18.12.1980
Efri deild: 40. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1679 í B-deild Alþingistíðinda. (1819)

171. mál, jöfnunargjald

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Ég vil hefja mál mitt á því að taka undir með tveimur síðustu hv. ræðumönnum, bæði hæstv. ráðh. og hv. þm. Kjartani Jóhannssyni. Ég held að það sé mikil þörf á að bæta og jafna aðstöðu íslensks iðnaðar. En það er ekki nóg að tala fallega og breyta þvert gegn því sem menn tala. Ég á við það sem hæstv. ríkisstj. hefur gert nú síðast í sambandi við álagningu nýs gjalds á tilteknar iðngreinar m.a. Ég vil hins vegar — af því að ég er að deila á hæstv. ríkisstj. — einnig að það komi mjög skýrt fram, að ég tel að hún sé á réttri braut og það sé með betri málum, sem hún hefur beitt sér fyrir, að hún áformar að fella niður toll á aðföngum iðnaðarins sem nema mun 1000 millj. kr. á næsta ári, að því er okkur er skýrt frá í hv. fjvn. Þar tel ég hæstv. ríkisstj. á réttri braut að bæta og jafna aðstöðu iðnaðarins.

En ég vil vekja athygli á öðru sem hæstv. ríkisstj. kannske gerir sér ekki næga grein fyrir þegar hún er að fjalla um iðnaðinn og aðstöðu hans og yfirleitt um atvinnustefnu í landinu. Hæstv. ráðherrar tala mikið um að þeir stundi svokallað gengisaðhald — aðhald í gengismálum. Það er kannske góðra gjalda vert að vera aðhaldssamur á hinum og þessum sviðum, en að vera svo aðhaldssamur að viðurkenna ekki áorðnar staðreyndir, að viðurkenna ekki að gengið er rangt skráð, þannig að atvinnuvegirnir geti ekki búið við það öðruvísi en með taprekstri, slíkt er ekki aðhald. Það er bara hrein og bein vitleysa og kemur atvinnuvegunum í koll og gerir það að verkum, að þeir eru reknir með stórfelldu tapi. Þetta kemur síðar niður á verkafólki og almennum launþegum á þann hátt, að atvinnuvegir, sem eru reknir með tapi, leggja ekki fjármuni í hagræðingu. Þeir leggja ekki fjármuni í vélvæðingu. Talið er að á þessu ári eða frá því að hæstv. ríkisstj. komst til valda sé gengið svona á bilinu frá 7–9% of hátt, þannig að við jafnmikið gengisóhagræði sé að glíma fyrir útflutningsatvinnuvegina, en ekki síður iðnaðinn líka. Þetta þýðir það, að innfluttar iðnaðarvörur eru greiddar niður um 7–9%. Þetta þýðir að alveg eins og sjávarútvegurinn býr við 7–9% óhagstætt gengi miðað við tilkostnað og það sem hann fær fyrir sínar útflutningsvörur þá býr útflutningsiðnaðurinn líka við 7–9% óhagstætt gengi.

Það er þess vegna ekki úr vegi að ræða gaumgæfilega um það, hvað hæstv. ríkisstj. er að gera í sinni atvinnustefnu almennt. Það mál, sem hér er á dagskrá, er fyrst og fremst framlenging á svokölluðu jöfnunargjaldi. Þetta gjald var lagt á í tíð ríkisstjórnar Geirs Hallgrímssonar. Við hæstv. ráðh. berum því nokkra ábyrgð á því. Þegar þetta gjald var lagt á þá hafði Félag ísl. iðnrekenda barist fyrir því í tvö ár að fá þetta mál fram. Og ég vil minna hæstv. ráðh. á að andstaða gegn því, að jöfnunargjald væri lagt á á þessum tíma, var af nákvæmlega sama toga og verið er að hafa uppi núna um framlengingu aðlögunargjalds, þó ekki að því leyti, að þar var náttúrlega aldrei um að ræða nein drengskaparheit eða orðræður íslenskra ráðamenna við forráðamenn Efnahagsbandalagsins og EFTA. En höfð var uppi sú mótbára, að þetta mundi ekki verða þolað, jöfnunargjald á innfluttar iðnaðarvörur mundi ekki verða þolað af þessum tveimur bandalögum. Þegar svo forráðamenn iðnrekenda voru að kynna sér þessi mál eftir tveggja ára baráttu, þá kom það upp úr dúrnum að Finnar höfðu haft slíkt jöfnunargjald frá 1970. Og á hverju var þetta jöfnunargjald Finna byggt? Þetta var byggt á þeirri staðreynd, að iðnaður, sem býr við söluskattskerfi, eins og er hjá okkur og hjá Finnum, hlýtur alltaf að þurfa að greiða í ríkissjóð vegna uppsafnaðs söluskatts sem leggst á vélar eða aðföng eða eitthvað slíkt. Innifalin í kostnaðinum við að framleiða vörur í löndum, sem búa við söluskattskerfi, eru opinber gjöld vegna söluskatts. Ég vil upplýsa að við í hv. fjh.- og viðskn. óskuðum eftir að fá útreikning, nýjan útreikning á því hjá Þjóðhagsstofnun, hver þessi uppsafnaði söluskattur væri nú, hvað íslenskur iðnaður þyrfti að borga í söluskatt í ríkissjóð vegna þess að hann býr við það kerfi, að söluskattur er lagður á, en ekki virðisaukaskattur eins og víðast er í okkar samkeppnislöndum. Niðurstaðan var sú, að þessi uppsafnaði söluskattur sé um 3% eða nákvæmlega jafnhár og jöfnunargjaldið. Og á þessum rökum, hæstv. ráðh. byggist jöfnunargjaldið. Jöfnunargjaldið sem slíkt byggist ekki á neinum öðrum rökum.

Ég vil líka benda á það, að eftir að lög höfðu verið samþykkt um að leggja á aðlögunargjald fóru menn á fund Efnahagsbandalagsins og EFTA með ákveðinn rökstuðning fyrir því gjaldi. Það var sá rökstuðningur, að íslenskur iðnaður byggi við verri kjör að ýmsu leyti í skattamálum en sjávarútvegur og landbúnaður og hann byggi við verri kjör á hinum og þessum sviðum. Reiknað var út hvað hann í raun og veru byggi þá við verra gengi af þessum sökum. Þessi rök voru höfð uppi við forráðamenn Efnahagsbandalagsins og EFTA. Þeir mætu menn sögðu að sjálfsögðu að þetta væru okkar innanríkismál, við gætum ekki byggt neina slíka gjaldtöku á þessum rökum. Að sjálfsögðu ættum við að leiðrétta aðstöðu iðnaðarins. Ég vil taka undir það sjónarmið. Það er auðvitað meginmálið. Það þarf að gera þessa aðstöðu jafna.

Síðan var farin önnur ferð og þetta mál tekið upp að nýju og þá á þeirri forsendu, að þarna væri fyrst og fremst um að ræða fjáröflun til sérstakrar iðnþróunarverkefna á síðustu árum aðlögunartíma EFTA. Og á þeim forsendum, gerólíkum þeim sem jöfnunargjaldið er byggt á, var þetta látið óátalið af Efnahagsbandalaginu og EFTA, eftir því sem formaður þeirrar sendinefndar, sem fór þessa ferð, tjáði okkur í hv. fjh.- og viðskn. Í framhaldi af því taldi hann þó að tekið hefði verið fram af þessari sendinefnd, að þetta væri tímabundið gjald og að ekki mundi verða farið fram á að það gilti lengur en til áramóta 1979. Þá taldi hann — og ég vil að það komi hér skýrt fram og hæstv. ráðh. viti að hann sagði það í nefndinni, að hann teldi að miðað við þær sérstöku aðstæður, sem nú væru hér hjá okkur í iðnaðinum, væri sjálfsagt að taka upp viðræður við forráðamenn Efnahagsbandalagsins og EFTA, — og aðallega EFTA náttúrlega því við erum í þeim fríverslunarsamtökum þó við höfum samninga við Efnahagsbandalagið, — hann taldi sjálfsagt að taka upp viðræður um að fella þetta gjald niður í áföngum. Á þetta sjónarmið féllumst við í meiri hluta nefndarinnar. Við féllumst á það sjónarmið, að það væru rök fyrir því að ræða þetta mál á þessum nótum við Efnahagsbandalagið og EFTA. Og þess vegna töldum við eðlilegt að veita hæstv. ríkisstj. heimild til að leggja þetta gjald á að loknum slíkum viðræðum ef þær bæru árangur. En ég get líka tekið það fram, að a.m.k. frá mínum bæjardyrum séð fólst í þessu brýning til hæstv. ríkisstj. að fara annaðhvort þá leið að framlengja gjaldið eftir viðræður við forráðamenn Efnahagsbandalagsins og EFTA, eða þá að manna sig upp og laga aðstöðu iðnaðarins. Það er ekki nema um tvennt að ræða. Á það hefur verið bent ljósum rökum, t.d. í bréfi Félags ísl. iðnrekenda, dagsettu 4. des. s.l., að það er hvorki meira né minna um að ræða en það, að ef aðlögunargjaldið er lagt niður og ekkert kemur í staðinn, þá þýðir það væntanlega, eins og segir hér í bréfinu, orðrétt, með leyfi hæstv. forseta: „Það þýðir væntanlega um 14 milljarða kr. árið 1981 fyrir iðnaðinn.“ Ég held þess vegna að það sé mjög æskilegt að þessar viðræður séu teknar upp. Og ég tek það fram, að með því að rita undir þetta nál. og flytja brtt., sem er ætlunin að komi þarna sem ákvæði til bráðabirgða, erum við hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson ekki að ætlast til þess að einhverjir heiðursmenn íslenskir gangi á bak orða sinna, heldur að þeir taki málið upp á nýjan leik í ljósi nýrra aðstæðna með sömu rökum og áður, að það sé nauðsyn á að fella þetta gjald niður í áföngum og afla með því tekna til iðnþróunar, eins og gert er ráð fyrir í tillögunni.

Ég get ekki tekið undir það með hv. þm. Kjartani Jóhannssyni, að með þessari till. séum við að gefa ríkisstj. frítt spil og við séum að afsala Alþingi einhverju valdi. Ég get ekki skilið hvernig hv. þm. geta hugsað sem svo, að sé það fest í lög að einhverjum ákveðnum tekjum, sem ríkissjóði er gert að innheimta, skuli varið til ákveðinna þarfa, þá sé Alþingi að afsala sér valdi. Alþingi er að búa til lög sem ríkisstj. er skylt að fara eftir. Í þessum fyrirvara felst einmitt að ríkisstj. er ekki heimilt — eins og hún hefur gert að vísu, þó að hæpnar heimildir séu fyrir því — að innheimta slíkt gjald sem þessi 2% gætu leitt af sér öðruvísi en að verja því fé til iðnþróunar. Hæstv. ríkisstj. hefur dregið að greiða tekjurnar af aðlögunargjaldinu, sem búið er að innheimta, til iðnaðarins eða leggja þær til iðnþróunar. Um það má deila, en hún hefur þó t.d. með ákvæðum fjárlaga í ár gert ráð fyrir því, að þessir peningar fari í iðnþróun. Það er henni skylt að gera samkvæmt þeim lögum, og ég verð að segja alveg eins og er, að ef Alþingi getur ekki treyst því, að ríkisstj. fari eftir lögum, þá verður nú að fara að skoða ýmislegt. Þá þarf Alþingi að fara að gera einhverjar aðrar ráðstafanir en að smíða lög. Og þá eru menn kannske komnir út í að ræða hvort Alþingi á að skipta sér meira af framkvæmdavaldinu heldur en það gerir, en því er ég alls ekki samþykkur.

Ég veit ekki hvort ástæða er fyrir mig að taka fleira fram um þetta mál að sinni. En ég vil bara ítreka að hér er um að ræða tvö algjörlega óskyld mál. Jöfnunargjaldið er lagt á til þess að jafna aðstöðu iðnaðarins vegna þess að hann býr við söluskattskerfi, en þeir, sem keppa við hann, búa við virðisaukaskattskerfi sem þýðir það að þeir greiða ekkert í ríkissjóð í formi slíkra skatta sem iðnaðurinn hér greiðir. Það hafa verið gerðir nýir útreikningar sem sýna að þetta óhagræði svari til 3%, og á er lagt 3% jöfnunargjald, og gert er ráð fyrir því með tillögu um að framlengja þessi lög, að það verði gert áfram. Þar er um sérmál að ræða. Síðan er það meginhugsunin með flutningi tillögunnar um ákvæði til bráðabirgða, að ríkisstj. sé heimilað að taka upp viðræður við Efnahagsbandalagið og EFTA og freista þess að fá aðlögunargjaldið — á sömu rökum og þeir létu kyrrt liggja — framlengt þannig að það verði afnumið í áföngum, það verði 2% á næsta ári og 1% þá kannske síðar, eða alveg afnumið eftir næsta ár. En auðvitað mundi koma í sama stað niður ef hæstv. ríkisstj. jafnaði aðstöðu iðnaðarins.

Ég vil taka fram að lokum, að við föllumst á að flytja till. um ákvæði til bráðabirgða með þessum hætti. Það má á engan hátt skilja svo, að við viljum blanda þessu máli saman við álagningu þess nýja skatts, vörugjaldsins, sem ríkisstj. er að beita sér fyrir að verði lögfest á Alþingi, — þvert á móti. Við erum með þessu að undirstrika að þetta er allt annað mál. Þetta vörugjald er einvörðungu lagt á sem nýr skattur til að standa undir atmennum þörfum ríkissjóðs, enda á engan hátt hægt að sjá að ætlunin sé að nota það til eflingar iðnaðarins.

Þetta er það sem ég vildi taka fram um þetta mál, og ég held að það sé fremur verið að sýna hæstv. ráðh., sem fer með þessi mál, traust með því að veita honum heimild til að leggja þetta gjald á að loknum viðræðum við Efnahagsbandalagið og EFTA, ef þeir aðilar geta fallist á það miðað við nýjar aðstæður.