17.12.1980
Neðri deild: 36. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1651 í B-deild Alþingistíðinda. (1776)

47. mál, niðurfelling á opinberum gjöldum barna 1980

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. dómsmrh. hans svör. Það kemur fram í máli hans, eða má lesa út úr ummælum hans, að hæstv. forsrh. hefur ekki tekið málið upp innan ríkisstj. á þeim grundvelli sem skilja varð orð hans í „Beinni línu,“ og ég harma það að sjálfsögðu.

Ég vil svo aðeins nefna tvö atriði við hv. 3. þm. Austurl. Þó að mér þyki undarlegt að maður skuli alltaf þurfa að eiga í viðræðum við hann um skattamál, þá hélt ég að hann vissi það ofurvel, að þegar talað er um skatta heimilanna, þá er verið að hugsa um þá greiðslubyrði sem heimilið hefur. Það skiptir engu máli um afkomu heimilisins hvað konunni er gert að greiða með sérstökum seðli, hvað föðurnum, hvað móðurinni, hvað hverju barni. Það, sem máli skiptir, er heildarniðurstaðan, heildarskattarnir á heimilinu, og þessi hv. þm. veit ofurvel að heildarskattarnir á heimilunum hafa þyngst. Beinu skattarnir hafa hækkað miklu meira en launatekjur almennings í landinu. Þetta veit þessi hv. þm. ofurvel. Ég er hér með skrá yfir þetta í hlutfallstölum. Ég hef oft lesið það og farið með það hér, en er ekki með það á hraðbergi eins og á stendur og bjóst satt að segja ekki við þvílíkum umræðum. En menn þurfa ekki annað en bera saman tekjuskattinn í fjárlagafrv. frá ári til árs, frá ríkisreikningi til ríkisreiknings. Menn geta lesið um það í Hagtölum mánaðarins. Öllum skýrslum ber saman um það, að skattbyrðin hefur þyngst. Beinu skattarnir eru hærri en þeir voru áður borið saman við laun. Og þegar sagt er: Skattbyrðin á ungmennunum er ekki þyngri en hún var, en á hinn bóginn hefur skattbyrðin á foreldrunum þyngst. Þá ber þess að minnast, að það er verið að tala um börn yngri en 16 ára. Hver er það sem sér þessum börnum farborða? Og ég vil aðeins minna á að um það hefur fallið hæstaréttardómur, að móður sé óheimilt að afsala sér meðlagi föður af þeirri einföldu ástæðu að meðlagið á ekki að koma móðurinni til góða, heldur barninu, og ef móðirin telur sig ekki þurfa á því að halda hefur barnið eftir sem áður rétt til þessa fjár. Þar kemur að sjálfsögðu fram þessi skilningur, að það eru fjölskyldutekjurnar sem máli skipta, það fé sem fjölskyldan hefur handa á milli, ekki hvernig það skiptist á meðlimi heimilisins. Þetta er gamalt atriði í skattalögum sem á að vera óþarfi að tala um hér á hinu háa Alþingi dag eftir dag, nánast í hvert einasta skipti sem skattamál ber á góma, rétt eins og maður væri að kenna félagsfræði í 4. bekk í gagnfræðaskóla. (Gripið fram í: Það talar enginn um þetta nema þú.) Ja, þú ættir að tala um það, þú hefur kennt þetta sjálfur í háskóla.

Svo vil ég segja það og skal ábyrgjast, að í vísindalegri meðfjöllun þessa hv. þm. — þegar hann talar sem löggiltur endurskoðandi — þá talar hann út frá þeim punkti sem eðlilegur er: Hversu mikið er það af heildartekjum heimilisins sem fer í skatta? Það er það sem skiptir máli, það er það sem um er spurt.

Ég vil svo líka benda á það, þegar talað er um að skattheimtan, eins og hún er í dag, sé sambærileg við það sem til var ætlast 1978, að það lágu fyrir yfirlýsingar um það frá Sjálfstfl., að skattbyrðin yrði hin sama eftir þau skattalög sem þá voru sett. Bæði þáv. hæstv. fjmrh. og þáv. hv. formaður fjh.- og viðskn. Nd. héldu því fram, að grundvöllurinn fyrir þeirra vinnu væri sá, að skattbyrðin yrði óbreytt. Ef það kemur nú í ljós að reiknað hafi verið vitlaust á þessum tíma, að verðbólgan hafi verið reiknuð öðruvísi en hún síðar varð, þá er það allt annað mál. Nema hv. þm. sé með þessum ummælum sínum að segja, að það hafi alls ekki staðið til í hans huga að skattbyrðin yrði óbreytt, hann hafi ætlað sér allt annað og við þá endurskoðun á skattalögum, sem hann var svo mjög viðriðinn, hafi hann ætlað að koma aftan að mönnum bakdyramegin með þyngri sköttum en áður. Það stóð alls ekki til.

Ég ætla svo ekki að gera sérstaklega að umræðuefni þá skattauka sem lagðir voru á haustið 1978. Ég skal ekki heldur gera sérstaklega að umræðuefni þegar verðbætur á laun voru skornar niður um 2% 1. des. 1978. Þá var lofað skattalækkunum sem aldrei var staðið við því að skattarnir hækkuðu. En jafnvel þó að því sé sleppt, þá hafa skattarnir þyngst. Og það sýnir að það er rétt, sem sagt hefur verið, að það er engin vörn fyrir þeirri skattheimtu sem nú er þó svo að grindin að núgildandi skattalögum hafi verið sett á árinu 1978. Og það er raunar líka alveg ný kenning ef skattstigar skipta ekki máli. Auðvitað eru þeir höfuðatriði málsins. Það hefur t.d. verið grundvallarregla hjá Sjálfstfl., að beinir skattar færu ekki yfir 50%. Einnig hefur það verið grundvöllur í stefnu Sjálfstfl., að almennar launatekjur yrðu ekki skattlagðar til ríkisins. Þetta liggur alveg ljóst fyrir. Út frá þessu var gengið þegar skattalögin voru ákveðin. En hitt er rétt, að ég veit ekki hvort í huga þessa hv. þm. hefur verið einhver löngun eða þrá til þess að koma aftan að mönnum með einhverri íþyngingu á þeim skattalögum, sem þá voru í gildi, í skjóli kerfisbreytingarinnar.