19.12.1980
Sameinað þing: 38. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1767 í B-deild Alþingistíðinda. (1946)

178. mál, frestun á fundum Alþingis

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Hæstv. viðskrh. hefur nú raunar komið inn á þau efni sem ég ætlaði að gera hér að umræðuefni. Ég hjó eftir því, að hæstv. forsrh. sagði fyrr í dag í ræðu sinni aðspurður um vaxta- og vertryggingarmál efnislega á þá leið, að um vexti og verðtryggingu yrði farið að lögum. Sömu hugsun og nánast með sama orðalagi túlkar hæstv. viðskrh. nú.

Nú var á þessum hæstv. ráðherrum að skilja, sem ég veit að þeir skilja auðvitað mætavel, að einstaklingar hegða sér flestir á þann veg sem ríkisvald ætti að gera, þ.e. þeir gera áætlanir um sinn fjárhag. Bæði sparendur og skuldarar í þessu landi verða auðvitað að geta haft um það nokkra hugmynd með hverjum hætti ríkisvaldið hyggst hegða sér í þessum efnum. Það er pólitískur ódrengskapur við þetta fólk að láta það svífa gjörsamlega í lausu lofti um það, með hvaða hætti ríkisvaldið hyggst hegða sér í þessum efnum.

Svo vill til, að það eru lög í landinu um vaxta- og verðtryggingarmál. Þetta eru lög nr. 13 frá 1979, lög um efnahagsmál o.fl. Samkv. þessum lögum er það alveg ljóst, að verðtryggingar eiga að hækka til samræmis við verðbólgu um 10–12% til þess að svokölluðum raunvöxtum verði náð. Verði lögum ekki breytt á þessi efnahagsbreyting að eiga sér stað, þá fer hún fram. Ef orð hæstv, forsrh. fyrr í dag og nú hæstv. viðskrh. eru skilin bókstaflega samkv. íslensku máli og orðanna hljóðan, þá þýða þau ekki annað en það, að þessum lögum verði ekki breytt og að raunvöxtum verði náð. Með hvaða aðferðum sem það verði gert muni verðtryggingu verða náð. Sé farin vaxtaleiðin hækki vextir hér um 10–12% núna um áramót. Með þessum hætti verði sparendum bætt upp margra ára arðrán á þeim.

Það er auðvitað útúrsnúningur ef hæstv. viðskrh. er með þeim orðum, sem hann nú lætur falla, að halda opnum þeim möguleikum að sett verði á síðustu stundu brbl. þar sem komið verði í veg fyrir að þessi efnahagslega aðlögun eigi sér stað, — ef orð hans, að farið verði að lögum, geta bókstaflega þýtt allt, geta þýtt að verði ekkert aðhafst muni vextir hækka, en geta jafnframt þýtt að möguleiki sé opinn til að sett verði brbl. sem breyti þessum ferli öllum. Ég spyr því enn og aftur: Hvað á ráðh. við? Hvort á hann við að engin lög verði sett og að efnahagslegi ferillinn í vaxta- og verðtryggingarmálum verði sá, að vextir muni hækka og raunvöxtum verði hér náð eins og lög nr. 13 frá 1979 gera ráð fyrir, eða er hann að gefa í skyn eða hóta að þeir ætli að nota sér það bráðabirgðalagavald, sem þeir eru að fara fram á og væntanlega munu fá, til þess að breyta þessum ferli? Hann segir: Það verður farið að lögum. Þetta er gott og gilt svo langt sem það nær. En hvort á hæstv. ráðh. við og hvort átti forsrh. við í dag, að sparendur megi eiga von á því að þeir séu þarna að svíkjast aftan að þeim með því að breyta lögum á síðustu stundu og breyta þessum ferli, eða ætla þeir ekki að aðhafast og láta raunvexti eiga sér stað nú eins og lög gera ráð fyrir?

Ég endurtek það, að ég tel að sparendur í landinu eigi kröfu á því, að það sé ljóst núna, þegar verið er að svipta helminginn af löggjafarsamkomunni sínu valdi, — og þar með marga þá sem hafa talið sig vera að berjast fyrir málstað sparifjáreigenda hér og er ekki sama um það að verða sviptir þessu valdi, sem ég tel auk þess bæði vera gamaldags og óheppilega aðferð í alla staði, en gott og vel, — að svona muni þetta ná fram að ganga. Ég krefst þess, að því sé skýrt svarað, við hvort hæstv. ráðh. eigi þegar þeir segja að farið verði að lögum. Eiga þeir við það, að ekkert verði aðhafst og að Seðlabankinn muni framfylgja þessum lögum svo sem bókstafurinn gerir ráð fyrir og hv. þm., a.m.k. Halldór Ásgrímsson og Guðmundur G. Þórarinsson, hafa sagt að þýði það, að vextir muni hækka, eða ætla þeir að ryðjast inn á þennan feril með brbl. — setningu og hafa fjármuni af sparendum í landinu? Svörin, sem við höfum fengið hjá þeim báðum, hæstv. forsrh. og viðskrh., hafa verið hreinn útúrsnúningur. Og ég endurtek þessa röksemdafærslu. Þeir segja að farið verði að lögum. En hvaða lögum? Lögunum sem gilda núna í landinu, sem þýða vaxtahækkun, eða ætla þeir að breyta ferlinum með nýrri lagasetningu, með brbl.-setningu? Eiga sparendur von á því, að kannske nokkrum dögum eða klukkustundum áður en þessi lög eiga að ganga í gildi núna um áramót svíkist þeir aftan að þeim? Og það eru ekki margar klst. enn þá fyrir okkur, þessa óbreyttu þm. sem á að fara að svipta umboði núna á næstunni, til að spyrja þessarar spurningar. Ég endurtek því þessar spurningar til hæstv. ráðh.: Hvað á hæstv. ráðh. Tómas Árnason við þegar hann segir að farið verði að lögum? Á hann við það, að lögin verði látin standa óbreytt og að vextir muni hækka, eða er hann að gefa því undir fótinn, að með nýrri lagasetningu eigi eina ferðina enn að svíkjast aftan að þessu fólki? Ég treysti því, að hæstv. ráðh. svari því núna þannig að landslýð verði ljóst hvora leiðina þeir hyggjast fara.