18.12.1980
Neðri deild: 39. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1718 í B-deild Alþingistíðinda. (1892)

176. mál, vörugjald

Guðmundur G. Þórarinsson:

Herra forseti. Ég er á móti gjaldinu sem fjallað er um í þessu frv. Ég tel að hér sé um fráleita skattheimtu að ræða, sem mismunar iðngreinum.

Fyrir stuttu stóðu þm. að því eða ríkisstj. að leggja 30% gjald á innflutt sælgæti til að vernda störf þess fólks sem við þær iðngreinar vinnur þegar lokun fyrirtækjanna blasti jafnvel við. Stuttu seinna er lagt fram frv. hér í þingi um skattlagningu þessara vara í tekjuöflunarskyni fyrir ríkissjóð. Með þessari skattlagningu gosdrykkja er líklegt að skattlagning ríkissjóðs sé um 50% af verksmiðjuverði og fyrirtækjum gert að innheimta svo háa hlutdeild fyrir ríkissjóð. Sú skattheimta sem þetta frv. fjallar um mun valda hækkun framfærsluvísitölu og hækkun launagreiðslna í landinu um líklega 3.3 milljarða kr. á næsta ári.

Nú liggur fyrir þinginu frv. um jöfnunargjald. Í trausti þess, að hækkun um 2% á jöfnunar- og aðlögunargjaldi nái fram að ganga og þá verði það gjald af gosdrykkjum og sælgæti, sem er fjallað um í þessu frv., fellt niður, greiði ég ekki atkv. gegn frv.

Herra forseti. Ég styð ekki þetta frv. Ég greiði ekki atkv.