18.12.1980
Neðri deild: 38. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1695 í B-deild Alþingistíðinda. (1861)

65. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. 3. minni hl. (Sighvatur Björgvinsson):

Herra forseti. Það hefur því miður enn ekki gefist tími til að útbýta nál. sem ég lagði fram sem 3. minni hl. fjh.- og viðskn. Það liggur því ekki á borðum hv. dm. þannig að þeir geti kynnt sér efni þess, en væntanlega verður snarlega úr því bætt eða eins fljótt og unnt er.

Meginefni frv. á þskj. 71 er að fella niður 59. gr. í gildandi lögum um tekjuskatt og eignarskatt. 59. gr. fjallar um það, að skilið sé á milli einkabúskapar manns og atvinnurekstrar hans þannig að ef maður starfar við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi skuli honum talin til tekna eigi lægri fjárhæð en ætla má að launatekjur hans hefðu orðið ef hann hefði unnið sambærilegt starf og þegið laun sín hjá öðrum. Þetta er meginatriði 59. gr., og frv. á þskj. 71 er fyrst og fremst um það, að þessi ákvæði gildandi skattalaga séu felld úr gildi. Rökstuðningur flm. — sem raunar fluttu sama mál á síðasta Alþingi, en það var þá fellt með verulegum atkvæðamun — virtist vera í umræðum í fjh.- og viðskn. helst sá, að í fyrsta lagi hafi margir þeirra, sem voru skattlagðir á s.l. sumri með stoð í 59. gr. gildandi laga, mótmælt álagningunni, og var í því sambandi sérstaklega vitnað til mótmæla 2000 bænda. Í annan stað var vitnað til þess sem röksemdar fyrir afnámi 59. gr. laganna, að ríkisskattstjóri hafi sett almennar viðmiðunarreglur um áætlaðar tekjur manna sem hafa tekjur af eigin atvinnurekstri. Þetta ákvæði ætti ekki að hafa komið mönnum ýkjamikið á óvart því að í 59. gr. er tekið fram að ríkisskattstjóri skuli árlega setja skattstjórum viðmiðunarreglur til slíkrar ákvörðunar. Þetta ákvæði er alveg skýlaust í 59. gr. og það ætti væntanlega ekki að hafa komið hv. alþm. neitt á óvart, að ríkisskattstjóri skuli hafa gegnt þessari ótvíræðu skyldu sinni.

Þriðja röksemdin, sem fram kom gegn því, að 59. gr. yrði höfð áfram í lögum, lýtur hins vegar að ýmsum framkvæmdaatriðum, svo sem því, að misjafn háttur hafi verið á hafður um álagningu í einstökum skattumdæmum nú í sumar, sums staðar hafi viðmiðunarreglunum verið fylgt, en annars staðar ekki, og jafnframt að álagningin hafi verið með þeim hætti, að framteljendum hafi ekki verið gefinn kostur á að skýra tekjuniðurstöður framtala sinna hafi þær verið mjög lágar, heldur hafi áætlunarniðurstöðunum verið beitt af skattstjórum án þess að framteljendum gæfist kostur á því fyrst að skýra mál sitt.

Af þessum þremur röksemdum, sem fram komu í hv. fjh.- og viðskn., þykir mér aðeins einn þáttur marktækur. Það er rétt athugasemd, að nokkrir framkvæmdamisbrestir urðu á álagningunni samkv. ákvæðum 59. gr. nú í sumar, m.a. þeir sem að framan var getið. Það er rétt, að þau mistök voru gerð, að viðmiðunarreglum ríkisskattstjóra var ekki fylgt í öllum skattumdæmum landsins með sama hætti, sem gerði það að verkum að framteljendur, sem féllu undir 59. gr., voru nokkuð misjafnt settir eftir því í hvaða skattumdæmum þeir áttu heima. Þá er það einnig rétt ábending, að það er brotalöm í framkvæmdinni, að framteljendum, sem hafa tekjur af eigin atvinnurekstri og skiluðu framtali með óeðlilega lágum tekjum, skyldi ekki hafa verið gefinn kostur á að skýra þær niðurstöður sínar áður en skattstjórar beittu ákvæðum 59. gr. og áætluðu tekjur á þessa framteljendur til samræmis við viðmiðunarreglur skattstjóra. Að sjálfsögðu hefði viðkomandi framteljendum átt að gefast kostur á því að skýra mál sitt áður.

Ríkisskattstjóri, sem mætti á fundum hv. fjh.- og viðskn., gaf hins vegar fullnægjandi skýringar á þessum misbrestum á framkvæmd álagningarinnar. Skýringin var einfaldlega sú, að öll álagningarvinnan hjá skattumdæmunum — og raunar ríkisskattstjóra einnig — var eindæma seint á ferðinni. Og það er ekki sök þessara aðila, heldur stafar það af því, hversu lengi dróst að hv. Alþingi afgreiddi frá sér nauðsynlegar breytingar á lögunum um tekju- og eignarskatt, nr. 40 frá 1978, að ekki var hægt að leggja á framteljendur á eðlilegum tíma.

Að áliti ríkisskattstjóra ber því ekki af þessum ástæðum að líta svo á að nokkur viðhlítandi reynsla hafi fengist af umræddum ákvæðum skattalaga við álagninguna í sumar sem réttlætt gæti að þau ákvæði yrðu afnumin. Ég tel að sú niðurstaða ríkisskattstjóra hljóti að teljast rökrétt þegar höfð er hliðsjón af því, hversu óeðlilegar kringumstæður voru við álagningu skattanna í sumar,kringumstæður sem að verulegu leyti áttu rót sína að rekja til seinagangs í afgreiðslu málsins hér á Alþingi. Þessar athugasemdir, sem fram komu í hv. nefnd, eru því réttar — þó svo að þær réttlæti ekki að mínu viti, fremur en í umsögn ríkisskattstjóra koma fram, að 59. gr. sé afnumin.

Fyrri röksemdaflokkarnir tveir fyrir afnámi 59. gr. laganna eru hins vegar algerlega út í hött. Það er fráleitt annað en settar séu almennar viðmiðunarreglur um áættaðar tekjur manna sem hafa tekjur af eigin atvinnurekstri ef slíkar tekjur eiga að teljast nærri því sem þeir mundu hafa haft sem launþegar hjá öðrum. Væru slíkar almennar viðmiðunarreglur ekki settar af ríkisskattstjóra er hætt við að tekjuáætlanir á slíka framteljendur yrðu geðþóttaákvarðanir einstakra skattstjóra og álagningin því öll í skötulíki. Auk þess má við þetta bæta því, að ekki verður annað sagt en viðmiðunarreglur ríkisskattstjóra fyrir tekjuárið 1979 um tekjufjárhæðir þeirra manna, sem hafa tekjur af eigin atvinnurekstri, séu vægast sagt mjög hóflegar.

Ríkisskattstjóri gaf nefndinni, sem um málið fjallaði, nokkrar upplýsingar um hverjar þessar viðmiðunarreglur voru. Þegar þær eru athugaðar, þá verð ég að segja eins og er, að nokkuð kemur spánskt fyrir sjónir sú mikla mótmælaalda sjálfstæðra atvinnurekenda, sem hafa tekjur sínar hjá sjálfum sér, sem virðist hafa risið við þessa álagningu. Svo að dæmi sé tekið um viðmiðunarreglur ríkisskattstjóra getum við nefnt sérmenntaða menn sem vinna við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi í sérgrein sinni, t.d. lyfjafræðinga, lækna, lögfræðinga, löggilta endurskoðendur, ráðgjafasérfræðinga hvers konar, verkfræðinga og aðra slíka menn sem hjá sjálfum sér vinna og hjá sjálfum sér þiggja laun. Viðmiðunarlaun til áætlunar tekna á þessa menn fyrir árið 1979 voru 8.1 millj. kr. eða 675 þús. kr. á mánuði. Ég er hræddur um að það hefðu ekki þótt há laun hjá mönnum með þessa menntun ef þeir hefðu tekið þau laun hjá öðrum. Þeir hefðu ekki verið ánægðir með þau launakjör á árinu 1979, lyfjafræðingar, tæknar, lögfræðingar, löggiltir endurskoðendur og verkfæðingar, að hafa aðeins í launatekjur 675 þús. kr. að meðaltali á mánuði. Verður ekki annað sagt en þessar viðmiðunarreglur ríkisskattstjóra um áætluð laun slíkra manna séu a.m.k. sanngjarnar og mönnum hljóti að koma það mjög spánskt fyrir sjónir, ef menn í þessum störfum telji þær mjög ofáætlaðar.

Stjórnendum í eigin atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi, sem hafa greitt laun sem samsvara launum fyrir störf þriggja eða fleiri launþega á árinu, — þar eru t.d. nefndir iðnrekendur, innflutnings- og útflutningsaðilar, verslunareigendur hvers konar, umboðssalar og fleiri — þeim eru áætlaðar á árinu 1979 tekjur að upphæð 7.5 millj. kr. á ári, 625 þús. kr. á mánuði. Svona má áfram telja. Ég ætla ekki, vegna þess hversu langt er á fundartíma deildarinnar liðið, að þreyta menn með frekari upplýsingum hér að lútandi, en þetta eru hæstu viðmiðunartekjuflokkarnir sem ríkisskattstjóri sagði sínum mönnum að hafa hliðsjón af við áætlun á tekjum þeirra sem þiggja laun hjá sjálfum sér. Ég held að það verði ekki sagt, að þarna sé mjög of í lagt, a.m.k. mundu slíkir menn hafa talist mjög vanhaldnir í launum ef þeir hefðu tekið þetta kaup hjá öðrum.

Um bændur gegnir sérstöku máli. Í reglum ríkisskattstjóra var sérstakt tillit m.a. tekið til þess, að nokkuð vantaði upp á það á árinu 1979 að bændur næðu fullu grundvallarverði, og þar að auki var í reglunum tekið tillit til áhrifa slæms árferðis árið 1979. Viðmiðunarreglur ríkisskattstjóra gagnvart bændum á árinu 1979 við álagningu 1980 gerðu þannig ráð fyrir því, að bóndi, sem starfaði við bú af stærð grundvallarbúsins, hefði í árstekjur 3.3 millj. kr. eða 278 þús. kr. á mánuði. Þetta samsvarar launum sem greidd voru þá í 5. flokki ríkisstarfsmanna, og menn gætu haft það nokkuð til hliðsjónar þegar menn gagnrýna mjög harkalega ósanngirni þessarar áætlunar. Þar sem hjón unnu hins vegar sameiginlega að búrekstri, ekki var um einyrkja að ræða, fólu viðmiðunarreglur ríkisskattstjóra það í sér, að hjónin hefðu sameiginlega í mánaðartekjur vegna starfa við grundvallarbú 471 þús. kr. á mánuði. Það þykja mér ekki ýkja há laun.

Herra forseti. Mér finnst þessar upplýsingar út af fyrir sig ekki gefa neina vísbendingu um það, að umrædd ákvæði 59. gr. gildandi laga um tekju- og eignarskatt hafi íþyngt þeim aðilum, sem hafa tekjur af eigin atvinnurekstri, langt umfram fólk sem stundar sambærileg störf í þágu annarra. Þau hörðu mótmæli, sem komið hafa fram gegn þessari áætlun, hafa því síður en svo við rök að styðjast ef þessar viðmiðunartekjur eru skoðaðar einar út af fyrir sig. Það eru engin rök fyrir afnámi slíkra lagaákvæða þótt þeir, sem þurfa nú í fyrsta sinn að greiða skatta af tekjum eftir þeim reglum, að þeim séu áætluð laun með þessum hætti, — sem menn í sambærilegum störfum, er tækju laun sín hjá öðrum, teldu vera harla lág, — þótt þeir menn uni slíkri skattlagningu ekki vel í fyrsta sinn sem henni er beitt. Það eru ekki rök fyrir afnámi slíkra ákvæða. Mergurinn málsins er auðvitað sá, sem ekki kemur fram í þessum viðmiðunarreglum, hvort skattgjald þessara aðila, sem taka laun hjá sjálfum sér, sé á einhvern hátt óeðlilegt miðað við skattgreiðslur annarra þjóðfélagshópa. Engar upplýsingar liggja hins vegar fyrir um að svo sé. Það liggja engar upplýsingar fyrir um það, að skattbyrði einstaklinga, framteljenda sem þiggja laun hjá sjálfum sér, sé á einhvern hátt óeðlilega þung miðað við skattbyrði fólks sem sinnir svipuðum störfum, en tekur laun sín hjá öðrum. Slíkar upplýsingar liggja ekki frammi, en þær hljóta auðvitað að vera forsenda þess, að tekin sé ákvörðun um að breyta þeim ákvæðum sem hér hafa verið harðlega gagnrýnd.

Sérstök fsp. hefur hins vegar verið flutt af mér á Alþingi um álagningarmál eins þessa hóps, þ.e. bænda, sem nú verða í fyrsta sinn að una því eins og aðrir, sem taka laun hjá sjálfum sér, að á þá séu lögð opinber gjöld samkv. áætlunum um tekjur þeirra, sem næst því sem þeir mundu fá í laun ef þeir þægju launagreiðslur hjá öðrum en sjálfum sér. Ég hef spurst fyrir um það og beint fsp. til hæstv. fjmrh. hvernig skattgjöld þessarar atvinnustéttar, bændanna, hafi komið út, hverjir voru tekjuskattar og eignarskattar þessara manna áður en ákvæði 59. gr. gengu í gildi og samanborið við hina svokölluðu viðmiðunarhópa sem samkv, landslögum er ætlað að hafa hliðsjón af við tekjuákvarðanir til bænda. Ég hef líka spurt: Hverjar urðu skattgreiðslur bænda eftir setningu hinna nýju laga og þá einnig miðað við skattgreiðslur viðmiðunarstéttanna? Fyrr en þessar upplýsingar liggja fyrir, sem ekki liggja fyrir enn, er ekkert hægt að segja um það, hvaða áhrif 59. gr. gildandi skattalaga hefur haft á álagningu á þessa tilteknu stétt.

Það hefur verið stefna Alþfl. í skattamálum, að aðskilja eigi atvinnurekstur manna og einkabúskap þeirra þannig að atvinnurekandinn geti ekki fært gjöld heimilis síns með einum eða öðrum hætti beint eða óbeint á kostnað fyrirtækisins og geti ekki látið líta svo út — og ég tek það fram, að slíkar niðurstöður geta verið þannig, að ekki sé hægt að gagnrýna þær reikningslega — að þeir hafi engar tekjur af viðkomandi atvinnurekstri þó svo hann kunni að skila einhverjum arði. Það eru t.d. nokkur dæmi um það, að framtöl atvinnurekenda, sem taka laun hjá sjálfum sér, séu með þeim hætti, að atvinnureksturinn skili allverulegum afgangi, en þegar upp sé staðið séu tekjurnar, sem viðkomandi atvinnurekandi telur sér á framtali, nánast núll. Og í því framtali þarf ekki að vera og er ekki fólgið neitt bókhaldslegt misferli. Hins vegar sjá menn í hendi sér af almennri skynsemi að þetta getur ekki verið rétt, a.m.k. ekki þegar slíkt ástand getur varað frá ári til árs. Það getur ekki verið rétt, þó svo að það geti komið fyrir um eins árs skeið, að maður lifi af eigin atvinnurekstri, en atvinnureksturinn skili honum engum launum. Þetta getur að sjálfsögðu ekki gerst ár eftir ár. Það er í andstöðu við heilbrigða skynsemi, þó svo þær reglur, sem farið er eftir við að meta tekjur manna, sem taka laun af eigin atvinnurekstri, kunni að hafa verið með þeim hætti, að bókhaldslega sé ekkert athugavert við þetta.

Það hefur sem sé verið stefna okkar Alþfl.-manna, að aðskilja eigi atvinnurekstur manna og einkabúskap þeirra, og það er gert í hinum nýju skattalögum. Það hefur jafnframt verið afstaða okkar Alþfl.-manna, að almennt eigi að ganga út frá því, að framteljendur, sem hafa tekjur af eigin atvinnurekstri, eigi tvímælalaust að bera álíka þunga byrði af sameiginlegum útgjöldum þjóðarinnar og þeir landsmenn í sambærilegum störfum sem vinna hjá öðrum en sjálfum sér. Það á ekki að vera hægt að mismuna mönnum í þessu sambandi sem gegna nákvæmlega sambærilegum störfum, bara eftir því hvað launagreiðandinn heitir, hvort launagreiðandinn er annar en viðkomandi sjálfur. Verkfræðingur, sem vinnur hjá sjálfum sér, á að taka þátt í sameiginlegum byrðum þjóðfélagsins með sambærilegum hætti og verkfræðingur sem vinnur sama starf eða sambærilegt starf, en tekur laun sín hjá öðrum. Þarna getur að sjálfsögðu verið nokkur munur á, en hann á ekki að geta verið svo mikill að annar teljist gagnvart skattayfirvöldum hátekjumaður, en hinn beri það sem í mæltu máli er kallað vinnukonuskattar.

Við Alþfl.-menn höfum því ávallt stutt það almenna viðhorf sem fram kemur í 59. gr. laga nr. 40 frá 1978, og við erum þeirrar skoðunar, að það væri stórt skref aftur á bak ef frá þeim reglum væri horfið. Auðvitað er sjálfsagt að taka framkvæmd þeirrar meginreglu, sem í 59. gr. felst, til skoðunar í samræmi við fengna reynslu af framkvæmd þeirra ákvæða við eðlilegar aðstæður. Við Alþfl.- menn erum að sjálfsögðu reiðubúnir til slíks. Sú reynsla við eðlilegar aðstæður hefur hins vegar alls ekki fengist af framkvæmdinni nú í sumar, sem öll var í skötulíki, eins og ég sagði áðan. En reynslan mun hins vega væntanlega fást við næstu álagningu, þegar aðstæður eru eðlilegri og ráðrúm meira til að framkvæma eðlilega álagningu og stunda eðlileg vinnubrögð í því sambandi en var í sumar. Þá fyrst, þegar slík niðurstaða liggur fyrir, en fyrr ekki, er tímabært að taka málið til skoðunar, en þar til svo verður er hvorki rétt að leggja til afnám 59. gr., eins og sjálfstæðismenn gera í till. sinni, né heldur að gera því skóna að afnema eigi efni greinarinnar eða breyta efnisinnihaldi hennar verulega, eins og stjórnarsinnar í fjh.- og viðskn. gera með því að leggja til að frv. á þskj. 71 verði vísað til ríkisstj. Efnisleg afstaða mín til þessa máls er því skýr og afdráttarlaus. Ég legg til að frv. þeirra sjálfstæðismanna á þskj. 71 verði fellt.