18.12.1980
Efri deild: 41. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1686 í B-deild Alþingistíðinda. (1843)

171. mál, jöfnunargjald

Frsm. minni hl. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Það er rétt frá skýrt hjá hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni, að meiri hl. nefndarinnar lagði á sig mikið erfiði í kvöldmatarhléinu við að reyna að finna annað orðalag á þessari grein sem gæti fullnægt þeim mismunandi sjónarmiðum sem uppi voru hér fyrir kvöldmat.

Það reyndist svo, að orðalagið, sem á greininni er af hálfu meiri hl., var það gullið að hann treysti sér ekki til að breyta því, eins og fram kom reyndar hjá hv. þm. Það staðfestist þar, að menn í meiri hl. eru ýmist þeirrar skoðunar að það sé ekki hægt að hækka jöfnunargjaldið eða að ekki sé hægt að framlengja aðlögunargjaldið, þó að heimildin feli í sér hvort tveggja. Hins vegar virtist meiri hl. sammála um eitt, og það var að hvaða ígildi sem væri gæti fengið að halda lífi. Og sannast þar það sem kom fram í málflutningi mínum um það, að ígildið virtist vera það eina sem gæti fengið að standa. Meiri hl. nefndarinnar hafði hins vegar ekki kjark í sér til að breyta greininni í þá átt, að hún fjallaði einungis um ígildið.

Það er auðvitað lofsvert hjá nefndinni að standa á sannfæringu sinni, eins og kom fram í ræðu hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar, formanns hennar. En nú hangir sem sagt allt málið á tveimur bláþráðum, eftir því sem mér skilst, annars vegar ígildinu, sem enginn veit hvað er, og hins vegar því, að hæstv. ráðh. framkvæmi helst ekki greinina. A.m.k. er honum erfitt að framkvæma greinina þannig, að öll sjónarmið verði uppfyllt um það, að ekki megi framlengja aðlögunargjaldið og ekki hækka jöfnunargjaldið. Reyndar var líka hafnað í nefndinni sérstakri nafngift á þetta gjald, svo sem iðnþróunargjald, þannig að ef til skattlagningar kemur af þessu tagi verður hún væntanlega nafnlaus.

Ég hef áður gert grein fyrir afstöðu minni til þessa máls og sé ekki ástæðu til að endurtaka það, en mér sýnist að einmitt það, sem hefur verið að gerast í þessum efnum, sanni fullkomlega það sem ég hélt fram hér fyrr í dag, að þetta ákvæði sé heldur vanhugsað og ónotalegt og eigi engan rétt á sér, heldur sé langtum skynsamlegra að snúa sér að því að bæta og jafna aðstöðu iðnaðarins með aðgerðum t.d. í tollamálum og lánamálum.