28.10.1980
Sameinað þing: 10. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 251 í B-deild Alþingistíðinda. (181)

30. mál, skipulag loðnulöndunar

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Það er vissulega rétt sem komið hefur fram í þessum umr., að það ríkir áhyggjusamlegt ástand í loðnuveiðimálum og loðnuvinnslumálum. Það er auðvitað æskilegt, eins og hér hefur komið fram, að unnt sé að dreifa vinnslunni og þar með vinnunni sem víðast um land. En það er jafnljóst að það kostar mikla peninga, það hefur í för með sér óhagkvæmni, ekki síst þegar olían er orðin svo dýr sem raun ber vitni. Ég verð reyndar að segja að mér þykir, eins og hæstv. sjútvrh., að það hafi þó orðið furðumikil dreifing miðað við aðstæður á þeim afla sem á land hefur borist. En allur samdráttur er í rauninni dýr og hann bitnar hér jöfnum höndum á vinnslunni og veiðunum.

Hæstv. sjútvrh. rakti nýtt mat fiskifræðinga á ástandi loðnustofnsins. Við skulum vona að þetta mat sé of svartsýnt, en ekki er okkur óhætt að ganga út frá því sem slíku. Þess vegna tel ég að þær ráðstafanir, sem gripið hefur verið til af hendi hæstv. ráðh., hafi verið eðlilegar. Enn einu sinni höfum við í rauninni fengið ábendingu um að aðgát skuli höfð í nýtingu stofnanna, hvort sem þessi mæling er fyllilega rétt eða ekki.

En það, sem ég vildi sérstaklega beina til hæstv. ráðh., er að nú liggur ekki bara fyrir vandi hjá verksmiðjunum, heldur ekki síður hjá loðnuflotanum sjálfum. Þar eru mörg stór og dýr tæki sem hafa lítil verkefni. Nú er útlit fyrir að þau skerðist enn miklu frekar. Loðnuflotinn hefur getað lokið sínum verkefnum á mjög skömmum tíma, þrem til fjórum mánuðum, og getur það enn frekar nú, en þó væntanlega við lélegri afkomu. Síldveiðarnar munu ekki vega hér upp á móti. Spurning mín til ráðh. er því sú, hvernig hann hyggist bregðast við þeim vanda sem loðnuflotinn í heild stendur frammi fyrir eins og stendur.