18.12.1980
Efri deild: 40. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1670 í B-deild Alþingistíðinda. (1811)

172. mál, lántaka 1980 og 1981 og ábyrgðarheimildir

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Við hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson höfum ritað undir nál. á þskj. 315 varðandi þetta mál með fyrirvara. Við 1. umr. málsins lýsti hæstv. ráðh. yfir því, að hann mundi ekki ráðstafa þessu lánsfé fyrr en fyrir lægju lánsfjárlög frá Alþingi, en eins og þm. vita er ekki ráð fyrir því gert að frv. um þau liggi fyrir fyrr en eftir hátíðir. Við hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson viljum leggja áherslu á með fyrirvara okkar að við þetta fyrirheit hæstv. ráðh. verði staðið. Auk þess er okkar fyrirvari í því fólginn, að við lýsum enn yfir megnustu vanþóknun okkar á öllum málarekstri hæstv. ríkisstj. út af lánsfjáráætlun fyrir næsta ár, en það mál er svo tíðrætt hér að undanförnu að ég tel enga ástæðu til að fjölyrða frekar um það.

Á hinn bóginn teljum við að eðlilegt sé að veita hæstv. ríkisstj. þetta umboð — þessa heimild til að taka þetta lán, þar sem um virðist vera að ræða hagstætt lán fyrir þjóðina til að fjármagna ýmsar framkvæmdir samkvæmt væntanlegum lánsfjárlögum.

Ég held að það sé ástæðulaust fyrir mig að taka frekar fram um fyrirvara okkar hv. þingmanns.