18.12.1980
Efri deild: 40. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1682 í B-deild Alþingistíðinda. (1820)

171. mál, jöfnunargjald

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Hv. 3. þm. Norðurl. e. þurfti að hafa um þetta allnokkur orð, enda er það skiljanlegt þegar í ljós er komið að Sjálfstfl. er að þokast til fylgis og stuðnings við skattheimtu- og gjaldsúpustefnu ríkisstj. Ég skil vel að varaformaður þingflokks Sjálfstfl. þurfi að réttlæta það með allmörgum orðum.

En tilefni þess, að ég kvaddi mér hér hljóðs um þetta mál, er fyrst og fremst það, að inn í þessar umræður hefur blandast með hverjum hætti tímabundið aðlögunargjald kom til sögu. Það er búið að rekja það hér allmörgum orðum. Auðvitað er ljóst að tilgangur þess gjalds var að aðstoða og vernda íslenskan iðnað. Gallinn er bara sá, að sá tími, það ráðrúm, sem átti að vinnast með töku þessa gjalds í ákveðinn tíma, hefur ekki verið notað. Það er mergurinn málsins.

Þannig vildi til, að ég átti sæti í þeirri nefnd sem fór til flestra EFTA-ríkjanna og höfuðstöðva EFTA til að vinna þessari hugmynd um tímabundið aðlögunargjald fylgi, ýmist hjá ráðherrum, aðstoðarráðherrum eða forstjóra EFTA. Og það var tvennt, sem voru þá höfuðrök í málflutningi sérstaks trúnaðarmanns viðskrh, sem þá var. Það var í fyrsta lagi, að þetta gjald fæli ekki í sér neins konar mismunun, og í öðru lagi — sem var þó veigameira og meiri áhersla á lögð — að þetta gjald væri tímabundið, að það ætti aðeins að gilda í 18 mánuði. Og ég get tekið undir velflest af því, sem hæstv. núv. viðskrh. sagði úr þessum ræðustóli áðan um það mál, og sömuleiðis þá tilvitnun, sem hann las hér í ræðu Einars Ágústssonar fyrrv. alþm., sem einnig átti sæti í þessari nefnd. Hvarvetna þar sem þessi nefnd hitti menn að máli og túlkaði þetta mál var lögð höfuðáhersla á það, að þetta gjald væri tímabundið og þennan umþóttunartíma ætti að nota til þess að greiða fyrir og búa betur að íslenskum iðnaði. Það var hins vegar ekki gert og hefur ekki verið gert. Það er önnur saga.

En ég verð að segja það, að mér finnst það svolítið skrýtið ef menn hafa geð í sér til þess að fara nú að nýju að biðja um endurupptöku þessa gjalds með einhverjum hætti — þó svo að nú fylgi sögunni að það eigi að falla niður og stækka ár frá ári — eftir að vera búnir að marglýsa yfir að hér væri um tímabundið gjald að ræða. Halda menn að þeim yfirlýsingum, að þetta gjald verði fellt niður á ákveðnu árabili, verði þá trúað, ef þeir, sem sögðu að gjaldið væri tímabundið, eru þar með gerðir að ósannindamönnum? Ég held að þetta sé röng leið — og hún er hættuleg. Ég skil satt að segja ekki þá menn sem hafa geð í sér til að leggja til að þannig verði farið að. Og ef sú verður raunin, að aftur verður send sendinefnd til að biðja þessarar bónar, fara þess á leit, að þetta verði látið óátalið, — það fást sjálfsagt einhverjir til að fara þá för, — en það verð ég að segja, að verði það ofan á, þá eru lítil geð guma hér og minni en ég ætlaði.