28.10.1980
Sameinað þing: 10. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 250 í B-deild Alþingistíðinda. (180)

30. mál, skipulag loðnulöndunar

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Ég vil taka undir það sjónarmið hv. fyrirspyrjanda, að það væri æskilegt að hægt væri að landa loðnuafla og dreifa honum á sem flestar löndunarhafnir. Hins vegar vil ég taka undir það sjónarmið hæstv. sjútvrh., að þegar loðnuaflinn minnkar og gengið er í ríkari mæli í að takmarka veiðar loðnuskipanna getur enginn ætlast til þess, að þeir útgerðarmenn og sjómenn, sem þessar veiðar stunda, standi undir slíkum flutningum. Þá verður að leysa þá flutninga með öðrum hætti, því að þetta er ekki mál sjómanna og útgerðarmanna. Þetta er þá mál til atvinnujöfnunar í landinu, sem yrði að taka upp með öðrum hætti.

Í framhaldi af þessari fsp. vil ég mælast til þess við hæstv. sjútvrh. að hann gefi eða láti semja skýrslu um rannsóknir á loðnustofninum, um tillögurnar frá byrjun, og leggi fyrir Alþingi. Ég tel að þær ráðstafanir, sem hann hefur nú neyðst til að gera og áður hafa einnig verið gerðar, séu orðnar svo alvarlegar að þær gefi ekki rétta vísbendingu um að það sé hægt að bæta lífskjörin í þessu landi, heldur öfugt. Það er undarlegt að fyrir aðeins þremur árum var talið að mætti veiða allt upp í 1.5 millj. lesta af loðnu, menn hvattir þá til fjárfestingar bæði í veiðum og vinnslu, og síðan er lagt til að fara í 650 þús. tonn í loðnuveiðunum og nú er það skorið niður. Ég hygg að aðrir launþegar og atvinnurekendur í þessu landi mundu eitthvað segja ef kaup manna væri skorið niður um 30%, eins og þetta fólk verður að taka á sig. Hér er eitthvað orðið furðulegt við öll vísindin og það er sannarlega tími til þess kominn að þau séu byggð á sterkari grundvelli en þeim að hægt sé að hlaupa úr einni tillögunni í aðra á nokkurra mánaða fresti. Því vil ég mælast til þess við hæstv. ráðh. að hann láti semja skýrslu um loðnurannsóknir og veiðar og leggi fyrir Alþ., þannig að hún liggi fyrir til umræðu hjá þjóðinni í heild.