17.12.1980
Neðri deild: 34. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1629 í B-deild Alþingistíðinda. (1723)

155. mál, ferðagjaldeyrir

Frsm. minni hl. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Þetta frv. felur í sér framlengingu á nýjum skatti frá vinstri stjórnar tímabilinu, sem lagður var á haustið 1978. Talið er að þessi skattur muni nema 2 400 millj. kr. í álögur á almenning á árinu 1981 og það er hluti af 60 milljarða kr. aukaskatti til ríkisins á þjóðina miðað við verðlag fjárlagafrv. sem vinstri stjórnin og núv. ríkisstj. eru ábyrgar fyrir. Það er þess virði að rifja upp að flokkurinn í ríkisstj. sem er þar þyngdaraflið, Alþb., hafði örugg ráð við þessu öllu fyrir aðeins rúmlega tveimur árum, því að þá segir í samþykktum þess flokks:

„Látlaus viðleitni ríkisstj. til að knýja fram breytta tekjuskiptingu með því að skammta launafólki kjör, sem ekki eru í neinu samræmi við heildartekjur þjóðarinnar, hefur verulega stuðlað að verðbólgu.“

„Þessar aðgerðir,“ segir þessi sami flokkur, „fetast í skefjalausum gengisfellingum, sem nú svara til 170% hækkunar á erlendum gjaldeyri síðan í ágúst 1974.“ Þetta er sagt sumarið 1978.

Mér finnst ekki úr vegi að nefna hér, að þegar Alþb. kom í stjórn 1. sept. 1978 var gengi á Bandaríkjadollara 260 kr., og þá skyldu menn nú ætla að hafi verið brotið í blað í þessum efnum. Þá var settur á þessi ferðamannaskattur og það hefur náðst sá ánægjulegi árangur í þessari viðleitni Alþb., að nú í dag er ferðagjaldeyrir seldur á 653.40 kr. hver Bandaríkjadalur, svo að það mun ekki þurfa að bíða nema í 2–4 daga til þess að náðst hafi sá glæsilegi árangur hjá Alþb. að Bandaríkjadollar hafi hvað ferðagjaldeyri snertir náð 150% hækkun. En þeir töldu að breyta þyrfti um stefnu og það í snarheitum þegar breytingin var um 170% á fjórum árum. Þetta er árangurinn af hinu stöðuga gengi sem þessi flokkur lofaði.

Hefur þá orðið breyting til batnaðar síðan núv. hæstv. ríkisstj. tók við? Hinn 8. febr., á fæðingardegi þessarar ríkisstj., sem kallaði sig sjálf „lukku“, en er nú kölluð almennt meðal þjóðarinnar „uppákoman“ eða „ólukkan“, var gengi Bandaríkjadals 401.70 kr. og ferðamannagjaldeyrir 441.87 kr. Nú í dag er gengi Bandaríkjadals í ferðamannagjaldeyri 653.40 kr., en 594 kr. á venjulegu gengi, svo að árangurinn er líka þar að ná á þessum mánuðum um 50% hækkun.

Þetta er mjög glöggt dæmi, sem sýnir hvílíkum feiknaárangri Alþb. og aðrir aðstandendur þessarar ríkisstj. hafa náð í að treysta stöðugleika íslensks gjaldeyris. Og ferðagjaldeyririnn er framhald af þessu öllu svo að það er ekki að furða þó að ráðherrar séu borubrattir eftir þennan glæsilega árangur.

En ef lítið er á atvinnulífið í landinu og ráðstöfunarfé fólksins sem byggir þetta land, launamanna í landinu, þá er ekki eins glæsilegur árangur þar svo að það er ekki furða þó að meiri hl. fjh.- og viðskn. Alþingis hraði sér að afgreiða á færibandi þessar álögur. Eða er kannske ætlunin að draga verulega úr ferðalögum og segja mönnum að halda sig heima í framtíðinni, það eigi ekkert að vera að skrattast um allar jarðir? Einhvern tíma heyrðist annað úr þessum herbúðum, þegar talað var um hvað gengið væri nærri launafólki og almenningi öllum í landinu. En nú er öldin önnur.

Við fulltrúar Sjálfstfl. í fjh.- og viðskn. erum andvígir því að halda þessu feigðarflani áfram og leggjum til að þetta frv. verði fellt.