18.12.1980
Neðri deild: 40. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1723 í B-deild Alþingistíðinda. (1912)

176. mál, vörugjald

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að gera hér að umræðuefni hver eigi að vera undirlægja hvers, það þarf glöggan mann á borð við 1. þm. Vestf. til að hafa slík mál á dagskrá. En ég vil vekja athygli á því, hvað hann eyddi fáum orðum í upphafi ræðu sinnar til að minnast þess, að þetta gjald var álíka hátt á dögum viðreisnar. Það var afgreitt á ódýran hátt. Það var sagt að þá hefði núv. forsrh. verið fjmrh. Ekki setur fjmrh. einn lög. Ætli það hafi ekki þurft stuðning stjórnarinnar þá eins og nú. Ætli sjálfstæðismenn allir sem einn í deildinni hafi þá ekki staðið með þessari skattaákvörðun. Ég geri ráð fyrir því. Hitt stendur eftir, að það er aldrei til vinsælda að leggja á skatta.

En þetta mál er sennilega ákaflega gott dæmi um hvernig menn hringsnúast eins og skopparakringlur eftir því, hvort þeir eru í stjórn eða stjórnarandstöðu. Þar er hv. 1. þm. Vestf. greinilega engin undantekning.