18.12.1980
Neðri deild: 39. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1714 í B-deild Alþingistíðinda. (1885)

150. mál, verðjöfnunargjald af raforku

Frsm. meiri hl. (Skúli Alexandersson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir áliti meiri hl. iðnn. sem leggur til að frv. um breytingu á lögum nr. 83/1974, um verðjöfnunargjald á raforku, verði samþ. óbreytt eins og það kom hingað eftir umr. og afgreiðslu í hv. Ed. Þaðan kemur málið óbreytt eins og það var lagt fram af hæstv. ríkisstj. Meiri hl. skipa auk mín hv. þm. Páll Pétursson, Pálmi Jónsson og Magnús H. Magnússon.

Þeir Páll Pétursson og Pálmi Jónsson óskuðu eftir því, að fram kæmi sú skoðun þeirra, sem þeir lýstu í n., að bregðast þyrfti við vanda Rafveitu Siglufjarðar með því að hluti verðjöfnunargjalds samkv. frv. þessu rynni til þeirrar veitu þegar sú rafmagnsveita fullnægði eðlilegum skilyrðum þar að lútandi.

Svo stutt er síðan hæstv. iðnrh. mælti fyrir þessu máli hér í hv. deild, að ég sé ekki ástæðu til að ræða þetta mál efnislega, enda um gamlan og góðan kunningja hv. þm. að ræða.