19.12.1980
Sameinað þing: 38. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1756 í B-deild Alþingistíðinda. (1943)

178. mál, frestun á fundum Alþingis

Forsrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Hv. stjórnarandstæðingar, sem hér hafa tekið til máls, hafa talið að út af fyrir sig væri ekki athugavert að veita heimild til að fresta Alþingi ef allt væri með eðlilegum hætti, en vegna þess að við búum við alveg sérstakar aðstæður í efnahags- og atvinnumálum sé ekki hægt á það að fallast. Við þetta má bæta kröfum um yfirlýsingar um að ekki verði beitt valdi til að gefa út brbl., a.m.k. í sambandi við almennar efnahagsráðstafanir.

Þegar ég hlustaði á þessar umræður fannst mér þær koma nokkuð kunnuglega fyrir sjónir og fór að rifja það upp, að fyrir þremur árum eða um þetta leyti árið 1977 flutti þáv. forsrh., sem hét Geir Hallgrímsson, sams konar till. og hér er um að ræða. Leiðtogar stjórnarandstöðunnar hétu þá Lúðvík Jósepsson og Gylfi Þ. Gíslason og fluttu báðir ræður, þar sem annar þeirra sagði sem svo, að út af fyrir sig væri ekkert við það að athuga að fresta Alþingi ef um venjulegar og eðlilegar kringumstæður væri að ræða. Hins vegar væri nú svo ástatt, að hér væri um stórfelld vandamál hjá atvinnuvegum landsmanna að ræða og að undanförnu hefði ekkert — blátt áfram ekkert verið fengist við úrræði til að ráða bót á þessum gífurlegu vandamálum í efnahags- og atvinnumálum. Gylfi Þ. Gíslason hafði svipuð orð um, að vegna þess mjög svo alvarlega ástands, sem ríkti hjá atvinnuvegum þjóðarinnar, þar sem allir atvinnuvegir gerðu stórfellda kröfu til ríkisvaldsins í því efni, að fyrirsjáanlegur væri stórkostlegur rekstrarhalli á frystiiðnaðinum o.s.frv., þá væri ekki hægt að fallast á að senda Alþingi heim.

Án þess að ég taki undir þessi ummæli stjórnarandstæðinganna á þeirri tíð, þá er hér efnislega beitt alveg sömu rökum og nú er. Og því til viðbótar kröfðust þeir þess báðir, þessir leiðtogar stjórnarandstöðunnar, að stjórnin lýsti yfir að hún mundi ekki nota vald til að gefa út brbl. um þessi efni. Þessu svaraði hæstv. forsrh. Geir Hallgrímsson þannig:

„Ég lýsi því hér yfir, að ríkisstj. mun að sjálfsögðu, ef nauðsyn krefur, gefa út brbl. Heimild ríkisstj. til útgáfu brbl. er bundin í stjórnarskránni við það, að um brýna nauðsyn sé að ræða, og innan þess ramma mun ríkisstj. beita því valdi sínu.“

Þáv. hæstv. forsrh. tók því ekki til greina þessar ástæður eða þessi rök.

Í rauninni hef ég svarað því hér áður í umræðum á Alþingi, að vitanlega mun ríkisstj. ekki afsala sér neinu valdi til þess að gefa út brbl., ef brýn nauðsyn krefur, eins og stjórnarskráin ákveður. Að því leyti eiga sömu svör við nú og fyrir þrem árum.

Hv. stjórnarandstæðingar, sem hér hafa talað, bera allir mikla umhyggju fyrir svokölluðum Ólafslögum og vitna í þau óspart. Þeir þm. Alþfl., sem hér töluðu, virðast bera alveg sérstaklega fyrir brjósti hag sparifjáreigenda sem núv. ríkisstj. muni ekki gæta að fullu. Ég vil í því sambandi minna á það, að það er fyrst í tíð núv. ríkisstj. sem að hennar fyrirlagi hefur verið stofnað til verðtryggðra sparireikninga í bönkum, sem ekki hafa verið til áður. Og í stjórnartíð þessara manna, sem bera svo mikla umhyggju fyrir sparifjáreigendum, — en þeir réðu miklu um stjórn landsins um nokkurt skeið eða rúmlega eitt og hálft ár ekki alls fyrir löngu,-komu þeir því aldrei í verk á þeirri tíð að gefa sparifjáreigendum tækifæri til að fá fulla verðtryggingu með því að leggja fé sitt í sparisjóði eða banka. Það var ekki til. Það er fyrst nú, í tíð þessarar stjórnar, sem þessi möguleiki er fyrir hendi.

Varðandi vexti og verðtryggingar er það auðvitað, að við ákvarðanir um þau mál verður farið að lögum nú eins og áður.

Ég þarf í rauninni ekki að fara fleiri orðum til að svara hv. stjórnarandstæðingum. Þeir hafa talið sér henta að gera þessar kröfur, sem við könnumst mjög vel við, að fá yfirlýsingar frá ríkisstj. um að ekki verði gefin út brbl. í þinghléi. Ég ætla að það sé ekki aðeins í þessu tilviki sem ég nefndi, frá forsrh.-tíð Geirs Hallgrímssonar, hv. 1. þm. Reykv., heldur áður oftast eða undantekningarlítið, þegar fram á slíkt hefur verið farið, að ríkisstj. hafi hafnað slíkum yfirlýsingum sem eðlilegt er, vegna þess að þetta vald er henni fengið samkv. stjórnarskránni. Það er bundið þar föstum skilyrðum, að um brýna nauðsyn sé að ræða, og þess vegna er ekki hægt fyrir neina ríkisstj. að afsala sér þessu valdi.