18.12.1980
Neðri deild: 38. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1708 í B-deild Alþingistíðinda. (1875)

131. mál, verðgildi íslensks gjaldmiðils

Guðmundur G. Þórarinsson:

Herra forseti. Aðeins örfá orð í tilefni af þeim spurningum sem hér var til mín varpað.

Ég hygg að hv. 3. þm. Vestf. hafi ekki farið orðrétt með tilvitnanir í mín orð. Eigi að síður hef ég sagt það, að forsenda þessarar myntbreytingar sé vissulega að nú verði tekið með festu á efnahagsmálum þjóðarinnar, að nú verði tekið með festu á þeirri verðbólguþróun sem er í landinu. Ég ítreka það enn, að það er mín skoðun að myntbreyting um þessi áramót nái engum tilgangi nema svo verði. Nú er unnið að aðgerðum í efnahagsmálum. Ég bind miklar vonir við þær aðgerðir og í trausti þess, að samstaða um þær muni nást, mun ég að sjálfsögðu standa að fyrirhugaðri myntbreytingu um þessi áramót.