18.12.1980
Neðri deild: 39. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1714 í B-deild Alþingistíðinda. (1882)

171. mál, jöfnunargjald

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til l. um jöfnunargjald, en lög þessa efnis hafa verið í gildi nú um tveggja ára skeið. Ég veit ekki til þess, að ágreiningur sé um að þetta gjald sé framlengt. Gjaldið er lagt á annars vegar til að vernda nokkuð innlendan iðnað fyrir samkeppni innflutts iðnvarnings frá löndum EFTA og Efnahagsbandalags, þar sem þetta gjald er sérstaklega lagt á þær vörur sem tollar hafa verið lækkaðir á vegna samninga við þau bandalög, en einnig er tilgangur frv. að styrkja innlenda iðnaðarframleiðslu með því að endurgreiða henni svokallaðan uppsafnaðan söluskatt í útflutningsverði.

Frv. er flutt hér nokkuð breytt frá gildandi lögum, en þar er fyrst og fremst um samræmingaratriði að ræða, meira eða minna formsatriði sem ekki hafa verulega efnislega þýðingu.

Við meðferð málsins í Ed. var samþykkt svofellt ákvæði til bráðabirgða til viðbótar við frv. eins og það var fyrst flutt:

Ríkisstj. er heimilt á árinu 1981 að leggja á til viðbótar allt að 2% jöfnunar- og aðlögunargjald eða ígildi þess, enda renni tekjur af þessu viðbótargjaldi óskiptar til iðnþróunar.“

Ég þarf tæpast að greina hv. dm. frá því, að aðlögunargjald fellur niður um þessi áramót. Það var vilji meiri hl. hv. Ed. og einnig ríkisstj. að þess yrði freistað að leggja á til viðbótar allt að 2% gjald í staðinn fyrir það aðlögunargjald sem fellur niður, en áður en til þess kemur verður að hafa samráð við Efnahagsbandalagið og EFTA.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta frv., en legg til að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. fjh.- og viðskn.