18.12.1980
Neðri deild: 38. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1705 í B-deild Alþingistíðinda. (1867)

65. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Eins og margoft hefur áður komið fram er áformað að endurskoða lög um tekju- og eignarskatt eftir áramót, en ekki hafa legið fyrir nægileg gögn til þess að sú endurskoðun gæti farið fram enn þar sem álagning var seint á ferðinni og útskriftir á ýmsum atriðum álagningarinnar hafa tekið talsverðan tíma. Frv. þetta fjallar um eitt atriði þess sem gæti komið til álita að endurskoða, þ.e. áætlun tekna.

Strax og álagningu var lokið á s.l. sumri bárust kvartanir úr röðum bænda um að ósanngjarnar álögur hefðu verið lagðar á ýmsa bændur á grundvelli þessa ákvæðis. Ég skipaði þá þegar nefnd til að gera úttekt á þessu máli. Því miður er það staðreynd, að hún hefur enn ekki skilað af sér, en hefur beðið eftir að tölvur ynnu það verk sem þeim var falið að vinna. Ég mun beita mér fyrir því, að þessi nefnd hraði störfum sínum, og tel fráleitt að taka afstöðu til þessa máls fyrr en gögn liggja fyrir. Ég tel því mjög eðlilega málsmeðferð, að þessu máli verði vísað til ríkisstj., og segi því já.