17.12.1980
Neðri deild: 36. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1653 í B-deild Alþingistíðinda. (1779)

176. mál, vörugjald

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um vörugjald, en frv. þetta hefur verið afgreitt frá Ed. Gjald þetta er gamalkunnugt í skattasögu þjóðarinnar og hefur lengi verið lagt á, a.m.k. ein 20 ár.

Þegar viðreisnarstjórnin var sett á legg hækkaði hún verulega gjöld á gosdrykkjum og öll og taldi óhjákvæmilegt að afla nokkurra tekna í þessu skyni. Gjald þetta var tengi vel í fastri krónutölu, hefur tekið nokkur stökk upp á við, en þó lengst af verið óbreytt í krónutölu og því rýrnað gífurlega vegna verðlagshreyfinga hér innanlands. Með þessu frv. er verið að færa þetta gjald til samræmis við verðlagsþróunina sem átt hefur sér stað á undanförnum árum.

Sú breyting er gerð á fyrirkomulagi skatttökunnar, að gjaldið er ekki lengur ákveðið í fastri krónutölu, heldur í hundraðshlutum, 10% á sælgæti, en 30% á gosdrykki. Rétt er að geta þess, að þessi gjöld hafa oft verið allmiklu hærri hlutfallslega en þau verða eftir að frv. þetta verður afgreitt, ef Alþingi samþykkir það. Svo að nefnt sé dæmi, þá mundi gosdrykkjagjaldið vera á annað hundrað kr. hærra í dag ef gjaldið, sem lagt var á 1960, hefði fylgt verðlagsþróuninni.

Auðvitað eru þeir framleiðendur, sem framleiða þessar vörur, ekki sérlega hrifnir af gjaldtöku af þessu tagi, og láir þeim enginn það. En þeir eru ýmsu vanir og hafa lengi fengist við það að afla þessara skatta fyrir ríkissjóð, hafa aldrei tekið því fagnandi, þegar gjaldið hefur verið hækkað, og oft talað um að mikill samdráttur mundi fylgja í kjölfar þessarar álagningar. En reynslan hefur orðið sú, að þjóðin hefur haldið áfram að borða sitt sælgæti og drekka sitt öl þrátt fyrir þessi gjöld. Og mér er nær að halda að svo verði þótt þetta frv. verði að lögum, þar verði ekki ýkjamikil breyting á.

Nokkrir framkvæmdastjórar gosdrykkjaverksmiðja hafa haft uppi hótanir um, að þeir muni segja upp starfsfólki sínu, og hafa jafnvel verið að tala um að þessa dagana væri verið að velja úr það starfsfólk sem ætti að hætta. En mörgum hefði fundist hyggilegra fyrir þá að doka við eftir því að áhrif þessa gjalds kæmu í ljós, og vera ekki með yfirlýsingar af þessu tagi fyrr en áhrifin hefðu sýnt sig í verki.

Herra forseti. Þetta er í sjálfu sér lítið mál sem ætti ekki að vekja mikla athygli að öllu venjulegu. Ég vil ekki orðlengja frekar um það og legg til að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til hv. fjh.- og viðskn.