18.12.1980
Neðri deild: 39. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1719 í B-deild Alþingistíðinda. (1901)

111. mál, Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda

Frsm. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Fjh.- og viðskn. hefur fjallað um frv. til l. um Söfnunarsjóð lífeyrisréttinda.

Nefndinni barst 21. nóv. 1980 bréf frá Lífeyrisnefnd ASÍ, FFSÍ og vinnuveitendum undirritað af Eðvarð Sigurðssyni, Guðmundi H. Garðarssyni, Jóhanni Sigtryggssyni, Ingólfi Sigurði Ingólfssýni, Gunnari J. Friðrikssyni, Páli Sigurjónssyni, Skúla J. Pálmasyni og Jóni Sigurðssyni, þar sem þess var eindregið farið á leit, að þetta frv. yrði afgreitt hið fyrsta. Nefndin hefur rætt þetta mál við fulltrúa frá ASÍ og fjmrn. Auk þess hef ég sem formaður n. rætt við formann BSRB.

Nefndin hefur fallist á að flytja brtt. um ákvæði til bráðabirgða. Er það gert vegna tilmæla frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja. Hefur þetta ákvæði til bráðabirgða verið samið í fullu samráði og samstarfi við fjmrn. og getur það fyrir sitt leyti fallist á það, en það hljóðar þannig:

„Þeir ríkisstarfsmenn, sem greitt hafa iðgjöld til biðreiknings þess, sem stofnaður var 26. sept. 1974, fyrir gildistöku laga þessara og greiða nú iðgjöld í lögbundna lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, eiga þess kost, ef þeir óska, að fá iðgjöld sín vegna starfa í þjónustu ríkisins flutt úr biðreikningnum til lögbundinna lífeyrissjóða starfsmanna ríkisins.

Sama gildir þótt þeir ríkisstarfsmenn, er um ræðir 1. mgr., öðlist ekki aðild að lífeyrissjóðum ríkisstarfsmanna fyrr en á árinu 1981.“

Ég vil, herra forseti, leggja á það áherslu, að frv. þetta fái afgreiðslu hér og þau þrjú frv. sem voru flutt varðandi þessi mál og mynda eina heild. Eitt hefur þegar hlotið afgreiðslu í hv. Ed. og má vera að það hafi verið afgreitt þaðan í dag sem lög frá Alþingi. Því er mikilvægt að verða við þeim tilmælum, sem okkur hafa borist frá fulltrúum vinnumarkaðarins, að afgreiða þetta mál. Viljum við í n. eindregið leggja til að frv. verði samþ. og það geti hlotið afgreiðslu fyrir jólaleyfi þm.