17.12.1980
Neðri deild: 36. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1654 í B-deild Alþingistíðinda. (1780)

176. mál, vörugjald

Matthías Á. Mathiesen:

Herra forseti. Við sjálfstæðismenn erum andvígir þessu frv. Þetta frv. lýsir ákaflega vel störfum núv. ríkisstj. Eftir að búið er í haust að gera sérstakar ráðstafanir til þess að aðstoða íslenskan iðnað er hér komið með frv. sem íþyngir svo íslenskum iðnaði að vera má að hann standi töluvert miklu verr eftir en áður þegar allt er lagt saman.

Ráðh. sagði í sinni framsöguræðu, að sælgætisframleiðendur væru ýmsu vanir. En ég ímynda mér að það, sem nú er að gerast, keyri um þverbak og þeir hafi aldrei — ég endurtek: aldrei nokkurn tíma búið við slíkar starfsaðferðir í gjaldtöku til ríkissjóðs sem nú er beitt.

Þessu til viðbótar má benda á það, að þessi gjaldtaka þýðir vísitöluhækkun sem kostar launahækkanir í landinu sem nemur 3 milljörðum kr. Menn verða að átta sig á því, hver útkoman úr heildardæminu verður þó að e.t.v. megi í byrjun reikna nokkra tugi, jafnvel hundruð millj. inn í ríkissjóð.

Ég endurtek: Við sjálfstæðismenn erum andvígir þessu frv.