17.12.1980
Neðri deild: 34. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1630 í B-deild Alþingistíðinda. (1724)

155. mál, ferðagjaldeyrir

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Eins og fram kemur á þskj. 270 skrifa ég undir nál. með meiri hl. hv. fjh.- og viðskn. og legg til að þetta frv. verði samþykkt.

Ég vil aðeins taka það fram, að það hefur ekki komið fram í þessum umræðum, að meðal þeirra breytinga, sem gerðar voru þegar þessi ferðaskattur var upphaflega lagður á, var að skammtur sá, sem veittur var til ferðagjaldeyris, var mjög aukinn, þannig að um leið lögðust niður þau svartamarkaðsviðskipti sem alkunn voru frá fyrri tíð með þennan gjaldeyri. Nú fá ferðamenn, sem til útlanda fara, þann gjaldeyri, sem þeir yfirleitt þurfa, án þess að þurfa að teita hans á óeðlilegu verði eins og var áður. Sú breyting, sem gerð var með álagi á ferðagjaldeyri á sínum tíma, var því ekki alls kostar af hinu illa. Þá var ýmislegt í því sambandi sem til betri vegar horfði og ég vildi aðeins vekja athygli á því.

Ef menn ættu að velja um tvennt: annars vegar fyrri hætti þar sem gjaldeyrisskammtur til ferðamanna var mjög takmarkaður, en hann seldur á sama verði og gjaldeyrir almennt, og hins vegar það kerfi, sem upp var tekið á símun tíma með 10% álagi á ferðagjaldeyri, en í staðinn veitt eins og menn almennt þurfa sér til viðurværis á ferðalögum, þá held ég að allflestir a.m.k., sem á þurfa að halda, mundu velja seinni kostinn. Ég tel ekki ástæðu að þessu sinni til að gera neina breytingu hér á og legg því til ásamt stjórnarsinnum í hv. fjh.- og viðskn. að þetta frv. verði samþykkt.

Hins vegar vil ég leyfa mér í örstuttu máli að vekja athygli á öðru, sem hæstv. ríkisstj. og Alþingi þyrftu að skoða, en það er að í undantekningartilvikum háttar svo til hér á landi, að ekkjur, sem fæddar eru erlendis, en hafa gifst íslenskum mönnum og búið hér á landi um langan aldur, eiga vegna íslenskrar gjaldeyrislöggjafar ákaflega erfitt með að flytja til sinna heimahaga á gamalsaldri öðruvísi en að skilja allar sínar eigur eftir í landinu. Ég veit um örfá dæmi þess, að fullorðnar konur, sem eru fæddar í útlöndum og eiga þar alla sína ættingja, en hafa gifst íslenskum mönnum og búið hér á meðan menn þeirra lifðu, eiga í mjög miklum erfiðleikum af þessum sökum. Þær konur, sem ég þekki til í þessu tilviki, eiga hér enga ættingja. Börn þeirra eru erlendis og öll skyldmenni. Þær hafa búið hér um margra ára skeið, giftar íslenskum mönnum sem látnir eru, og þeim er gert ókleift raunar bæði að vera og fara, vegna þess að gjaldeyrisreglur eru á þá lund, að það er mjög takmörkuð heimild manna til að yfirfæra eignir sínar til útlanda, sem er með öllu óeðlilegt í slíkum tilvikum. Þessi tilvik eru mjög fá og er það vel. En það leysir ekki vanda þeirra fáu kvenna, sem hlut eiga að máli, þó að fjöldi þeirra sé ekki mikill. Ég tel að það verði að gera þær breytingar á reglum um gjaldeyrisskipti, að unnt sé í slíkum tilvikum að veita fólki undanþágu, svo að þetta fólk geti komist til vina sinna og vandamanna erlendis og tekið með sér eitthvað af þeim eigum, sem því hafa áskotnast í dvöl sinni hér á Íslandi.

Ég vildi aðeins vekja athygli á þessu, hæstv. forseti, vegna þess að þó svo að þessi mál fari ekki mjög hátt, þá er þetta mjög erfitt úrlausnarefni fyrir þá fáu einstaklinga sem í hlut eiga.