19.12.1980
Sameinað þing: 38. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1754 í B-deild Alþingistíðinda. (1942)

178. mál, frestun á fundum Alþingis

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Það er talað um nú í sambandi við till. þá sem hér er til umr. um frestun þingsins, að þó að þingi sé venjulega frestað í jólaleyfi með sama hætti og hér er lagt til, þá séu núna sérstakar aðstæður fyrir hendi. Og þessar aðstæður eru þær, að það liggur í loftinu og við verðum að gera ráð fyrir því, að það verði alveg á næstunni — og þá á meðan þingið situr ekki — gerðar ráðstafanir í efnahagsmálunum. Það kann að vera, að oft þurfi að gera ráðstafanir í efnahagsmálum, en það stendur sérstaklega á núna. Það hefur aldrei staðið eins á áður. Það er ákveðið, að um næstu áramót fari fram gjaldmiðilsbreyting, svo sem kunnugt er. Það er algert einsdæmi.

Það eru allir sammála um það, að nauðsynlegt sé að gera sérstakar ráðstafanir í efnahagsmálunum vegna gjaldmiðilsbreytingarinnar, og það þurfi að vera um að ræða sérstaka stefnumótun í efnahagsmálunum af þessum ástæðum. Þetta eru allir sammála um. Sú staðreynd liggur líka fyrir, að það er ekki búið að gera þessar ráðstafanir. Enginn neitar því.

Í síðasta mánuði fóru fram ítarlegar umræður varðandi fsp. frá mér til hæstv. viðskrh. um það, hvort ekki væri ráð að endurskoða fyrirætlanir um gjaldmiðilsbreytingu vegna þess að engin heildarstefna og tillögur um heildaraðgerðir í efnahagsmálunum lægju fyrir. Það var rætt á þriggja vikna tímabili í nóv., í nálega þrjá daga, um þetta mál hér á Alþingi. Umræðurnar snerust fyrst og fremst um það, hvaða ráðstafanir hæstv. ríkisstj. ætlaði að gera í efnahagsmálunum í sambandi við gjaldmiðilsbreytinguna. Svo sem kunnugt er fékkst ekkert svar við þeirri spurningu. Að því leyti voru þessar umræður árangurslausar. En þessar umræður báru þó árangur sem ekki verður lítið fram hjá og ég vil vekja athygli á í þessum umræðum.

Því var yfir lýst af hálfu ríkisstj., að það yrði ekki farið fram hjá Alþingi þegar mótuð yrði heildarstefna í efnahagsmálunum í sambandi við gjaldmiðilsbreytinguna. Þetta kom skýrast fram í beinni fsp. í þessum umræðum sem borin var fram af hv. þm. Matthíasi Á. Mathiesen. Með leyfi hæstv. forseta vil ég lesa hér upp þessa fsp. Hún er svo hljóðandi:

„Mega alþingismenn gera ráð fyrir því, að áður en þeir fara heim í jólaleyfi fái þeir að sjá hér á borðum sínum tillögur ríkisstj. í sambandi við þær ráðstafanir sem hún telur nauðsynlegt að gera vegna myntbreytingarinnar sem fram á að fara um áramót?“

Hæstv. viðskrh. svaraði þessari beinu fsp. á þennan hátt, með leyfi hæstv. forseta:

„Til þess að svara spurningu hv. þm. Matthíasar Á. Mathiesens vil ég aðeins segja það, að ríkisstj. mun að sjálfsögðu leggja sín mál fyrir Alþingi þegar hún leggur fram tillögur sínar um aðferðir í efnahagsmálum. Um það þarf ekkert að efast. Ég ætla ekki að fara að tiltaka neinar ákveðnar dagsetningar við þetta tækifæri, en hv. þm. geta alveg treyst því, að ríkisstj. mun leggja fyrir Alþingi tillögur sínar um aðgerðir í efnahagsmálunum, sem eru nauðsynlegar og geta að mínu mati ekki beðið lengi.“

Hæstv. ráðh. lauk þessum orðum með því að segja: „sem að mínu viti geta ekki beðið lengi.“ Hvenær var þetta sagt? Þetta var sagt í umræðum 4. nóv. s.l. Það gerðu allir ráð fyrir því, að tillögur ríkisstj. kæmu áður en þingi yrði frestað. Orð hæstv. viðskrh. urðu ekki skilin á annan veg. Yfirlýsing viðskrh. verður ekki skilin á aðra leið en þá, að í henni felist loforð af hálfu ríkisstj. um það, að málið verði lagt fyrir Alþingi, tillögur í efnahagsmalum varðandi gjaldmiðilsbreytinguna. Þetta getur ekki þýtt það, að hæstv. viðskrh. hafi verið að lofa því, að lagt yrði fyrir Alþingi frv. til staðfestingar á brbl. Það var ekki verið að tala um það í þessum umræðum og það var út í hött að lofa slíku. M.ö.o. verður ekki annað séð en að af hálfu hæstv. ríkisstj. hafi því verið lýst yfir hér á Alþingi 4. nóv. s.l., að tillögur ríkisstj. í efnahagsmálunum varðandi gjaldmiðilsbreytinguna yrðu lagðar fyrir Alþingi. Nú hefur það ekki verið gert, og kannske veit ríkisstj. ekki í dag hvaða tillögur hún ætlar að gera. En það er ljóst, að það verður að gera þá kröfu nú, að staðið verði við yfirlýsinguna frá 4. nóv. Og til þess að sjá svo um, að það verði gert, getur hv. Alþingi ekki samþykkt þá frestunartillögu sem hér liggur fyrir. Alþingi getur ekki gert það undir neinum kringumstæðum eins og nú stendur á, og þeim mun fremur þar sem hæstv. forsrh. hefur látið liggja að því, að einmitt á þessu frestunartímabili verði settar fram tillögur og sett lög um aðgerðir í efnahagsmálunum í sambandi við gjaldmiðilsbreytinguna.