17.12.1980
Efri deild: 38. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1656 í B-deild Alþingistíðinda. (1784)

172. mál, lántaka 1980 og 1981 og ábyrgðarheimildir

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um heimildir til lántöku á árunum 1980 og 1981 og um ábyrgðarheimildir.

Í þessu frv. kennir ýmissa grasa og eru ekki öll af sömu rót.

Í 1. gr. frv. er fjmrh. heimilað fyrir hönd ríkissjóðs að taka lán á árinu 1980 allt að 4750 millj. kr. eða jafnvirði þeirrar upphæðar í erlendri mynt miðað við gengi 1. ágúst 1980, og í 2. gr. er þetta lánsfé sundurliðað eins og þar kemur fram.

Hér er um að ræða nokkurs konar aukalánsfjáráætlun með svipuðum hætti og stundum eru afgreidd aukafjárlög og raunar flest ár. Það er svo, að fjárlög eru áætlun Alþingis um greiðslur og tekjur ríkissjóðs og lánsfjárlög eru áætlun Alþingis um lántökur og heimildir þeirra vegna. En það gildir bæði um fjárlög og lántöku ríkisins, að þar verður oft að gera nokkrar breytingar meðan Alþingi starfar ekki, vegna þess að aðstæður breytast, verðlag breytist eða upp koma vandamál eða sérstakar þarfir sem leysa þarf úr.

Sumir hafa ímyndað sér að það flokkaðist undir lögbrot að ríkisstj. afgreiddi lán til rafmagnsveitna eða jarðvarmaveitna eða til Orkusjóðs eða til Landhelgissjóðs umfram það sem lánsfjárlög heimila, en þetta er á nokkrum misskilningi byggt. Í lögum er skýrt kveðið á að B-hluta stofnunum sé heimilt að taka lán með samþykki fjmrn. Þessi heimild hefur æði oft verið notuð á undanförnum árum og þar á meðal á s.l. sumri.

Ég held að það sé ekki ástæða til að fara sérstaklega í þessa liði hvern um sig. Þarna er fyrst og fremst um að ræða að framkvæmdir hafa farið fram úr áætlun vegna verðlagsbreytinga og ekki hefur þótt tiltækt eða hagkvæmt að hætta verki í miðjum klíðum, heldur hefur þurft að bæta nokkru við. Eins þótti óhyggilegt með hliðsjón af þeirri hættu, að verulegur rafmagnsskortur yrði á þessum vetri vegna stöðu jarðvatns og vegna lítils úrfellis, að ekki fengist meira rafmagn frá Kröflu en áformað var, og var því ákveðið að bora þar eina holu til viðbótar. Óhætt er að segja að boranir við Kröflu hafi verið sérstaklega vel heppnaðar í seinni tíð og borið tilætlaðan árangur og er það fundið fé.

Í sambandi við lán til Landhelgissjóðs til kaupa á þyrlu vil ég taka það fram, að þegar lánsfjáráætlun var afgreidd höfðum við fengið þær upplýsingar í ríkisstj. að þessi þyrla kæmi ekki til landsins á þessu ári. Því var ekki gert ráð fyrir þyrlukaupum í lánsfjáráætlun ársins. Það kom svo í ljós, þegar líða tók á árið, að ekki væri hægt að komast undan því að afgreiða þetta mál , og var það gert með lántöku Landhelgissjóðs. Þessi þyrlukaup eru hins vegar kapítuli út af fyrir sig og kannske Alþingi til lítils sóma eða stjórnvöldum öllum, því að aldrei hefur verið fjallað um þessi þyrlukaup á Alþingi og er það í raun og veru furðulegt. Þetta hefur gengið svona til í tíð margra ríkisstjórna. Ég held að allir flokkar hafi tekið meiri eða minni ábyrgð á þessari óvenjulegu og lítt verjandi málsmeðferð. En þyrlan stóð tilbúin síðla sumars og var ekki um neitt annað að ræða en að taka við henni á tilsettum tíma ef ekki átti að hljótast fjárhagsskaði af.

Í 3. gr. frv. er fjmrn. heimilað að veita sjálfskuldarábyrgð ríkissjóðs í tengslum við þær lántökur sem greindar eru í 2. gr.

4. gr. fjallar aftur á móti um óskylt mál, þ.e. lántöku að jafnvirði 25 milljarða á næsta ári í tengslum við væntanlega lánsfjáráætlun.

Það kom skýrt fram í framsöguræðu minni við i. umr. málsins í hv. Nd., að ekki væri ætlunin að ráðstafa neinu af þessu láni fyrr en lánsfjáráætlun og lánsfjárlög hefðu verið afgreidd hér á Alþingi. Í raun og veru er þessi lántaka ekki til komin í neinum tengslum við það að lánsfjáráætlun skuli ekki hafa verið afgreidd. Hér er fyrst og fremst um það að ræða, að lántakan verður óvenjulega snemma á ferðinni þar sem hún verður á ferðinni núna í byrjun janúar, en hefur venjulega ekki átt sér stað fyrr en töluvert hefur verið liðið á árið. Okkur býðst sérstaklega hagkvæmt lán með óvenjulega góðum kjörum, lán til 25 ára, afborgunarlaust í 24 ár, á breskum markaði. Það þykir ekki verjandi að missa af því tækifæri sem þarna býðst og hefur ekki boðist um margra ára skeið á breskum markaði. Í hv. Nd. var gerð sú breyting á þessari grein, að enn skýrar var tekið fram en gert var í frv. upphaflega að þessu fé verði ekki ráðstafað fyrr en lánsfjáráætlun og lánsfjárlög hafa verið samþykkt.

Þegar frv. var fyrst útbúið af embættismönnum stóðu þeir í þeirri trú, að ætlunin væri að haga þessu með svipuðum hætti og þegar lánsfjáráætlun var samþykkt til bráðabirgða í stjórnleysisástandi í byrjun ársins og að þessu fé yrði ráðstafað í samvinnu við fjvn. Þetta var hins vegar misskilningur og ég breytti 4. gr. til samræmis við það. Hins vegar láðist mér að taka eftir því, að í lok athugasemda við 4. gr. hangir eftir setning sem ekki er rétt. Þar segir: „Hér er sami háttur hafður á og árið 1980, en lánsfé þessu verður ráðstafað í náinni samvinnu við fjárveitinganefnd.“Þessi orð áttu alls ekki að standa þarna, enda um hreinan misskilning að ræða. Það stóð aldrei til af hálfu ríkisstj. að ráðstafa neinu af þessu fé fyrr en lánsfjárlög hefðu verið samþykkt, enda engin þörf á slíku.

Herra forseti. Ég held að ekki sé ástæða til að eyða frekari orðum að þessu frv., en legg til að að lokinni þessari umr. verði því vísað til hv. fjh.- og viðskn.