18.12.1980
Efri deild: 39. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1667 í B-deild Alþingistíðinda. (1793)

150. mál, verðjöfnunargjald af raforku

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Herra forseti. Við 2. umr. þessa máls hér í gær óskaði ég þess, að lokaafgreiðslu málsins yrði frestað þar til í dag, og forseti varð góðfúslega við þeirri ósk. En þannig stóð á henni, að nýlega voru fram komnar nýjar upplýsingar um raforkuverð og samanburð á raforkuverði hjá Rafveitu Siglufjarðar og Rafmagnsveitum ríkisins sem bentu til þess, svo ekki sé meira sagt, að afgreiðsla þessa máls hefði að undanförnu oftar en einu sinni verið á röngum forsendum, þ.e. að menn hefðu haldið að raforkuverð hjá Rafveitu Siglufjarðar væri mun lægra en hjá Rafmagnsveitum ríkisins.

Eins og ég sagði komu þessar upplýsingar mjög seint fram og ráðherrarnir tveir, sem hér gáfu yfirlýsingar í gær, fengu þær fyrst til athugunar undir kvöld og þurftu að sjálfsögðu að láta kanna málið betur. Þess vegna var ég að gera mér vonir um að frekari upplýsingar kynnu að liggja fyrir nú. En þetta mál þarf að sjálfsögðu að afgreiða og hefur náttúrlega dregist í þó nokkra daga fyrir mína ósk og annarra, og er ég hæstv. forseta, ráðherrum og ekki síst hv. iðnn. þakklátur fyrir umburðarlyndið.

Ég vil ekki verða til þess að tefja málið lengur, sérstaklega með hliðsjón af því, að hæstv. fjmrh. gaf um það alveg skýlausa yfirlýsingu, að brýnasti vandi Rafveitu Siglufjarðar mundi verða leystur við afgreiðslu lánsfjáráætlunar, og hæstv. iðnrh. gaf einnig mjög afdráttarlausar yfirlýsingar um að framtíðarvandi Rafveitu Siglufjarðar yrði leystur með sérstökum ráðstöfunum. Og þó að svo fari, að menn sannfærist um að Rafveita Siglufjarðar ætti að fá einhverja hlutdeild í þessu gjaldi, t.d. á kostnað Rafmagnsveitna ríkisins, þar sem verðlag hjá þessum tveim stofnunum er mjög svipað eftir nýjustu upplýsingum, þá má alltaf breyta því með sérstakri löggjöf síðar í vetur. Og hverjir svo sem sitja í stólum þeirra hæstv. ráðh., sem hér gáfu þessar skýlausu yfirlýsingar í gær, hljóta þeir að verða að framkvæma þær yfirlýsingar. Þess vegna sætti ég mig við, að málið gangi fram, og mun greiða fyrir því, þó að ég hafi í sjálfu sér alltaf verið andvígur því að leysa málið með þessum hætti. Að sjálfsögðu er verðjöfnun á rafmagni nauðsynleg, en ég hefði talið aðrar leiðir en slíkt gjald — verðbólguaukandi gjald o.s.frv. sem ég skal ekki fara út í — heppilegri og hef greitt atkvæði gegn þessari aðferð og mun gera áfram, en vil greiða fyrir því, að málið nái nú fram að ganga.

Ég þakka svo enn það umburðarlyndi sem sýnt hefur verið.