18.12.1980
Neðri deild: 38. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1689 í B-deild Alþingistíðinda. (1853)

150. mál, verðjöfnunargjald af raforku

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um breyt. á lögum nr. 83/1974, um verðjöfnunargjald af raforku, sbr. lög nr. 99/1979, um breytingu á þeim. Frv. þetta er komið frá Ed., sem hefur um það fjallað og samþykkt það óbreytt eins og það var þar lagt fram og samhljóða, að ég best veit, a.m.k. frá hv. iðnn. þeirrar deildar sem mælti með samþykkt þess.

Mál þetta er góðkunningi manna hér á hv. Alþingi þar sem svo vill til að verðjöfnunargjald þetta hefur verið framtengt árlega frá 1974 og hækkað einu sinni á því tímabili, varðandi árið 1979, og gilti það einnig á yfirstandandi ári.

Eins og frv. ber með sér er leitað eftir heimild Alþingis til frekari framlengingar á þessu verðjöfnunargjaldi, en í grg. kemur fram að allverulegur árangur hefur þegar náðst í sambandi við verðjöfnun á raforku. Á það ekki síst rætur að rekja til þess, að vel hefur miðað í raforkuframkvæmdum þannig að orkuöflunarþátturinn hjá þeim aðilum sem njóta gjaldsins, hefur smám saman orðið léttari og verður það með ári hverju. T.d. á það við um Orkubú Vestfjarða sem nú hefur tengst landskerfinu. Þannig hefur tekist að draga allverulega úr verðmun á raforku til heimilisnota á svæðum Rafmagnsveitna ríkisins og Orkubús Vestfjarða miðað við það sem gerist hjá rafveitum sveitarfélaga. Einnig hefur ríkissjóður tvívegis lagt Rafmagnsveitunum til framlag sem eignaraðili og verulega munað um það til að bæta fjárhag Rafmagnsveitnanna og gera þeim kleift að halda niðri gjaldskrám sínum eða beinlínis að lækka þær. Tillögur í þessa átt hafa komið ítrekað fram hér á Alþingi, að ríkið leggi með beinum hætti fram fjármagn til að standa undir félagslegum eða óarðbærum framkvæmdum sem Alþingi gerir þessu fyrirtæki sínu að ráðast í.

Það nýmæli er í þessu frv., að gert er ráð fyrir heimild til að lækka gjaldið með reglugerð úr 19% í 16% frá 1. júlí 1981 að telja. Þessi heimild er vísbending um þann vilja ríkisstj. að hugsa til þess, ef föng leyfa, að lækka gjaldið, að stíga þar skref niður á við. Það verður að meta, þegar kemur fram á næsta ár, með tilliti til stöðu þeirra fyrirtækja sem njóta gjaldsins, en ég tel að hv. alþm. geti treyst því, að slíkt skref verði unnt að stíga í síðasta lagi við upphaf árs 1982. Og þó að varlegt sé að gefa skuldbindandi yfirlýsingar þar að lútandi, þá sýnist mér flest benda til þess, að það eigi að vera unnt að fara að vinda ofan af, ef svo má segja, í sambandi við þessa gjaldtöku.

Ég orðlengi þetta svo ekki frekar, en legg til að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til hv. iðnn.