19.12.1980
Sameinað þing: 38. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1754 í B-deild Alþingistíðinda. (1941)

178. mál, frestun á fundum Alþingis

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Sú till., sem hæstv. forsrh. hefur hér mælt fyrir, gengur út á það, að minni hl. löggjafarsamkomunnar afsali sér löggjafarvaldi nú um sex vikna skeið eða svo, m.ö.o., þingið leysi sjálft sig upp og skilji löggjafarvaldið eftir hjá um það bil 30 þm. eða kannske rétt rúmlega það. Eins og hv. þm. og formaður Alþfl., Kjartan Jóhannsson, hefur hér upplýst, er þetta auðvitað ólýðræðislega að farið, enda engin ástæða til. Það hlýtur að vera krafa a.m.k. þeirra þm., sem nú á að fara að svipta umboði, að þeir hafi einhverja hugmynd um til hvers sá meiri hl. þm., sem eftir situr með þetta vald, ætlar að nota það. Og það er sérstaklega eitt sem mér leikur forvitni á að vita: Á að nota þetta vald, sem rúmlega 30 þm. ætla sér að fara með núna í sex vikur, til þess að svíkjast aftan að sparifjáreigendum? Það er alveg ljóst, að samkv. lögum nr. 13/1979 hafa sparifjáreigendur heit löggjafarvaldsins fyrir því, að hagsmunir þeirra muni verða verndaðir frá og með næstu áramótum. Þetta er alveg ótvírætt í lögum nr. 13 frá 1979 og þessu til undirstrikunar má vísa í orð hv. þm. Halldórs Ásgrímssonar, sem hann viðhafði í Nd. 10. mars s.l., en þá sagði hann — og hann er að tala um Seðlabankann: „Honum ber að haga framkvæmd laganna með þeim hætti sem um getur í lögunum, þannig að full verðtrygging verði komin á í lok 1980.“ Þetta voru orð hv. þm. Halldórs Ásgrímssonar, og hér var vísað til þess í gær, að sömu orð hefur hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson haft um þessi efni. Það hlýtur að vera krafa okkar, þess minni hl. þm. sem nú á að fara að svipta umboði, að bæði hæstv. forsrh. sem og þessir þm. svari því, með hvaða hætti þeir ætla að fara með það vald sem þeir nú ætla að taka sér í krafti síns meiri hl. og þó einkum og sér í lagi gagnvart sparifjáreigendum.

Ég ítreka þá spurningu til hæstv. forsrh., sem hann áður hefur verið spurður um þessi efni: Með hvaða hætti ætlar núverandi þingmeirihluti að nota sér það vald sem hann nú er að fara fram á? Stendur til að svíkjast aftan að sparifjáreigendum, að draga úr því sem þeim hefur verið heitið? Ég tel einnig rétt að spyrja þá þm. sem um þessi mál hafa fjallað - og beini þeirri spurningu ekki síst til hv. þm. Halldórs Ásgrímssonar, sem er formaður fjh.- og viðskn. Nd.: Hefur hann einhverjar hugmyndir um það á þessu stigi, hvort til standi með lagasetningu í því þinghléi, sem nú er verið að fara fram á, að breyta þeim hagsmunum eða þeim fyrirheitum sem sparifjáreigendum voru gefin með löggjöf frá árinu 1979? Ég ítreka þessa spurningu til hæstv. forsrh.: Getur hann einhverjar hugmyndir gefið okkur um það á þessu stigi, hvernig með þessi mál skuli farið.

Ég endurtek og undirstrika þau rök, sem fram komu hjá hv. þm. Kjartani Jóhannssyni, að við teljum hér gersamlega ólýðræðislega að farið og að engin ástæða sé til slíks. Það hlýtur að vera krafa þess minni hl. þingheims, sem nú á að fara að svipta völdum um sex vikna skeið, að einhverjar hugmyndir liggi fyrir um það, hvernig með þetta vald á að fara.