28.10.1980
Sameinað þing: 10. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 244 í B-deild Alþingistíðinda. (174)

21. mál, verðtryggður lífeyrissjóður fyrir alla landsmenn

Fyrirspyrjandi (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Á þskj. 22 hef ég leyft mér að bera fram fsp. til hæstv. heilbr.- og trmrh. varðandi endurskoðun laga um almannatryggingar og undirbúning löggjafar um verðtryggðan lífeyrissjóð fyrir alla landsmenn. Fsp. hljóðar svo:

„Hvað líður framkvæmd þáltill. frá 19. maí 1979, 193. máls 100. löggjafarþings, sem vísað var til ríkisstj., um endurskoðun laga um almannatryggingar og undirbúning löggjafar um verðtryggðan lífeyrissjóð fyrir alla landsmenn. — En till. var svohljóðandi:

Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að við heildarendurskoðun á lögum um almannatryggingar, nr. 67/1971, sem gerð verði með það markmið í huga fyrst og fremst, að tryggingalöggjöfin verndi og styðji þá þjóðfélagsþegna, sem þurfa á samfélagsaðstoð að halda hverju sinni, verði m.a. sérstaklega tekið tillit til eftirfarandi atriða:

a) Auk lífeyristrygginga, er taki til ellilífeyris, örorkulífeyris, makabóta, barnalífeyris, ekkjubóta og ekkjulífeyris, slysatrygginga, sjúkratrygginga og annarra bóta, verði í löggjöfina sett skýr ákvæði um að almannatryggingar annist fyrirgreiðslur til lamaðra og fatlaðra, hreyfihamlaðra, blindra og heyrnarskertra, málhaltra, þroskaheftra, ofnæmissjúklinga og annarra þeirra er eiga við erfiða sjúkdóma að stríða, útvegi og greiði nauðsynleg hjálpartæki og áhöld fyrir þetta fólk, greiddur verði að fullu kostnaður vegna sjúkrameðferðar, þar með talinn allur kostnaður vegna læknismeðferðar hjá erlendum sérfræðingum og sjúkrastofnunum.

b) Almannatryggingar greiði afnotagjöld af síma, útvarpi og sjónvarpi fyrir þá þjóðfélagsþegna, sem engar tekjur hafa aðrar en lífeyrisbætur tryggingakerfisins.

c) Fæðingarorlof greiðist af almannatryggingum til allra fæðandi kvenna í landinu, hvort sem þær eru útivinnandi eða við heimilisstörf.

d) Sett verði löggjöf um verðtryggðan lífeyrissjóð fyrir alla landsmenn.“

Í þessari þáltill., sem við fimm þm. Framsfl. fluttum á sínum tíma, voru tiltekin flest þau atriði sem talin er þörf á að færa til betri vegar í löggjöf. Hér er um að ræða eitt af stærstu málum er varða almannaheill og snertir svo til hvert mannsbarn í landinu. Það hlýtur því að vera mikilvægt að sífellt sé verið að endurbæta þessa löggjöf um almannatryggingar og laga hana að breytingum í þjóðfélaginu. Tryggingalöggjöfin er fyrir fólkið sem á að njóta hennar. Það þarf því að gæta þess að auðvelda samskiptin og gera þau manneskjulegri.

Síðan þessi þáltill. var afgreidd til ríkisstj. hafa nokkrar lagfæringar verið gerðar, svo sem við afgreiðslu hinna svokölluðu félagsmálapakka, og í undirbúningi er skipulegt átak í málefnum fatlaðra, ekki síst í tilefni alþjóðaárs þeirra málefna á næsta ári. Vona ég af alhug að við berum gæfu til að gera stórvirki í þeim málum. Þar við liggur þjóðarsómi.

Fæðingarorlof til allra fæðandi kvenna í landinu, hvort sem þær eru útivinnandi eða við heimilisstörf, er réttlætismál sem við flm. vildum fá inn í almannatryggingalöggjöfina. Ég vil lýsa ánægju minni með þá yfirlýsingu sem ríkisstj. hefur gefið við lausn heildarsamninga aðila vinnumarkaðarins, en þar segir í 1. lið: „Ríkisstj. mun stefna að því með lagasetningu að koma á fæðingarorlofi fyrir öll foreldri frá og með 1. jan. 1981.“ — Hins vegar er ég ekki samþykkur því, að þetta fæðingarorlof sé mismunandi eftir því hvort um er að ræða útivinnandi eða heimavinnandi konur. Sami réttur verður að gilda öllum til handa. Um það hljótum við alþm. að sameinast.

Löggjöf um verðtryggðan lífeyrissjóð fyrir alla landsmenn er margra ára baráttumál. Fyrrv. og núv. ríkisstj. hafa haft þetta á stefnuskrá, enda eitt af þýðingarmestu réttindamálum landsmanna. Krafa um verðtryggðan lífeyrissjóð fyrir alla hefur orðið almennari með hverju ári, því ljóst er að margir lífeyrissjóðir í landinu hafa ekki möguleika á að tryggja meðlimum sínum öruggan lífeyri og fjöldi landsmanna hefur engin lífeyrissjóðsréttindi. Það er einnig ljóst, að ekki er mögulegt að sameina alla lífeyrissjóði. Þeir munu því starfa áfram. Þess vegna töldum við flm. að eðlilegt væri að í tryggingalöggjöf yrði lögfestur lífeyrissjóður fyrir alla landsmenn.

Í yfirlýsingu núv. ríkisstj. til lausnar vinnudeilum eru mikilvæg atriði um lífeyrismál. Þar segir m.a.: „Hraðað verði undirbúningi samfellds lífeyriskerfis fyrir alla landsmenn, sem verði komið á eigi síðar en á árinu 1982. Sú endurskoðun hafi það að meginmarkmiði að lífeyriskerfið tryggi öllu fólki á vinnumarkaði sömu lífeyrisréttindi óháð því hjá hverjum það starfar“.

Þetta er allt ágætt svo langt sem það nær, en ég óska eftir því að fá að vita hvað líður heildarendurskoðun almannatryggingakerfisins. Hverjir vinna að þessum málum, á hvaða stigi er þessi endurskoðun og hvenær má vænta heildarlöggjafar?