18.12.1980
Neðri deild: 38. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1694 í B-deild Alþingistíðinda. (1860)

65. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. 2. minni hl. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir hönd 2. minni hl. fjh.- og viðskn. í máli þessu, sem er jafnstór að vöxtum og 1. minni hl. En vegna þess, sem hér hefur verið rætt, tel ég nauðsynlegt að rifja upp hvert er upphaf þessa máls.

Þannig er mál með vexti, að haustið 1976, á 98. löggjafarþingi, lagði þáv. ríkisstj. Geirs Hallgrímssonar fram á Alþingi frv. til l. um tekjuskatt og eignarskatt. Í inngangi þess frv. segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Frv. til l. um tekjuskatt og eignarskatt, sem hér er lagt fyrir Alþingi, var boðað í stefnuræðu forsrh. og framsögu fjmrh. fyrir fjárlagafrv. í upphafi þings. Frv. er þáttur í umfangsmikilli heildarendurskoðun tekjuöflunarkerfis ríkisins, sem á sér langan aðdraganda og rétt þykir að rifja hér upp.“ Síðan er vitnað til Magnúsar Jónssonar fjmrh. og Halldórs E. Sigurðssonar fjmrh. og sú vinna rakin, en svo segir áfram: „Í upphafi árs 1975 voru vinnuhópar settir á laggirnar til að gera till. um breytingar á ýmsum sviðum skattamála í framhaldi af því verki sem að framan er lýst.“

Þessir vinnuhópar voru settir af hæstv. fjmrh. Matthíasi Á. Mathiesen, og það voru ekki pólitískt skipaðir vinnuhópar á vegum beggja stjórnarflokkanna. Það voru vinnuhópar sem voru algerlega á hans vegum, og á því stigi máls komum við framsóknarmenn ekki við sögu varðandi undirbúning málsins. Í 7. gr. þess frv., sem er upphaf þeirra laga sem síðan hafa verið samþykkt, segir orðrétt eins og stendur í núgildandi lögum:

„Vinni maður við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi skal hann telja sér til tekna eigi lægra endurgjald fyrir starf sitt en ef hann hefði innt það af hendi fyrir óskyldan eða ótengdan aðila. Sama gildir um vinnu við atvinnurekstur eða starfsemi sem um ræðir í 2. gr. Á sama hatt skal reikna endurgjald fyrir starf, sem innt er af hendi af maka manns eða barni hans, sé starfið innt af hendi fyrir framangreinda aðila.“

Í aths. með frv. segir m.a.: „Að auki gerir frv. ráð fyrir þeirri breytingu frá gildandi lögum, að maður, sem stundar atvinnurekstur í eigin nafni eða sjálfstæða starfsemi, verði, án tillits til afkomu rekstrarins, skattlagður eins og honum væru greidd laun frá öðrum. Er með þessum hætti ráðgert að innleiða eins konar lágmarks skattskyldar tekjur einstaklings í atvinnurekstur.“

Þetta mál var í upphafi ekkert sérstakt áhugamál okkar framsóknarmanna. Það var hv. þm. Matthías Á. Mathiesen sem lagði þetta frv. fyrir, og það var hann sem vann að undirbúningi þess án okkar aðstoðar. Ég sagði strax, þegar þetta mál kom til nefndar, við þá embættismenn sem að þessu höfðu unnið, hvort ekki væri mögulegt að hafa þarna aðra viðmiðun til vara, t.d. þá viðmiðun að miða við úttekt aðila úr eigin atvinnurekstri. Viðkomandi embættismenn töldu það útilokað, og ég sannfærðist um að á því væru ýmsir örðugleikar. Niðurstaðan varð sem sagt sú, að ákveðið var, að þetta skyldi reynt, og samþykkt af flestum hv. þm. hér á Alþingi.

Nú hafa sjálfstæðismenn flutt frv. til l. um að þetta skuli aflagt, sem ég tel þá vera upphafsmenn að, — og gott og vel um það, að þeir skuli leggja það til, — og vilja fá það afgreitt nú fyrir jól. Ég leitaði samkomulags við þá um heldur lengri tíma til að komast að niðurstöðu um málið og vildi reyna að ná svipuðu samkomulagi um það og um þetta mál hefur verið frá upphafi. Þeir reyndust ófáanlegir til þess og vildu fá málið afgreitt.

Ríkisskattstjóri tjáði okkur, að fram færi umfangsmikil athugun á þessu máli, og hafði lofað að skila okkur viðamiklum gögnum í því sambandi. Við, sem undirritum þetta nál., töldum ekki verjandi af Alþingi að afgreiða þetta mál án þess að nefndin fengi fullnægjandi upplýsingar og rök um málið. Það er hins vegar alveg rétt og ég get tekið undir það, að framkvæmd þessa máls hefur farið um margt á annan veg en upphaflega var ætlað. Hins vegar verður að telja það skyldu okkar, að við athugum málið gaumgæfilega áður en við göngum til afgreiðslu á því. Með tilliti til þessa viljum við undirritaðir nm. leggja til að frv. verði vísað til ríkisstj. En ég vil taka það skýrt fram, að við hefðum fremur kosið að fá að hafa málið lengur til umfjöllunar. Það er hins vegar að kröfum þeirra aðila, sem eru upphafsmenn og höfundar þessara ákvæða, sem málið er nú knúið til afgreiðslu. Það má vel vera, að niðurstaðan verði sú, að okkur verði ekki annað fært en að afnema þessi ákvæði. Hins vegar tel ég að ekki sé full reynsla komið á það, og gegnir nokkurri furðu að upphafsmenn og höfundar þessarar hugmyndar skuli nú telja þrautreynt um málið á fyrsta ári framkvæmdarinnar.

Ég vil, herra forseti, ekki fjölyrða frekar um þetta mál, en taldi nauðsynlegt að rifja þetta upp og vil að lokum ítreka það álit 2. minni hl. nefndarinnar, að málinu verði vísað til ríkisstj.