19.12.1980
Sameinað þing: 38. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1753 í B-deild Alþingistíðinda. (1940)

178. mál, frestun á fundum Alþingis

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Hér er lagt til með þáltill. að fundum þingsins verði frestað allt fram til 26. jan. 1981. Í samþykkt þáltill. sem þessarar felst 36 daga hlé á þingstörfum og fer ríkisstj. samkv. því með heimild til að gefa út brbl. á þeim tíma. Nú stendur svo á, að ríkisstj. hefur margboðað efnahagsráðstafanir um eða upp úr áramótum, og enn fremur að menn þurfa ekkert að velkjast í vafa um það, að ríkisstj. telur koma til greina að nota brbl.-heimild sína á þessu tímabili, því að hæstv. forsrh. hefur einmitt gefið í skyn að lagasetningar kunni að vera þörf, sem þá yrði staðfest á Alþingi á eftir, m.ö.o. gefið í skyn að gripið yrði til setningar brbl. Ítrekaðar tilraunir til að fá nánari skýringar í þessum efnum af hálfu hæstv. forsrh. hafa ekki borið árangur. Hæstv. forsrh. hefur svarað því einu, að ríkisstj. hafi ekki hug á því að afsala sér bráðabirgðalagavaldi sínu.

Ég verð að segja það fyrst, að ég tel að til slíkrar brbl.-setningar séu engin efni. Það má kveðja saman þingfund með skömmum fyrirvara. Það á ekkert að þurfa að bera svo brátt að að ekki dugi að kalla til þingfundar með eins til tveggja daga fyrirvara. Og til slíks fundar erum við þm. Alþfl. reiðubúnir að mæta hvenær sem er.

Við þær aðstæður, sem ég hef hér lýst, við þær yfirlýsingar, sem gefnar hafa verið af hálfu hæstv. ríkisstj. — og einkum og sér í lagi hæstv. forsrh. — teljum við þm. Alþfl. ekki rétt, við teljum rangt að fresta fundum þingsins með þeim hætti, sem lagt er til í þessari þáltill., og til þess tíma, sem gert er ráð fyrir.

Við þessar aðstæður teljum við rétt að hafa sama hátt á og hafður var fyrir ári, en þá lýsti forseti yfir að forsetar þingsins hefðu ákveðið að gera hlé á fundum Alþingis, og var slíkt hlé þá einungis gert til 8. jan. Við þm. Alþfl. erum reiðubúnir til viðræðna við forseta þingsins um slíka tilhögun og hvaða dagsetningu sé þá rétt að hafa.

Ég vil ítreka það, að engin ástæða er til að fresta fundum þingsins í svo langan tíma sem hér er gert ráð fyrir og með þessum hætti, og það er algerlega óeðlilegt að búa til það ástand, að ríkisstj. eigi að stjórna landinu með tilskipunum í formi brbl. Það er hlutverk Alþingis að setja lög. Það er veigamikill þáttur í stjórnkerfi okkar og lýðræðislegum stjórnarháttum, að mál fái opinbera umfjöllun á opinberum vettvangi einmitt í sölum Alþingis áður en frá þeim er gengið. Það er verið að sniðganga slíkt með setningu brbl. Og við þessar aðstæður eru engin efni til að ganga fram hjá þinginu.

Ríkisstj. hefur lýst yfir að ráðstafana sé þörf einmitt nú í efnahagsmálum og að e.t.v. þurfi lagasetningar við. Það er þá í hæsta máta ólýðræðislegt að senda þingið heim í 36 daga. Það er í raun óvirðing við þingið og lýðræðið í landinu. Við þm. Alþfl. viljum ekki standa að slíku. Við sjáum enga ástæðu til svo langs þinghlés. Við teljum fráleitt að ríkisstj. taki sér bráðabirgðalagavald í skjóli slíks þinghlés. Ríkisstj. hefur ekkert með slíkt bráðabirgðalagavald að gera. Því erum við andvígir þessari þáltill. og teljum okkur ekki þurfa forsrh. frekar að spyrja, því að svör hans í þessum efnum eru nægilega skýr þegar.

Þegar forsrh. hefur lýst yfir að einmitt kunni að vera þörf á lagasetningu, þá er ólýðræðislegt — ég endurtek það — að fresta þingi með þessum hætti, ég tala nú ekki um þegar forsrh. hefur beinlínis gefið í skyn að hann ætli einmitt að nota þinghléið til þess að setja brbl. Þótt þingi hafi oft verið frestað með þessum hætti, er ég sannfærður um að það hefur aldrei verið gert við þær aðstæður, að áður hafi forsrh. gefið í skyn á opinberum vettvangi, í útvarpsviðtali, að hléið kunni einmitt að verða notað til setningar brbl. Það er það sem skilur á milli. Það er það, að ríkisstj. og hæstv. forsrh. hafa marglýst yfir að einmitt á þessum tíma þurfi að gera efnahagsráðstafanir. Þess vegna erum við þm. Alþfl. andvígir þessari till. og teljum hana ólýðræðislega og óviðeigandi.