18.12.1980
Neðri deild: 39. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1717 í B-deild Alþingistíðinda. (1890)

176. mál, vörugjald

Frsm. minni hl. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Hv, frsm. meiri hl., hv. þm. Matthías Á. Mathiesen, hefur skilmerkilega sagt frá starfi n. svo að ég sé ekki ástæðu til að bæta þar miklu við. Ég mæli fyrir munn minni hl. fjh.og viðskn., en undir það nál. rita ásamt mér hv. þm. Guðrún Hallgrímsdóttir og hv. þm. Ingólfur Guðnason.

Það gjald, sem hér er lagt til að verði lagt á, er í sjálfu sér ekkert nýnæmi. Sælgæti, öl og gosdrykkir eru meðal þeirra vörutegunda sem hvað lengst hafa verið skattlagðar hér á landi. Það mun hafa verið 1939 sem var samin tollskrá sem var að allverulegu leyti byggð á gjaldtöku af þessum vörum. Með setningu laga nr. 4/1960, um efnahagsmál, var lagt mjög hátt gjald á þessar vörur. Ef það væri umreiknað til núgildandi verðlags væri gjaldið af brjóstsykri, tyggigúmmíi og karamellum 2528 kr. á kg núna — 45.60 kr. — en verður samkv. þessari tillögu 190 kr. Auk þess hefur minni hl. n. gert ráð fyrir að gjaldið lækkaði úr 10% í 7%. Ef gjaldið væri umreiknað varðandi lakkrís var gjaldið samkv. lögunum nr. 4/1960 842.70 á núgildandi verðlagi, en er núna 45.60 kr. og hækkar samkv. tillögunni, sem lögð var fram af hæstv. ríkisstj., í 190 kr., en lækkar nú nokkuð samkv. tillögu minni hl. n. Skatturinn á hreint súkkulaði væri núna, ef miðað er við lög nr. 4/1960, 1264 kr., er 20.80 kr., væri samkv. tillögu ríkisstj. 350 kr., en lækkar nokkuð við tillögu minni hl. n. Þannig mætti nefna nokkur fleiri vöruheiti.

Minni hl. n. gerir tillögu um að gjaldið af sælgæti lækki úr 10% í 7%. Er það m.a. gert með tilliti til þess, að gert er ráð fyrir að gjaldið gefi um 3400 millj., sem er nokkru hærri upphæð en upphaflega var reiknað með, en lækkun frá 10% í 7% lækkar þetta gjald um um það bil 250 millj. kr. Einnig er þess að geta, að nefndinni hafa borist mótmæli frá starfsfólki Iðju o.fl., Félagi ísl. stórkaupmanna og Félagi ísl. iðnrekenda. Vill minni hl. n. koma nokkuð til móts við þessi sjónarmið, og leggjum við því til að frv. verði samþ. með þeirri breytingu er fram kemur á þskj. 335, þ.e. að gjaldið af sælgæti verði lækkað úr 10% í 7%, en gjaldið af gosdrykkjum verði óbreytt.