mig vera búinn að segja nóg til þess, að hv. 3. þm. Vestf., sem er þó fyrrv. fjmrh., á að vera fullkomlega ljóst í hvaða tilgangi þessi brtt. okkar er flutt. Hún er fullkomlega málefnaleg, og sem fyrrv. fjmrh. hlýtur hann að vita að það er ekki hægt endalaust að gera kröfur til nýrra og nýrra skatta, tímabundinna gjalda sem auka hinar þungu byrðar á herðum þjóðarinnar.