18.12.1980
Efri deild: 41. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1686 í B-deild Alþingistíðinda. (1842)

171. mál, jöfnunargjald

Frsm. meiri hl. (Ólafur Ragnar Grímsson):

Herra forseti. Eins og fram kom við 2. umr. frv. flutti hæstv. viðskrh. nefndinni sérstök tilmæli um að skoða orðalag till. um ákvæði til bráðabirgða. Fjh.- og viðskn. deildarinnar kom saman á sérstakan fund í kvöldmatarhléinu og ræddi þetta mál og skoðaði ýmsa möguleika sem til greina gætu komið varðandi orðalagsbreytingar, bæði að fella niður orðið „aðlögunargjald“ úr ákvæðinu eins og það stendur nú og túlka orðin „ígildi þess“ á tiltekinn hátt, eða að taka upp annað heiti, eins og t.d. „iðnþróunargjald,“ í staðinn, vegna þess að það vísar sérstaklega til tilgangs gjaldsins. En að athuguðu máli og ræddum þessum kostum komst nefndin að þeirri niðurstöðu, sá meiri hl. nefndarinnar sem að þessari till. stendur, að standa við fyrri till., þar eð ekki væru tök á að finna orðalag til breytingar sem allir gætu við unað. Hins vegar væri það orðalag, sem á till. væri nú, svo rúmt að það fæli í sér alla þá möguleika sem e.t.v. kynnu að vera fyrir hendi. Nefndin er viss um það, eða meiri hl. hennar, að hæstv. viðskrh. og ríkisstj. í heild og þeir, sem að þessu máli munu koma, muni framkvæma þetta ákvæði á þann veg sem best þjónar hagsmunum þjóðarinnar, sérstaklega á sviði iðnþróunar. Með sérstakri tilvísun til þeirrar yfirlýsingar um meðferð málsins hjá hæstv. ráðh. og ríkisstj. allri leggjum við til að frv. verði samþykkt með fyrrgreindri brtt.