18.12.1980
Efri deild: 40. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1676 í B-deild Alþingistíðinda. (1818)

171. mál, jöfnunargjald

Viðskrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Það mál, sem hér er til umræðu, á sér nokkuð langa sögu. Hér er um að ræða framlengingu á gjaldi sem gilt hefur um nokkurn tíma. Þegar farið var að ræða undirbúning fjárlagagerðar í sumar í ríkisstj. hafði hæstv. iðnrh. áhuga á því ef tök væru á, að framlengja aðlögunargjaldið með þeim hætti, að það yrði lækkað um 1% á næsta ári, síðan um annað á árinu 1982 og félli niður um áramótin 1982–1983. Ég ræddi þetta mál við framkvæmdastjóra Fríverslunarbandalags Evrópu, EFTA, á fundi í Kaupmannahöfn seinni partinn í sumar og spurðist fyrir um það, hvort tök væru á að framlengja gjaldið með þessum hætti, eins og iðnrh. hafði áhuga á, og hvernig viðtökur hann teldi að slík málaleitan mundi fá. Hann vitnaði til þess, hvernig gjaldið var á lagt, og ég vil rekja með nokkrum orðum hvernig staðið var að þeim málatilbúnaði bæði hér heima og einnig erlendis, í samtölum og viðræðum, samningum við Efnahagsbandalag Evrópu og EFTA.

Eins og kunnugt er fellur aðlögunargjaldið niður nú um áramótin og einnig jöfnunargjaldið, nema það verði framlengt samkv. því frv. sem hér er til umræðu. Ég er auðvitað fylgjandi því, að jöfnunargjaldið verði framlengt, og þarf ekki að hafa um það fleiri orð, en ástæðan til þess, að ég tel rétt að rekja nokkuð gang þessara mála, er að í ákvæði til bráðabirgða er gert ráð fyrir að leggja á til viðbótar allt að 2% jöfnunar- og aðlögunargjald eða ígildi þess, enda renni tekjur af þessu viðbótargjaldi óskiptar til iðnþróunar. Vegna þessa bráðabirgðaákvæðis sé ég ástæðu til að rekja þessi mál nokkru nánar.

Þegar fjallað var um þessi mál voru þau tekin upp við þessar stofnanir, EFTA, sem við erum aðilar að, og Efnahagsbandalag Evrópu, sem við höfum mjög þýðingarmikla fríverslunarsamninga við. Í þeim viðtölum, sem þá áttu sér stað, var gengið út frá því, að aðlögunargjaldið yrði tímabundið, og því var lýst yfir með það sterkum orðum að svo yrði, að framkvæmdastjóri EFTA sagði við mig á fundinum í Kaupmannahöfn í sumar að menn hefðu gefið drengskaparheit um það, það hefði verið „gentlemen’s agreement“, eins og hann orðaði það, að ekki yrði farið fram á framlengingu gjaldsins.

Ég held að nauðsynlegt sé að hafa þetta í huga og einnig hitt, hvernig menn töluðu fyrir málinu hér á Alþingi í þeim umræðum sem fram fóru og ég vil nú vitna til. Ég var þá fjmrh. og hafði framsögu fyrir málinu á Alþingi. Það var gert ráð fyrir að gjaldið væri tímabundið og mundi gilda til 31. des. 1980. Í grg. fyrir frv. segir svo orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Gjaldtaka þessi á að vera tímabundin. Gert er ráð fyrir að hún hefjist 1. júlí 1979 og henni ljúki 31. des 1980. Gildistími hennar, 18 mánuðir, á rætur að rekja til þess ákvæðis 20. gr. EFTA-samningsins að undanþáguaðgerð af þessu tagi skuli ekki standa lengur en í 18 mánuði.“

Í framsöguræðu minni fyrir málinu vitnaði ég einmitt alveg sérstaklega til þessa og tók þetta orðrétt upp. Hæstv. iðnrh., sem þá var og nú er, sagði einnig í sinni ræðu er hann tók þátt í umræðum um málið:

„Ég vænti þess, að sú vernd, sem íslenskur iðnaður fær notið af þessari gjaldsetningu sem ætlað er að gildi út næsta ár, verði honum til framdráttar.“

Einar Ágústsson tók þátt í viðræðum erlendis um þetta mál, og ég hygg að hér séu staddir menn sem einnig tóku þátt í þeim umræðum. Ég veit að hv. þm. Eiður Guðnason, tók þátt í þeim gæti, ef honum sýnist svo, skýrt frá því, hvað menn sögðu þar, að svo miklu leyti sem hann veit um það. En kafli úr ræðu Einars Ágústssonar var á þessa leið, orðréttur, með leyfi hæstv. forseta:

„Annað atriði, sem mjög mikil áhersla var lögð á og ég legg höfuðáherslu á, miðað við þann málflutning sem ég leyfði mér að hafa uppi í þessari ferð og við sem hana fórum, er að þetta gjald verði fellt niður í árslok 1980. Það er ekki hægt að fara fram á svona undanþágur á fölskum forsendum. Alþingi og ríkisstj. verða því á því eina og hálfa ári, sem til stefnu er, að gera aðrar ráðstafanir ef iðnaðurinn íslenski þarf þá enn á áframhaldandi vernd að halda. Það er ekki hægt að svíkja gerða samninga, það megum við ekki láta henda okkur.“

Þetta sagði Einar Ágústsson í umræðum hér á Alþingi þegar frv. var til meðferðar.

Í framhaldi af þessu er kannske rétt að velta örlítið fyrir sér hvaða hagsmunir eru í húfi þegar um það er að ræða, hvort hægt sé að treysta því sem við Íslendingar segjum í samskiptum við aðrar þjóðir. Við erum aðilar að EFTA, eins og kunnugt er, og við höfum — ja, ég vildi segja nánast á grundvelli EFTA-samstarfsins gert mjög þýðingarmikla fríverslunarsamninga við Efnahagsbandalag Evrópu. Það kemur ekki síður við sögu þessa máls heldur en EFTA. Og þessir samningar eru svo þýðingarmiklir, að á þessu ári sleppum við við að greiða tolla af útflutningsvörum til Efnahagsbandalagslandanna sem nema 11 milljörðum kr. Þess vegna er það, að þegar ég sneri mér til sendiherra okkar hjá Efnahagsbandalagi Evrópu og bað hann um að athuga þessi mál, þá sendi hann skýrslu um viðbrögð fulltrúa hjá Efnahagsbandalaginu. Hann segir í skýrslu sinni m.a., orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Telja má fullvíst að bandalagið sætti sig ekki við framlengingu aðlögunargjaldsins og gæti jafnvel gripið til mótaðgerða sem skaði mikilvæga viðskiptahagsmuni Íslands.“

Það, sem hann á þarna við, er auðvitað að til mótaðgerða kunni að verða gripið ef ekki má treysta yfirlýsingum sem við höfum gefið eða okkar fulltrúar í sambandi við meðferð þessa máls. Þegar málið var rætt í ríkisstj. í sumar gerði ég strax fyrirvara um þetta og taldi ekki fært — alveg án tillits til þess, hvaða persónulega skoðun ég hef á málinu, og aðstöðu iðnaðarins — með tilliti til þess, hvernig málatilbúnaður var, að framlengja gjaldið í einu eða öðru formi. Það mundi skaða hagsmuni okkar og orðstír, og það gæti valdið því að okkur yrði verr trúað en áður þegar e.t.v. ríður mikið á. Þegar málið var svo komið hér inn á Alþingi til framlengingar gerði ég það að umræðuefni við 1. umr. fjárlaga og rakti með nokkuð svipuðum hætti og ég er að gera hér, nema í miklu styttra máli, það sem ég tel skipta höfuðmáli í sambandi við hugsanlega framlengingu þessa gjalds.

Ég get tekið undir margt af því sem hv. 2. þm. Reykn. ræddi hér áðan um iðnaðinn og aðstöðu hans hér á landi. Og það verður að segja alveg eins og er — (Gripið fram í.) Það er mál út af fyrir sig og mætti kannske rekja sögu þess nokkuð aftur í tímann, þegar það var upphaflega lagt á, og athuga hvort gjaldið hafi þá verið hlutfallslega lægra eða hlutfallslega hærra en það er nú. Mér er nær að halda að þegar viðreisnarstjórnin — að ég hygg eða kannske það hafi verið stjórn okkar hv. þm. Lárusar Jónssonar — lagði þetta gjald upphaflega á, þá hafi gjaldið verið hlutfallslega hærra en það er samkv. því frv. sem hér liggur fyrir. (Gripið fram í: Hærra hlutfall af tekjum.) Ég er að tala um gjaldið sjálft. Ég vil ekki fullyrða það, þetta er til athugunar. En þetta var innskot sem kemur málinu ekki við.

Ég get tekið undir margt af því sem hv. 2. þm. Reykn. ræddi um varðandi iðnaðinn. Og það verður auðvitað að segja eins og er, að það er hæpið að vonast eftir örri framþróun, hvort sem það er í iðnaði eða öðrum atvinnurekstri, í landi sem býr við 50–60% verðbólgu árum saman. (Gripið fram í: 70–80%.) Ekki er það nú enn þá, þó um það hafi verið talað. (Gripið fram i.) Ja, því hefur verið spáð, eins og margir góðir menn hafa skýrt frá bæði hér á hv. Alþingi og annars staðar. Ég hygg því að það væri vissulega önnur hlið þessa máls og hún þýðingarmeiri að búa þannig að iðnaðinum í landinu að hann geti þróast með hagstæðari hætti en verið hefur við þau skilyrði sem við búum við, þó að miklar framfarir hafi orðið í iðnaði á undanförnum árum.

Í framhaldi af því, sem ég hef nú rakið allítarlega, tel ég óheppilegt að gera því skóna, að við ætlum eða viljum framlengja aðlögunargjaldið enda þótt við höfum lýst því yfir að við mundum ekki gera það. Þess vegna álit ég ekki heppilegt að nefna aðlögunargjaldið sérstaklega í þessu ákvæði til bráðabirgða. Og með tilliti til mjög eindreginna yfirlýsinga íslensku fulltrúanna í viðræðum við EFTA og Efnahagsbandalag Evrópu á sínum tíma vil ég beina þeim tilmælum til nefndarinnar, að hún endurskoði orðalagið á bráðabirgðaákvæðinu í þá veru að nefna ekki aðlögunargjaldið sérstaklega, heldur að orða þetta þannig: „til viðbótar allt að 2% jöfnunargjald eða ígildi þess.“ Ég er fús til að taka málefni íslensks iðnaðar og samkeppnisaðstöðu hans upp við Efnahagsbandalag Evrópu og EFTA til að freista þess að bæta aðstöðu iðnaðarins. En auðvitað verður allt slíkt að gerast á grundvelli aðildar okkar að EFTA og samninga sem við höfum við Efnahagsbandalag Evrópu.

Ég skal ekki hafa öllu fleiri orð um þetta, þó að margt megi um málið segja, en vil ítreka þau tilmæli mín til nefndarinnar, hvort hún vilji milli umræðna athuga málið á nýjan leik í ljósi þeirra upplýsinga, sem ég hef nú verið að kynna og held að nauðsynlegt sé að menn hafi í huga, vegna þess að málatilbúnaður þessi fór fram hér á Alþingi og þar byggðu menn auðvitað á þeim yfirlýsingum og upplýsingum og ræðum sem haldnar voru í sambandi við meðferð málsins.

Ég vil taka það fram um þær heimildir, sem hér er ætlað að lögfesta, að það er fullt samkomulag í ríkisstj. um að þær verði ekki notaðar nema með mínu samþykki, vegna þess að ég fer með málefni EFTA og Efnahagsbandalags Evrópu í ríkisstj. Og að sjálfsögðu legg ég ekki blessun mína yfir neitt slíkt nema það sé í samræmi við skuldbindingar okkar og aðild að EFTA og í samræmi við samninga við Efnahagsbandalag Evrópu.