17.12.1980
Efri deild: 38. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1659 í B-deild Alþingistíðinda. (1786)

172. mál, lántaka 1980 og 1981 og ábyrgðarheimildir

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Það er athyglisverður málatilbúnaður sem hefur átt sér stað hér í sambandi við það frv. sem er til umr. Það er nú fyrst, að ráðh. getur þess í framsögu sinni, að auðvitað flokkist það ekki undir lög þó að ekki sé farið eftir lánsfjárlögum þess árs sem þau eru í gildi fyrir, það sé auðvitað hrein ímyndun að eftir því þurfi að fara, því að B-hluta fyrirtæki geti hagað sér að vild engu að síður.

Hæstv. ráðh. hefur lagt mjög fyrir sig lögskýringar að undanförnu. Nú vitum við að lánsfjárlög hafa ekki lagagildi samkvæmt nýjustu lagatúlkun hæstv. ráðh. Áður hafði hæstv. ráðh. látið þau orð falla, að þau ákvæði, að lánsfjárlög og fjárfestingar- og lánsfjáráætlun fylgi fjárlögum, hafi ekki lagagildi nema þá ef þau yrðu skilin á þann hátt að þau fylgdu á eftir fjárlögum, þá skildist mér að það hefði e.t.v. lagagildi. Það þýðir þá væntanlega að það verður að skilgreina í hinn endann hversu langt á eftir fjárlögum þau megi koma. Ef það er óendanlegt hefur ráðh. ansi rúma heimild samkvæmt hinni nýju lagaskýringu sinni. Annars mætti ætla að það væri þá í síðasta lagi að það kæmi rétt áður en fjárlagafrv. næsta árs á eftir yrði lagt fram. Ég er hræddur um að þessi lagaskýring þarfnist nánari athugunar, og ég er sannfærður um að hæstv. ráðh. er reiðubúinn að fjalla um það nánar, svo að enginn velkist í vafa um hvað þessi lagaskýring hans þýðir.

Það er líka svo, að hæstv. ráðh. hefur tekið það sérstaklega fram, að svonefnd Ólafslög hafi auðvitað ekki lagagildi, a.m.k. ekki það sem tekur til vaxta. Ég er því að hugsa um að kannske væri rétt að spyrja hæstv. ráðh. hvort hann viti af nokkrum lögum sem hafa lagagildi. Það er nú t.d. svo með fjárlögin, að eftir þeim er ekki farið. Það er væntanlega vegna þess að menn telja ekki nauðsynlegt að fara eftir þeim lögum, og ég efast ekki um að hæstv. ráðh. eigi mjög auðvelt með að verja það. En þegar hér er staðið upp dag eftir dag af hálfu hæstv. ríkisstj. til að taka það fram, að lög, sem þeir, sem eru þátttakendur í þeirri ríkisstj. sérstaklega hafa staðið að því að setja, hafi enga bindingu í för með sér og ekkert lagagildi, þá þarf að auglýsa eftir því hvort sá hlutinn sé kannske minni og auðveldara að telja upp þau lög sem hafi lagagildi samkvæmt þessum nýju skilgreiningum.

Ég tók eftir því líka, að hæstv. ráðh. ræddi hér m.a. um þyrlukaup Landhelgisgæslunnar. Það fylgdi engin sérstök lagaskýring í því sambandi, en hins vegar ábending til þingsins um að þessi saga væri þinginu ekki til mikillar sæmdar. Það hafði hæstv. ráðh. til málanna að leggja í þeim efnum. Ég skil þetta svo, að afgreiðstu málsins hafi að dómi ráðh., eins og ég held annarra þm., ekki verið hagað sem skyldi. Það væri fróðlegt að fá það upplýst hjá hæstv. ráðh. hvort eitthvað svipað gilti t.d. um flugvél þá sem flugmálastjórn keypti fyrir rúmu ári, hvort það geti flokkast með sama hætti undir mál sem hafi tæplega fengið umfjöllun hér á þingi og væri þess vegna tæpast sómi að fyrir þingið. Ég held að það væri rétt ef hæstv. ráðh. vildi rekja gang þess máls og leggja dóm á hvort þar væri um sómasamlegt mál að ræða eða ekki eða hvort það flokkaðist með flugvél Landhelgisgæslunnar. (Fjmrh.: Það var á lánsfjáráætlun.) Á hvaða lánsfjáráætlun? (Fjmrh.: Lánsfjáráætlun sem hv. þm. samþykkti sem ráðh. í ríkisstjórn.) Þetta er rangt. (Gripið fram í.) Já, ætli það sé ekki svolítið naumt í þessu máli líka? Ætli það sé ekki eitthvað svipað og með Landhelgisgæsluna, að samþykkja eigi það eftir að allt er frágengið. Ég er hræddur um að mig reki minni til þess.

Ég tók eftir því, að hæstv. ráðh. lét þess sérstaklega getið í framsöguræðu sinni, að auðvitað hefðu embættismenn talið að hér ríkti stjórnleysi og þess vegna hefðu þeir ekki gengið frá frv. eins og ráðh. hafði hugsað sér. Ég verð náttúrlega að vorkenna embættismönnunum, að þeir skyldu telja að ástandið væri þannig, því að það eru fleiri sem hafa litið þannig á og þarf ekki mikla spekinga til.

Hér hefur loks verið útbýtt skýrslu um fjárfestingar- og lánsfjáráætlun árið 1981. Mér sýnist hún vera þynnri en í fyrra, hvernig sem á því stendur, og ekki verð ég var við að letrið hafi minnkað. Því væri fróðlegt að fá upplýsingar frá ráðh. um hvernig á því stendur. En það eru mjög fljótlegar upplýsingar sem koma hér fram um fjármunamyndun eða fjárfestingu í landinu. Og af því tilefni hefði ég viljað beina þeirri spurningu til ráðh., hvað fjárfesting á árinu 1980 sé sem hlutfall af þjóðartekjum og hvernig áættað er að það verði á árinu 1981.

Það er annars athyglisvert, að það hefur dregið mjög verulega úr fjárfestingu í fiskvinnslunni eða um 10% að magni til, sem verður að teljast mjög mikill samdráttur og mikil öfugþróun því að á árinu 1979 hafði tekist að stórauka fjárfestinguna í fiskvinnslunni, gera þar alveg sérstakt átak, og samkvæmt þeim gögnum, sem hér er dreift af hálfu ráðh., varð 21.3% magnaukning á fjárfestingu í fiskvinnslunni á árinu 1979. En eftir að núv. ríkisstj. tók við er öld sem sagt snúin og nú hefur orðið verulegur samdráttur — eða 10% samdráttur — á árinu 1980 og er ekki einu sinni meiningin samkv. því, sem hér er dreift, að rétta það af á árinu 1981, heldur einungis til hálfs, þar sem gert er ráð fyrir að aukningin verði 5% á árinu 1981. Ég held að þetta sé stórvarasöm þróun, vegna þess að einhver besti hagvaxtarmöguleiki þjóðfélagsins liggi einmitt í fiskvinnslunni, og þar að auki sé okkur það mjög nauðsynlegt með tilliti til samkeppni sem við megum búast við og eigum við að búa frá öðrum aðilum, að fiskvinnslan sé vel úr garði gerð tæknilega séð og vel að henni búið þannig að ná megi bestu gæðum og geti verið eðlileg framvinda og þróun í greininni og hún geti staðið af sér samkeppni. Það gerist ekki öðruvísi en að hún fái að endurhæfa sig.

Það er svo á hinn bóginn mjög athyglisvert, að í engu hefur fjárfesting aukist jafnmikið á árinu 1980 og í flutningatækjum eða um nær 80%. Enn er það athugandi í sambandi við þær tölur, sem hér hefur verið dreift, að gert er ráð fyrir verulegum samdrætti í fjárfestingu í atvinnuvegunum á sama tíma og fjárfesting í opinberum byggingum eykst um 7% og það er næstmesta aukning sem fyrir kemur í þeirri spá fyrir 1980 sem hér er dreift.

Ég ætlaði síðan að lokum að beina einni spurningu til ráðh. og er tilbúinn til þess, herra forseti, ef ráðh. getur léð því eyra. (Forseti: Ég sé að hæstv. ráðh. er í atkvgr..) Er það alveg borin von? (Forseti: Hann kemur þegar að lokinni þessari atkvgr. Ef hv. þm. vildi doka örlítið við er ég viss um að ráðh. kemur innan stundar. Það tekur því varla að ganga úr stólnum.) Ég þakka fyrir.

Já, það var að lokum ein spurning til hæstv. ráðh. Hann upplýsti áðan að ástæðan fyrir 4. gr. frv. væri sú, að það byðist mjög hagstætt lán. Það má vera að ráðh. hafi á öðrum vettvangi upplýst þetta mál, en það hefur þá farið fram hjá mér. Ég hefði gjarnan viljað vita hvaðan þetta fé væri runnið og annað varðandi kjörin á láninu en bara afborgunartímann. Eru t.d. einhverjir vextir af þessu láni og þá hverjir og hvernig eru þeir í samanburði við aðra vexti? Ég man ekki eftir að hafa heyrt um það.