28.10.1980
Sameinað þing: 10. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 248 í B-deild Alþingistíðinda. (178)

30. mál, skipulag loðnulöndunar

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Töluvert hefur verið fjallað um þetta mál, sem hv. þm. Helgi Seljan gerir hér að umræðuefni.

Eins og hv. þm. sjálfur rakti var flutningasjóðurinn lagður niður fyrir nokkrum árum. Ekki hefur náðst nein samstaða um að endurvekja þann sjóð. Er satt að segja mikil andstaða gegn því, þannig að ég hef ekki treyst mér til að gera það. Er það sérstaklega með tilliti til þess, að afkoma loðnuveiða hefur verið stórum lakari upp á síðkastið en var á meðan loðnuveiðar voru miklar og miklu meiri en nú er. En að sjálfsögðu hlýtur slíkt gjald á einn máta eða annan að greiðast af þeim verðmætum sem í loðnunni eru. Hins vegar hefur verið reynt að skipuleggja þetta með óbeinum aðgerðum. T.d. hafði það nokkur áhrif á ákvörðun mína að leyfa áframhald loðnuveiða á s.l. vori, en þá hafði loðnan gengið lengra, sérstaklega suður með vesturströndinni. Hins vegar gekk hún miklu skemmra en menn höfðu gert ráð fyrir suður með austurströndinni og olli það þar sérstökum vandræðum, eins og ég veit að hv. þm. vita. Við þessi náttúrufyrirbæri ráðum við sem betur fer ekki enn.

Ég vil greina nokkuð frá því sem hefur orðið nú í ár, bæði í þessu sambandi og almennt tengt loðnuveiðum. Við ákvörðun á heildarloðnuafla lögðu vísindamenn Íslands og Noregs fram skýrslu, þar sem þeir lögðu til að heildaraflinn yrði undir 895 þús. lestum. Norski vísindamaðurinn taldi óhætt að fara allt að þeirri tölu, en þeir íslensku lögðu hins vegar til 650 þús. lestir. En svona var það orðað í þeirra sameiginlegu skýrslu, að alla vega yrði þessi afli að vera undir 895 þús. lestum. Samkomulag varð um að binda hámarksaflann við 775 þús. lestir og af því áttu Íslendingar að fá 658 þús. lestir, bæði á haust- og vetrarvertíð. Þetta er að sjálfsögðu miklu minni afli en áður hefur verið um að ræða og því mjög alvarlegt mál bæði gagnvart afkomu flotans og að sjálfsögðu einnig gagnvart verksmiðjunum.

Að tillögu loðnuskipstjóra sjálfra samþykkti ég að þessu magni yrði skipt á 52 loðnubáta. Ég féllst einnig á að þeir gerðu sjálfir tillögu um þá skiptingu, hvað þeir gerðu, og ég samþykkti hana án nokkurra breytinga. Hins vegar voru það skilyrði af þeirra hálfu, með tilliti til þess hvað arðsemi þessara veiða væri orðin á mörkum, að ekki yrði þeim íþyngt með neinu flutningagjaldi eða neinum kvöðum um að þeir ættu að bíða með að veiða einhvern hluta af þessari loðnu þar til loðnustofninn væri genginn nær verksmiðjunum sunnan- og vestanlands og suðaustanlands. Féllst ég þá á að veita kvóta, 7500 lestir af síld, sem mætti sigla með, og varð þá jafnframt um það samkomulag, að það gæti orðið til þess að nokkuð af heildarloðnuaflanum yrði geymt fram á vetrarvertíð, þegar loðnan væri komin nær suðvestur- og suðausturströnd landsins. Þannig var ætlunin m.a. með þessum síldarkvóta að stuðla að því að svo gæti orðið.

Ég viðurkenni, og það hefur verið áhyggjuefni, að ekki hafa menn treysts til að grípa til beinna aðgerða til að flytja loðnuna til hinna fjarlægari staða við þær aðstæður sem nú eru í arðsemi þessara veiða, en hins vegar reynt að stuðla að því með óbeinum aðgerðum.

Nú vil ég alls ekki slá því föstu, eins og virðist vera gert í fsp. hv. þm., að loðna komi ekki í þessa landshluta. Að vísu er það atveg ljóst að nú í haust hefur hún dreifst ójafnt. Þar er Siglufjörður langsamlega hæstur með um 45 þús. lestir, síðan Krossanes með 10. þús., Raufarhöfn 17 þús., Bolungarvík 10 þús., en síðan eru fjölmargir staðir aðrir sem hafa fengið loðnu, eins og Þórshöfn með 1000, Seyðisfjörður 2000, Neskaupstaður 5000, Eskifjörður 1000, Vestmannaeyjar 2000, Grindavík 1500, Sandgerði 1200, Keflavík 7600, Hafnarfjörður tæp 3000, Reykjavík tæp 9000 og Akranes 5500, Patreksfjörður 700. Satt að segja hefur því dreifingin orðið nokkru meiri en menn bjuggust við í upphafi, þótt langmestu sé að sjálfsögðu landað á Norðurlandi. Loðnunefnd starfar að sjálfsögðu og reynt er að beina skipunum til þeirra hafna þar sem ekki er bið, eins og verið hefur.

En það er margt sem veldur því, að dreifingin hefur ekki orðið meiri. Loðnuaflinn var í heild 18. okt. aðeins orðinn 124 þús. lestir, en um svipað leyti í fyrra 344 þús. lestir. Nú hafa jafnframt gerst þeir mjög alvarlegu atburðir, að fiskifræðingar hafa eftir sameiginlegan leiðangur með Norðmönnum tjáð okkur að mælingar hafi orðið innan við 50% af því sem þeir hefðu vonast til og þyrfti að vera til að standa undir þeirri veiði sem ráðgerð hefur verið. Því hef ég átt fund með loðnumönnum, útgerðarmönnum, farmönnum og sjómönnum, og náðist samkomulag á þeim fundi um að fresta veiðum á 30% af þeim heildarkvóta sem hverjum báti hafði verið úthlutað. Þeim veiðum verður frestað fram yfir áramót. Ég tel út af fyrir sig að sú frestun sé ekki svo alvarleg. Allt bendir til þess, að mjög fáir bátar hefðu náð því magni, sem þeim er ætlað, fyrir áramótin.

Hitt er náttúrlega stórkostlega alvarlegt málefni fyrir útgerðina og reyndar fyrir verksmiðjurnar einnig, ef menn telja ekki óhætt að veiða einnig þessi 30% eftir rannsókn þá sem fer fram strax í upphafi janúar. Hins vegar má þá ætla að það magn, sem veitt verður síðar, verði þá gengið nær landi og þeim stöðvum sem hv. fyrirspyrjandi hefur í huga. — En af þessari ástæðu er m.a. öll framtíð loðnuveiðanna í haust og vetur ákaflega óviss og ákaflega alvarleg. Ég mun athuga hvort unnt er að láta endurtaka mælingar nú eða a.m.k. verði fylgst með allri þessari þróun.

Það skal tekið fram, að á fyrrgreindum fundi voru loðnuskipstjórar ósammála fiskifræðingunum og töldu að meira væri af loðnu en þar kæmi fram. Þetta verður að sjálfsögðu reynt að skoða. Hins vegar töldu þeir ekki sjálfir óhætt að fara hærra en í þessi 70%, og má þá segja að það sé farið eins hátt og frekast er unnt að gera, en þá við það miðað að engir bátar séu komnir yfir þann hluta með sinn kvóta þannig að jafnt gangi yfir alla.

Ég geri mér grein fyrir því að þetta svar er ófullnægjandi. Svarið er, að engar beinar aðgerðir hafa verið gerðar til að koma loðnu á hina fjarlægari staði, þótt það hafi verið kannað, og ekki náðst samstaða um það.

Óbeinar aðgerðir hafa verið ákveðnar til þess að eitthvað af loðnuveiðinni frestist svo meira komi á slíka staði. En í málinu er nú algjör óvissa vegna hins alvarlega ástands sem hefur skapast. Ef svo illa fer, að ekki er unnt að veiða meira en 70% af því sem að var stefnt, er okkur stórkostlegur vandi á höndum, ekki síst vegna loðnuflotans, sem verður að mæta á einhvern máta.