17.12.1980
Neðri deild: 36. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1647 í B-deild Alþingistíðinda. (1771)

47. mál, niðurfelling á opinberum gjöldum barna 1980

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Ég vil aðeins lýsa því, að ég er samþykkur þeim röksemdum sem gengið hafa í þá veru að fella þetta frv. og þær brtt. sem við það hafa verið gerðar, og þá helst af þeirri ástæðu, að hv. þm., sem grannt fylgdust með, gátu auðvitað vitað mætavel í hvaða veru stefndi. En í annan stað — vegna þess að mér þykir slegið undir belti þegar til þess er vísað að hér sé verið að leggja skatta á börn — þetta eru auðvitað ekki börn sem hér um ræðir. Þetta eru unglingar, fullvaxið fólk, þetta er nánast í öllum tilfellum fólk 14 og 15 ára gamalt, á 16 ári. Auðvitað er það fílhraust og fullvaxið fólk sem hér á hlut að máli, og öll röksemdafærsla, sem gengur út á það, að hér sé verið að leggja skatta á börn, er út í hött. Hér er ekki barnavinna í þeim skilningi sem við venjulega leggjum í orðið.

Og ég vil aðeins segja það, að mér þykir allur málflutningur, einkum og sér í lagi síðast hjá hv. þm., Matthíasi Bjarnasyni, vera yfirgengilegur og högg undir belti, vegna þess hvaða fólk það er sem hér á hlut að máli. Mér er minnisstætt að eftir að ég kom fyrst hér inn á Alþingi urðu nokkrar umræður hér á þingi um Gullu litlu, um barnið sem hv. þm. Matthías Bjarnason bar á okkur kratana að hafa haldið fram að verið væri að hengja á erlendar skuldir. Þá heyrði ég ekki samúðina með þessum börnum sem nú kemur fram hjá karlinum hv. þm. Matthíasi Bjarnasyni. Málflutningurinn hefur snúist við. Og ég verð að segja það, að mér þykir lítið fara fyrir þróttinum sem einkenndi hann þá í málflutningi.

Það er hægt að vera stjórnarandstæðingur og stjórnarandstæðingur, það getur verið sitt hvað. Og það eru eiginlega takmörk fyrir því, hve langt menn eiga að teygja sig til að koma höggi á ríkisstj. í landinu. Þetta eru atriði sem við vissum mætavel og fyrir löngu að til stæðu. Og sama gildir auðvitað um þegnana í landinu. Þetta er spurning um það, hvar þessar upphæðir lenda, hvort þær lenda á fjölskyldunni eða á þessum einstaklingum. Ég tek undir röksemdir hv. þm. Halldórs Ásgrímssonar, að hér hefur stjórnarandstaðan eða hluti hennar teygt sig fulllangt.